Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í mars

Spáum 0,6% hækkun neysluverðs í mars

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% milli mánaða í mars. Það er nokkuð minni hækkun en á sama tíma í fyrra en þá hækkaði VNV um 1,02%. Gangi spáin eftir mun árstaktur verðbólgunnar lækka úr 2,2% í 1,7%. Við gerum ráð fyrir að ársverðbólgan mælist undir 2% á næstu mánuðum og jafnvel inn á þriðja ársfjórðung. Engu að síður fara áhrif af lækkandi verði innfluttra vara dvínandi og má nefna að bensínverð hækkar nú milli mánaða í fyrsta sinn í níu mánuði. Haldi sú þróun áfram gæti það skilað sér í aukinni verðbólgu til lengri tíma litið. Helstu liðir sem hækka í spá okkar eru föt og skór (+0,23% áhrif á VNV), ferðaliðurinn (+0,20% áhrif á VNV) og húsnæðisliðurinn (+0,15% áhrif á VNV). Hagstofan birtir mælingu á VNV þann 30. mars næstkomandi.

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Spá okkar fyrir næstu mánuði breytist lítið og spáum við að verðlag hækki um 0,3% í apríl, 0,1% í maí og 0,3% í júní. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,8% í júní.

Afnám tolla á föt og skó ekki að skila sér út í verðlag?

Við spáum því að útsöluáhrifin gangi til baka í mars en að hækkanir verði þó minni en í fyrra, enda voru lækkanir í janúar frekar mildar í ár. Gert er ráð fyrir að föt og skór hækki um rúm 5% (+0,23% áhrif á VNV) og eru því hrein áhrif af útsölum á fyrsta ársfjórðungi svipuð og undanfarin ár. Það virðist því vera sem afnám tolla á föt og skó hafi takmörkuð áhrif enn sem komið er en miðað við forsendur fjárlaga var gert ráð fyrir að aðgerðin gæti lækkað VNV um 0,5% til 0,6%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Ferðaliðurinn hækkar

Ferðaliðurinn hækkar myndarlega í mánuðinum (+0,20% áhrif á VNV). Eldsneytisverð hækkar í fyrsta sinn síðan í júní í fyrra (+0,06% áhrif á VNV). Ástæðuna má rekja til hækkunar á hráolíuverði á heimsmörkuðum. Ekki er útilokað að hráolía haldi áfram að hækka á næstunni en miðað við mikla birgðastöðu á alþjóðavísu um þessar mundir og vísbendingar um dvínandi eftirspurn á heimsvísu teljum við líklegt að olíuverð haldist frekar lágt næstu mánuði. Við gerum ráð fyrir hækkun flugfargjalda til útlanda (+0,14% áhrif á VNV) og er það svipuð þróun og í fyrra. Aðrir liðir hafa minni áhrif.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Hækkun húsnæðisverðs – fastur liður eins og venjulega

Hækkun húsnæðisverðs (+0,13% áhrif á VNV) virðist vera orðinn fastur liður við mælingu neysluverðs en síðasta lækkun húsnæðisverðs mældist í júní í fyrra. Við gerum ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki einnig lítillega (+0,02% áhrif á VNV). Miðað við nýbirtar landsframleiðslutölur virðist íbúðarfjárfesting á síðasta ári hafa verið afar slök og því er ekki að sjá að húsnæðisframboð sé að vaxa í takt við eftirspurn. Það er því fátt sem getur komið í veg fyrir áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Aðrir undirliðir VNV breytast minna en helst má nefna að póstur og sími heldur áfram að lækka (-0,03% áhrif á VNV) og einnig lækka matvörur (-0,02% áhrif á VNV). Aftur á móti hækka aðrar vörur og þjónusta (+0,03% áhrif á VNV).

Lítil verðbólga vel inn á árið en innflutt verðhjöðnun fer dvínandi

Áfram gerum við ráð að verðbólgan haldist undir 2% næstu mánuði og ef gengi krónunnar styrkist á árinu gæti það endurspeglast í lítilli verðbólgu á seinni hluta ársins. Þegar horft er til gjaldeyriskaupa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði undanfarið virðist mikið gjaldeyrisinnflæði benda til þess að meiri líkur séu á styrkingu en veikingu á næstu misserum. Í fyrstu vikunni í mars keypti Seðlabankinn 5 ma.kr. en í febrúar keypti bankinnn um 20 ma.kr. Miðað við taktinn gætu kaupin numið hátt í 250 ma.kr. á þessu ári og myndi það styrkja hreinan gjaldeyrisforða Seðlabankans sem nú nemur um 370 ma.kr. Þetta eru nokkuð sterkar tölur og því ekki útilokað að gengi krónunnar styrkist lítillega á næstunni. Á hinn bóginn má nefna að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fer dvínandi og vekur sértaka athygli okkar hækkun eldsneytisverðs. Ef sá viðsnúningur verður að innfluttar vörur hækka í verði í stað þess að lækka, líkt og undanfarin misseri, myndi það skila í aukinni verðbólgu.
Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Apríl +0,3%. Húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,1%. Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt húsnæðisverði.
  • Júní +0,3%. Hótel og veitingastaðir og ferðaliðurinn hækka ásamt fasteignaverði.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka