Spáum Leo og The Revenant sigri - Spotlight gæti stolið sviðsljósinu

Spáum Leo og The Revenant sigri - Spotlight gæti stolið sviðsljósinu

Komið ykkur vel fyrir í sófanum og búið ykkur undir hlátur, grátur og glamúr! Á sunnudaginn verða Óskarsverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í 88. skipti. Hátíðin er jafnan talin hápunktur kvikmyndaársins og þykir það hinn mesti heiður að hreppa gullstyttuna góðu. Ávallt hefur mikill spenningur skapast í kringum verðlaunaafhendinguna. Hver verður í glæsilegasta kjólnum á rauða dreglinum? Hvað munu sigurvegararnir segja í geðshræringu sinni (hver hefur ekki séð þegar Sally Field hrópaði: „You like me! Right now! You like me!“ eftir að hún hreppti titilinn besta leikkona í aðalhlutverki)? Sennilega er þó mesta eftirvæntingin fyrir aðalverðlaunum hátíðarinnar; bestu kvikmyndinni!

Að þessu sinni bítast átta kvikmyndir um heiðurinn: The Big Short, Bridge of Spies, Brooklyn, Mad Max: Fury Road, The Martian, The Revenant, Room og Spotlight.

Fljótt á litið virðast þessar myndir ekki eiga mikið sameiginlegt, í hópnum eru þrjár ævintýramyndir, einn þriller og fjórar dramamyndir. Þrjár myndir byggja á sönnum atburðum, ein mynd gerist í Ameríku í kringum 1820, önnur í Ástralíu-eftir-kjarnorkustyrjöld og þar önnur á Mars. Stóra spurningin er: Hver þeirra er sigurstranglegust? Til að svara spurningunni höldum við í stutt ferðalag inn í heim hagfræðinnar.

Hvernig getur hagfræði sagt til um Óskarsverðlaunin?

Bandaríska kvikmyndaakademían sem velur verðlaunahafana samanstendur af reyndu fólki úr kvikmyndaiðnaðinum og byggir val sitt væntanlega á listrænu mati. Flestir starfsmenn Greiningardeildar eru hagfræðingar og þrátt fyrir (að okkar mati) næmt listrænt auga er okkur tamara að beita hagrannsóknum, þ.e. að nota sambönd á milli breyta í fortíðinni til að spá fyrir um framtíðina, heldur en að treysta á okkar listræna innsæi til að spá fyrir um sigurvegara hátíðarinnar.

Árið 2005 útbjó hagfræðingurinn Andrew Bernard nokkuð snjallt probit-líkan1 til að meta sigurlíkur keppnismyndanna. Líkanið byggði á tveimur frammistöðustikum þ.e. fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna og fjölda Gullhnatta (e. Golden Globes) sem myndin vann. Þá var gamanmyndum sleppt þar sem fullkomin fylgni var á milli þess að vera gamanmynd og að tapa titilbaráttunni.

Greiningardeild hefur tvisvar sinnum2 notað líkan Bernard til að spá fyrir um sigurvegara Óskarsverðlaunanna, með arfaslökum árangri. Í fyrra skiptið, árið 2012, spáðum við jöfnum slag á milli Lincoln og Les Misérables, en gáfum sigurmyndinni Argo lítinn gaum. Ári seinna stóð 12 Years a Slave uppi sem sigurvegari en við höfðum spáð að Gravity myndi taka slaginn.

Nýtt líkan – betri spá?

Í ljósi þess hve illa hefur tekist til að spá fyrir um sigurmyndina höfum við ákveðið að skipta um gír og taka nýtt líkan til notkunar. Staðreyndin er sú að gamla líkanið, hið einfalda líkan Bernards, hefur staðið sig mun verr við að spá fyrir um sigurvegara Óskarsverðlaunanna upp á síðkastið en það gerði þegar það kom fyrst fram á sjónarsviðið. Þetta endurspeglar helsta vandann við notkun tölfræðilíkana við spágerð, en þau nýta tölfræðileg sambönd fortíðarinnar til að spá fyrir um framtíðina, óháð því hvort sambandið eigi ennþá við rök að styðjast. Þannig virðist hafa dregið í sundur með akademíunni og erlendum blaðamönnum þar sem viðbótar Gullhnöttur hefur síður afgerandi áhrif en áður. Kannski er akademían orðin ófyrirsjáanlegri en áður og kannski skiptir máli að tilnefningum var fjölgað úr fimm í allt að tíu árið 2009, við ætlum svo sem ekki að leggja mat á það hér.

Hið nýja líkan Greiningardeildar byggir á fjórum frammistöðustikum: fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna, fjölda Gullhnatta, fjölda BAFTA3 (e. the British Academy of Film and Television Arts) verðlauna og hvort myndin hafi hlotið SAG-verðlaunin4 (e. Screen Actors Guild Awards) fyrir besta leikhópinn.

