Góður gangur í hagkerfinu 2015 – 14% vöxtur frá 2010

Góður gangur í hagkerfinu 2015 – 14% vöxtur frá 2010

Hagstofan birti í gær tölur um landsframleiðslu árið 2015 og uppfærði fyrri tölur allt aftur til ársins 2013. Hagvöxtur í fyrra var 4% og var hann drifinn áfram af aukningu þjóðarútgjalda (6,3%) – þ.e. einkaneyslu og fjárfestingu. Einnig jókst útflutningur umtalsvert (8,2%) og var sá vöxtur að mestu leyti drifinn áfram af ferðaþjónustu. Á móti vegur mikil aukning innflutnings (13,5%) svo framlag utanríkisverslunar til landsframleiðslu var neikvætt. Innflutningur var meiri en við höfðum áður spáð og fjárfesting minni en að öðru leyti eru tölurnar í takt við okkar væntingar.

Hafa ber í huga að þessar tölur eru til bráðabirgða og gætu breyst á næstu árum. Það hefur oft verið raunin enda uppfærði Hagstofan nú tölur fyrir 2013 og 2014, einkum vegna endurskoðunar fjárfestingar upp á við. Hagvöxtur var 4,4% árið 2013 sbr. við 3,9% skv. fyrri tölum og 2% árið 2014, sem er 0,2 prósenta hækkun.

Heimild: Hagstofa Íslands

Sterkir kraftar í mismunandi áttir

Sé horft í hlutdeild eða framlag undirliða til hagvaxtar má sjá mikinn vöxt í efnahagsumsvifum á síðasta ári. Hagvöxturinn var að mestu leyti drifinn áfram af einkaneyslu (2,5% framlag til hagvaxtar) og fjárfestingu (3,2% framlag) en á móti kemur neikvætt framlag utanríkisverslunar (-2%) þar sem innflutningur jókst meira en útflutningur, annað árið í röð. Framlag utanríkisverslunar var þó enn lægra árið 2014 en í ár vegur þungt að útflutningur hefur ekki vaxið jafn mikið (8,2%) síðan 2009 og framlag til hagvaxtar (4,3%) ekki meira síðan 2007 þegar Alcoa Fjarðaál opnaði.

Sem fyrr segir er eitt helsta frávik frá okkar októberspá að fjárfesting var undir væntingum okkar en innflutningur yfir væntingum og samanlagt hafði það áhrif til minni hagvaxtar. Hvað varðar fjárfestingu er rétt að benda á að hún hefur undanfarið verið færð upp á við fyrir árin 2013 og 2014. Ef Hagstofan heldur áfram að vanmeta fjárfestingu gæti því verið að hagvöxtur árið 2015 hafi verið lítillega vanmetinn. Í það minnsta kæmi það okkur ekki á óvart ef íbúðafjárfesting yrðii færð upp á við, þar sem eftirspurnin hefur vaxið hratt og virðisaukaskattskyld velta í byggingum húsnæðis jókst um 27% milli ára.

 

 

Heimild: Hagstofa Íslands

Hvað gerðist á síðasta ársfjórðungi?

Ef við horfum á breytinguna milli ára á síðasta árfjórðungi sést að atvinnuvegafjárfesting jókst gríðarlega. Stórar fjárfestingar í skipum og flugvélum skýra það að talsverðu leyti, sem kemur einnig fram í miklum vexti innflutnings. Séu þeir liðir dregnir frá er aukning atvinnuvegafjárfestingar 31% í stað 43%. Einkaneysla jókst (+6,1%) meira en á sama fjórðungi 2014, en tölur um kortaveltu einstaklinga höfðu gefið fyrirheit um það.

Við höfum áður fjallað um að íbúðafjárfesting hafi valdið vonbrigðum á síðasta ári, einkum þar sem það liggur í augum uppi að eftirspurnin er til staðar ef horft er til verðhækkana ásamt fólksfjölgun og fjölgunar ferðamanna. Því er jákvætt að íbúðafjárfesting tók nokkuð hressilega við sér á fjórða ársfjórðungi og jókst um 9,7% samanborið við nokkurn samdrátt á hinum þremur fjórðungum ársins.

 

Heimild: Hagstofa Íslands

Virðisaukaskattskyld velta gefur vísbendingu um rætur hagvaxtar

Samhliða þjóðhagsreikningum voru birtar tölur um virðisaukaskattskylda veltu atvinnugreina sem getur gefið vísbendingu um hvað er að gerast í hagkerfinu og fá betri innsýn í hverjar rætur hagvaxtar eru um þessar mundir. Velta er vissulega ekki það sama og verðmætasköpun, sem landsframleiðsla mælir, og þarna er hluti veltunnar í hagkerfinu undaskilinn. Engu að síður getur þróunin gefið vísbendingu um hvað er á seyði.

Hér að neðan má sjá þær atvinnugreinar þar sem veltuaukningin var mest í krónum talið en þessar atvinnugreinar stóðu undir 80% af allri aukningu í virðisaukaskattskyldri veltu á árinu 2015. Í fyrra var góð loðnuvertíð og verð sjávarafurða hátt sem birtist í því að velta í sjávarútvegi jókst mest í krónum talið (35 ma.kr.), en sökum þess hve stór atvinnugreinin er fyrir er hlutfallsleg aukning í takt við heildarveltuaukningu. Svipaða sögu má segja um framleiðslu málma, sem álverin falla undir, en þar jókst velta um 6%. Árið 2015 jókst innflutningur fólksbíla um 47%, sé horft til fjölda bíla, auk þess sem sala hefur aukist sem gerir að verkum að virðisaukaskattskyld velta hefur aukist næst mest í þeim flokki í krónum talið. Víðar má sjá merki um aukna einkaneyslu en velta í smásölu- og heildverslun jókst á árinu sem leið. Einnig birtast aukin umsvif á fasteigna- og fjármálamörkuðum í aukinni veltu.

Senuþjófurinn er þó ferðaþjónustan líkt og undanfarin ár. Velta í flugi jókst um 13% í fyrra og velta í leigustarfsemi um 25% en undir þeim flokki eru bílaleigur. Veltuaukning umfram aðrar atvinnugreinar varð einnig í veitingasölu- og þjónustu (16%) og rekstri gististaða (19%), sem skýrist vafalaust að miklu leyti af fjölgun ferðamanna. Þá eru ótaldar minni atvinnugreinar tengdar ferðaþjónustu líkt og ferðaskrifstofur, skipuleggjendur og önnur bókunarþjónusta, þar sem velta jókst um 44% milli ára.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.