Metafgangur af utanríksviðskiptum árið 2015

Metafgangur af utanríksviðskiptum árið 2015

Þjónustuafgangur árið 2015 nam 191 milljarði króna árið 2015 skv. bráðabirgðatölum, sem er 56 ma.kr. meira en árið 2014. Aftur á móti jókst vöruskiptahalli í fyrra svo vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 155 ma.kr. sem er 31 ma.kr. meira en árið áður. Hvort tveggja þjónustafgangur og afgangur af vöru- og þjónustviðskiptum hefur aldrei verið meiri. Sé nánar rýnt í tölur um þjónustuviðskipti má sjá sem fyrr að aukningin og mikill útflutningur skýrist að langmestu leyti af ferðaþjónustu, þó aðrar greinar séu einnig að sækja fram.

Innflutningur jókst mikið í fyrra og súpa sjálfsagt margir hveljur ef við bendum á að innflutningur þá var meiri á föstu gengi heldur en árið 2007. Þrennt verður þó að hafa í huga í því samhengi. Í fyrsta lagi hefur hagkerfið aftur náð vopnum sínum og virðist sem hér hafi myndast framleiðsluspenna. Í öðru lagi hefur útflutningur vaxið um 51% síðan 2007 svo innflutningurinn hefur ekki verið fjármagnaður með erlendu lánsfé að þessu sinni með áhættunni sem því fylgir. Einnig má benda á að aukin þörf hefur skapast fyrir innflutning í tengslum við aukin umsvif í útflutningsgreinum, sérstaklega ferðaþjónustu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ferðaþjónustan ráðandi en nýsköpunar- og tæknigeirinn virðist vera að taka við sér

Þjónustuútflutningurinn er nær allur tilkominn vegna „ferðalaga“ og „samgangna og flutninga“ en þessir liðir stóðu undir 73% af þjónustuútflutningi í fyrra. „Ferðalög“ mæla neyslu ferðamanna og ca. 75-80% af „samgöngum og flutningum“ eru „Farþegaflutningar með flugi“ (öll starfsemi íslenskra flugfélaga fellur hér undir) svo þarna birtist vægi ferðaþjónustunnar í útflutningi. Samgöngur og flutningar jukust um 11% milli ára en ferðalög um 35% og því meira en sem nemur fjölgun ferðamanna (29%) svo meðalneysla þeirra virðist hafa aukist.

Talsverð aukning var í útflutningi tveggja minni liða: Gjöld fyrir notkun hugverka jókst um 70% (12 ma.kr) og útflutningstekjur af fjarskipta-, tölvu og upplýsingaþjónustu jukust um 20% (5 ma.kr). Báðir þessir liðir uxu einnig mikið árið 2014, svo það er jákvætt fyrir hagkerfið að fleiri útflutningsgreinar séu í vexti um þessar mundir þar sem það dregur úr einhæfni hagkerfisins. Fyrir skömmu fjölluðum við um að nýsköpunar- og tæknigeirinn virðist vera í talsverðri sókn og svo virðist sem aukning útflutnings í ofangreindum flokkum beri þess merki.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Þjónustuafgangurinn tilkominn vegna ferðaþjónustu

Auðvelt er að sjá að án ferðaþjónustu, og jafnvel án vaxtar hennar síðustu ár, væri halli á viðskiptum við útlönd að öðru óbreyttu. Samanlagður þjónustujöfnuður „ferðalaga“ auk „samgangna og flutninga“ nam 218 ma.kr. árið 2015 svo að ef hann hefði verið núll hefði þjónustujöfnuðurinn verið neikvæður um 28 ma.kr. í fyrra. Ef við bætum svo við vöruskiptahallanum sem nam 35,5 ma.kr. værum við með vöru- og þjónustujöfnuð sem næmi 63 ma.kr. halla í stað 155 ma.kr afgangs eins og raunin var. Þetta undirstrikar hversu háður þjóðarbúskapurinn er orðinn ferðaþjónustu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Meðalneysla ferðamanna eykst áfram

Þrátt fyrir sterkara gengi, mælt með gengisvísitölu, jókst meðalneysla ferðamanna í fyrra. Það gæti þó skekkt myndina að fimmtungur ferðamanna árið 2015 kom frá Bandaríkjunum en krónan var að jafnaði 13% veikari gagnvart bandaríkjadal í fyrra en árið áður. Þó má sjá að meðalneysla á ferðamann hefur vaxið jafnt og þétt frá 2009 sem vonandi er vísbending um að markmið um að fá til landsins „betur borgandi“ ferðamenn sé að bera árangur.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka. *4F 2015 áætlaður af Greiningardeild