Skýribreyturnar eru þannig góður hitamælir á hversu hlýjar móttökur myndirnar hljóta hjá erlendum blaðamönnum, leikurum og öðrum sérfræðingum innan bransans. Líkanið spáir rétt fyrir 13 af 20 sigurvegurum Óskarsverðlaunanna á tímabilinu 1995-2014, sem við fyrstu sýn er kannski ekki sannfærandi forspárgeta, en það sem mestu máli skiptir er að það virðist takast betur á við aukinn ófyrirsjáanleika síðustu ára en eldra líkanið.

Og Óskarinn hlýtur....

Samkvæmt líkani Greiningardeildar stefnir allt í óspennandi slag um titilinn, en The Revenant virðist hafa þetta í hendi sér með hvorki meira né minna en 65% líkur á sigri. Þar á eftir koma Mad Max og Spotlight en aðrar myndir virðast eiga minni möguleika. Er þetta nokkurn veginn í takti við spár veðbanka, en þeir spá The Revenant sigri eftir harða samkeppni við Spotlight.

Þrátt fyrir að engir kvikmyndasérfræðingar séu innan raða Greiningardeildar er þar að finna mikla kvikmyndaáhugamenn sem fylgst hafa spenntir með verðlaunatímabilinu og metið sigurlíkur kvikmynda eftir niðurstöðum þess. Hvernig kvikmyndum vegnar á hinum ýmsu verðlaunahátíðum gefur oftar en ekki ágæta vísbendingu um hver stendur eftir með pálmann í höndunum á lokakvöldinu – eða í þessu tilfelli Óskarinn í höndunum. Þannig hefur akademían verið sammála kvikmyndagagnrýnendum (e. Critics‘s Choice Awards) tólf sinnum á síðustu tuttugu árum og leikstjórum (e. Directors Guild of America Awards) átján sinnum. Að úthluta kvikmyndum stigum eftir því hvaða verðlaun þær hljóta, þar sem flest stig eru í pottinum fyrir verðlaun sem hafa mikla fylgni við smekk akademíunnar, gefur eftirfarandi niðurstöðu:

Aftur stendur The Revenant uppi sem sigurvegari, með 45 stig af 100, enda hefur hún sópað til sín verðlaunum að undanförnu. Spotlight og The Big Short fylgja á eftir, með 29 og 22 stig hvor. Báðar myndirnar hafa unnið mikilvæg verðlaun á tímabilinu, sem hleypir svo sannarlega lífi í keppnina og eykur möguleika þeirra á sigri.

Árið sem Leo fær Óskarinn

Að lokum höfum við úthlutað stigum til leikara og leikkvenna sem tilnefnd eru í aðalhlutverki til að meta sigurlíkur þeirra. Stigagjöfin er lítið eitt frábrugðin því sem lýst var hér að ofan að því leyti að ekki eru aðeins gefin stig fyrir sigra á verðlaunahátíðum heldur einnig fyrir einkenni.

• Frá upphafi Óskarsverðlaunanna hefur helmingur sigurvegara fyrir besta leik í aðalhlutverki aldrei verið tilnefndir áður
• Aðeins 40 einstaklingar hafa unnið verðlaunin oftar en einu sinni.

Það virðist því vinna með keppendum að vera fersk andlit á sjónarsviði akademíunnar. Af þeim sökum gefum við tilnefndum aðila stig ef hann hefur aldrei verið tilnefndur áður og/eða ef hann hefur aldrei unnið til Óskarsverðlauna áður. Þá fær keppandi einnig stig ef persónan sem hann leikur er/var til í alvörunni.

Allt bendir til þess að Leonardo DiCaprio, fyrir leik sinn í The Revenant, og Brie Larson, fyrir leik sinn í Room, haldi heim með gullstyttuna eftirsóttu, en þegar kemur að sigurlíkum bera þau höfuð og herðar yfir aðra keppendur.

Burtséð frá allri tölfræði þá er hátíðin sjálf hin besta skemmtun, allt frá stjórnuprýddum rauða dreglinum til brandaranna hans Chris Rock. Í orðum listamannanna sjálfra: „Það skiptir ekki máli hver vinnur, það er nægur heiður að vera tilnefndur.“ Með þessum orðum óskum við ykkur, lesendum góðum, gleðilegrar Óskarshelgar!

 

 

1) Probit-líkön meta líkur á því að breytan taki gildið 1 en ekki 0. Í þessu tilfelli metur líkanið þannig líkurnar á því að mynd sigri.
2) Þar má sjá nánari útlistun á líkani Bernards.
3) Ef myndin hlaut verðlaun sem besta kvikmyndin vegur það sem tvenn verðlaun þar sem mjög sterkt samband er á milli þess að hljóta þann heiður og að vinna aðalverðlaun Óskarshátíðarinnar.
4) Í ljósi þess að SAG-verðlaunin voru veitt fyrst árið 1995 var ákveðið að stytta gagnasafnið. Það nær því yfir 20 ára tímabil þ.e. 1995-2014.