Arðgreiðsluhlutfall upp á 3,8% í Kauphöllinni

Arðgreiðsluhlutfall upp á 3,8% í Kauphöllinni

Sextán íslensku félaganna á aðallista Kauphallarinnar skiluðu hagnaði á síðastliðnu ári og útlit er fyrir að þau muni greiða eigendum samtals 37 ma.kr. á þessu ári í formi arðgreiðslna og/eða niðurfærslu og kaupa á eigin bréfum í framhaldi af afkomu ársins 2015. Markaðsvirði eigin fjár þessara sömu félaga er samtals um 973 ma.kr. og því má segja að hluthafar séu að fá arðgreiðslu sem nemur 3,8% af markaðsvirði eigin fjár. Með einföldun mætti segja að sá sem keypti körfu hlutabréfa í Kauphöll Íslands fengi kaupverðið endurgreitt á 19 árum m.v. óbreytt arðgreiðsluhlutfall og þar sem arður væri árlega endurfjárfestur aftur á markaði. Hér er bæði um að ræða tilkynnt áform um arðgreiðslur og áætluð kaup á eigin bréfum í samræmi við stefnu félaganna um skuldsetningu.

Þegar fjárfestir leggur félagi til eigið fé samsvarar það lánsfjármögnun að því leyti að hann vill fá ávöxtun með sama hætti og á skuldabréfi sem veitir árlega vaxtagreiðslur. Arðgreiðslur eru því í grunninn ekki ósvipaðar vaxtagreiðslum á skuldabréfi þar sem eigandi fær hluta sinnar ávöxtunarkröfu til baka. Munurinn er sá að arðgreiðslur eru mun sveiflukenndari og taka mið af arðgreiðslugetu og -stefnu félagsins hverju sinni. Þess vegna er yfirleitt gerð hærri ávöxtunarkrafa á eigið fé (hlutabréf) en á lánsfé.

Heimild: Tilkynningar félaga, Kodiak og áætlun Greiningardeildar. Reikningsár Haga er annað og nær til 29. febrúar 2016 og áætlun er miðuð við það

Það er ekki aðeins með útgreiddum arði og kaupum eigin bréfa sem hluthafar fá ávöxtun á fjárfestingu í hlutabréfum. Ógreiddur hagnaður bætist við eigið fé og eykur virði þess. Oft er það mat eigenda að eigið féð skuli vera grundvöllur vaxtar eða bættrar eiginfjárstöðu sem bæti hag félagsins til framtíðar, m.ö.o. auki möguleika félagsins til arðgreiðslna í framtíðinni. Að sama skapi geta eigendur félaga verið þeirrar skoðunar að eigið fé félaga sé mun meira en réttlæta megi með vaxtarmöguleikum. Í þeim tilvikum ákveða þeir að greiða út meiri arð en sem nemur hagnaði og auka skuldsetningu með það að markmiði að auka arðsemi á hvern hlut.

Heimild: Tilkynningar félaga, Kodiak og áætlun Greiningardeildar. Reikningsár Haga er annað og nær til 29. febrúar 2016 og áætlun er miðuð við það.

Um arðgreiðslur og fjármagnsskipan

Að baki ákvörðun félaganna í Kauphöllinni um útgreiðslu fjármagns til hluthafa liggja ólíkar ástæður. Þau félög sem hæstan arð greiða af markaðsvirði eru tryggingafélögin en samtals munu þau líklega greiða um 19% af markaðsvirði til hluthafa sinna. Bæði kemur það til af góðri ávöxtun fjárfestingareigna, sem vó upp á móti dræmri afkomu af vátryggingastarfsemi þeirra, sem leiddi til þess að arðsemi eigin fjár félaganna var að meðaltali tæp 13% á árinu. Til viðbótar er það mat eigenda að eigið fé þeirra sé of mikið í ljósi vaxtarmöguleika og því sé hagkvæmt að greiða umfram eigið fé til hluthafa. Innleiðing nýrrar löggjafar um vátryggingastarfsemi ræður líklega miklu um tímasetningu arðgreiðslu nú og á síðasta ári. Í umræðu dagsins hefur svo há arðgreiðsla verið gagnrýnd og nær væri að láta tryggingataka njóta. Það er samt þannig, eins og fram kom hér að ofan, að eigið fé hluthafa er í raun eins og lánsfé að því leyti að það krefst ávöxtunar og eigendur binda fé í hlutum í von um arðgreiðslur. Ef ekki kæmi til arðgreiðslu hefðu hluthafar staðið frammi fyrir því annað hvort að gefa eftir virði eignar sinnar eða krefjast hærri ávöxtunar á fjármagn til framtíðar. Hér má hafa í huga að lífeyrissjóðir landsmanna eiga um 40% af eigin fé skráðu tryggingafélaganna. Varla er það hlutverk sjóðfélaga lífeyrissjóða að niðurgreiða vátryggingar viðskiptavina tryggingafélaga?  

En það er ekki aðeins í tilviki tryggingafélaganna sem áform um breytta fjármagnsskipan ræður för um útgreiðslu eigin fjár. Vodafone hyggst kaupa/færa niður eigin bréf fyrir um 2,5 ma.kr. eða fyrir sem samsvarar fjórðungi af bókfærðu eigin fé eða 16% af markaðsvirði eigin fjár. Þar er væntanlega það sama upp á teningnum, eigendur telja að með aukinni skuldsetningu megi auka arðsemi á hvern hlut og hófleg áform eru uppi um vöxt félagsins. Eiginfjárhlutfall Vodafone var í lok árs 59% en mun væntanlega standa í 43% að afloknum kaupum á eigin bréfum.

Ólík stefna skráðra félaga

Hér býr að nokkru leyti að baki sú hugsun að eigið fé sé dýrari fjármögnun en lánsfé. Eigendur bæði eigin fjár og lánsfjár verða hins vegar að hafa vakandi auga fyrir því að áhætta sem fylgir aukinni skuldsetningu rýri ekki ávinning aukinnar arðsemi á hlut. Það er því vel til fundið þegar félög birta arðgreiðslustefnu og stefnu um markmið í skuldsetningu líkt og fjölmörg skráð félög gera.

Eins og sjá má á þeim súluritum sem fylgja þessum Markaðspunkti er afar misjafnt hve mikill arður er greiddur. Tvö félög greiða væntanlega engan arð, Nýherji sem hefur viljað styrkja eiginfjárstöðuna frekar og Reginn sem er hefur verið í nokkuð örum vexti. Arðgreiðslur Icelandair taka mið af endurnýjun flugvélaflota félagsins með tilheyrandi aukinni skuldsetningu og full ástæða er fyrir félagið að mæta þeim fjárfestingarkúf með sterka eiginfjárstöðu. Í tilviki Eimskips er skuldsetning lítil en þar sem félagið hyggur á talsverðan ytri vöxt vill félagið halda eiginfjárstöðunni sterkri. Loks má benda á að Marel réðst nýlega í yfirtöku á stóru félagi, MPS í Hollandi, og af henni aflokinni verður skuldsetning Marel rétt undir efri mörkum markmiðs félagsins um skuldsetningu og því svigrúm til arðgreiðslna lítið.