Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Þann 16. mars nk. verður tilkynnt um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og spáum við því að vextir verði óbreyttir. Þó svo að tónn nefndarinnar verði áfram harður og talsvert meiri verðbólga gæti verið í kortunum teljum við að óvissa um áhrif komandi aflandskrónuútboðs auk annarra þátta verði ofan á í ákvörðuninni. Sem fyrr teljum við samt að framhald verði á hækkun meginvaxta á árinu. Á þriðjudag kynnir Greiningardeild nýja Hagspá sem m.a. mun fela í sér spá um þróun stýrivaxta.

Ef tölur um landsframleiðslu á síðasta fjórðungi 2015, sem Hagstofan birtir á morgun, sýna meiri vöxt innlendrar eftirspurnar en reiknað var með, aukast líkur á vaxtahækkun. Einnig gætu orð peningastefnunefndar í síðustu fundargerð um „nauðsyn þess að nefndin væri framsýn í ákvörðunum sínum og brygðist tímanlega við verri langtímaverðbólguhorfum“ haft meira vægi en e.t.v. virðist við fyrstu sýn. Þá gæti skipt máli að næsti skipulagði fundur peningastefnunefndar verður ekki fyrr en 11. maí næstkomandi.

Enn vísbendingar um þörf fyrir aukið aðhald

Þrátt fyrir vaxandi þenslu og launahækkanir langt umfram framleiðnivöxt hefur nær allt annað lagst á sveif með peningastefnunni síðustu misseri auk þess sem hún virðist vera að hafa tilætluð áhrif, sem t.a.m. kemur fram í auknum sparnaði heimila. Áhrif launahækkana og vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum munu þó að öllum líkindum brjótast fram með einhverjum hætti á næstu misserum eins og sjá má í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans. Af þeim sökum reiknum við enn með því að vextir munu halda áfram að hækka á árinu.
Ef tekið er mið af verðbólguspá Seðlabankans þurfa vextir að hækka um meira en 2 prósentur næstu 18 mánuði til að halda raunvöxtum þeim sömu og þeir eru í dag. Framsýnn Taylor ferill, sem Seðlabankinn notar í þjóðhagslíkani sínu, bendir til þess að að vextir nú séu nærri því 2 prósentum undir því sem þeir ættu að vera.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Eitt af því sem vinnur nú með peningastefnunni er að talsverður styrkingarþrýstingur hefur verið á krónunni undanfarið. Eins og við höfum bent á er líklegt að svo verði áfram næstu mánuði hið minnsta, sem myndi styðja við verðbólgumarkmið. Hversu mikið og hvort gengi krónunnar mun styrkjast ræðst að mjög miklu leyti af því hvað Seðlabankinn gerir sjálfur. Á árinu hingað til hefur Seðlabankinn keypt erlendan gjaldeyri að andvirði rúmlega 70 ma.kr. sem er um 63% af veltu á gjaldeyrismarkaði. Dragi Seðlabankinn úr gjaldeyriskaupum sínum eru líkur á að krónan styrkist meira en ella sem hefði hamlandi áhrif á verðbólgu.

Sagan bendir til vaxtahækkana

Ef við horfum lengra aftur í tímann og skoðum raunvaxtastigið í samhengi við framleiðsluspennu má sjá að þessar stærðir fylgjast nokkuð vel að, enda er það í samræmi við peningastefnuna. Ef við horfum fram veginn með spá Seðlabankans um framleiðsluspennu og verðbólgu, en höldum vöxtum óbreyttum, er ljóst að undir lok árs slaknar verulega á taumhaldi peningastefnunnar og á tæpu ári lækka raunvextir um meira en 2%. Á sama tíma væri framleiðsluspenna við hámark, svo slík raunvaxtalækkun myndi engan veginn samræmast verðbólgumarkmiði. Í síðustu fundargerð Peningastefnunefndar kemur fram að sökum lægri langtímaverðbólguvæntinga væri mögulega unnt að hækka vexti minna í þessari uppsveiflu til að halda verðbólgu í markmiði. Þá ætlar Seðlabankinn að stemma stigu við neikvæðum áhrifum vaxtamunarviðskipta sem gæti einnig þýtt betri miðlun peningastefnunnar og þá minni þörf fyrir vaxtahækkunum heldur en ella.

Peningastefnunefnd hefur allt þetta vafalaust í huga og þó að vextir verði ekki endilega hækkaðir að þessu sinni má fastlega gera ráð fyrir áframhaldandi hækkunartón í næstu viku. Færa má rök fyrir því að peningastefnunefnd ætti að bregðast við strax eða fljótlega þar sem miðlun peningastefnunnar tekur marga mánuði. Að okkar mati væri þó skynsamlegra að bíða enn um sinn.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ólíkir kraftar toga í verðbólgu

Sé rýnt í nýjustu verðbólgutölur má sjá að lítil merki eru um að launahækkanir séu að bitna á verðlagi, en fyrrnefnd gengis- og hrávöruþróun hefur þar líklega mikið að segja. Það sem helst hefur drifið áfram verðbólgu er húsnæðisliðurinn, aðallega vegna 8,2% hækkun reiknaðrar húsaleigu. Sá liður sem kemur næst á eftir er hótel- og veitingastaðir, sem gæti verið vegna veldisvaxandi fjölgunar erlendra ferðamanna. Á hinum endanum hefur liðurinn ferðir og flutningar lækkað um 3,1% helst vegna lægra olíuverðs, sem hafði einnig lækkað mikið fram að febrúar í fyrra. Einnig hefur póstur og sími lækkað um nærri 8%, en það skýrist fyrst og fremst af breyttum mæliaðferðum Hagstofunnar. Það er ágæt áminning um að vísitala neysluverðs er ekki óskeikull mælikvarði á verðbólgu.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Uppgjör félaga í Kauphöllinni sýna að launahækkanir bíta í hagnað

Sé rýnt í nýjustu uppgjör fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands má sjá aðra vísbendingu um hvað hefur haldið aftur af verðhækkunum, en fyrirtæki hafa hingað til tekið hluta af launahækkunum af hagnaði sínum auk þess að hafa gripið til eða boðað aðhaldsaðgerðir. Í síðustu uppgjörstilkynningu Fjarskipta hf. segir „Hækkun launa í tengslum við kjarasamninga dró úr rekstrarhagnaði á síðasta fjórðungi ársins“ og í uppgjörstilkynningu Haga hf. í desember segir: „Rekstrarkostnaður hækkar því um 95 milljónir króna umfram framlegðaraukningu á tímabilinu“. Þá má sjá í uppgjöri N1 hf. fyrir árið 2015 að launakostnaður á starfsmann hækkaði um 8,9%. Í fjárfestakynningu Símans vegna síðasta uppgjörs segir:„Viðbótarkostnaður Símans vegna SALEK nemur að óbreyttu rúmlega 250 milljónum króna, umtalsverð launahækkun jafnframt umsamin árið 2017“. Að lokum var launakostnaður Eimskips 19% hærri á fjórða ársfjórðungi 2015 en á sama tíma 2014 og í hlutfalli af tekjum var hann næstum tveimur prósentustigum yfir meðaltali síðustu fjögurra ára.

Þessi þróun kemur jafnframt fram í hagtölum en launahlutfall, þ.e. hlutur launa í verðmætasköpun, er nú þegar 3,5% yfir 20 ára meðaltali og það stefnir í að það hækki enn frekar. Stóra spurningin er hvort og þá hversu mikið fyrirtæki muni hækka verð til að stemma stigu við þeirri þróun.