Tíðindalítil vaxtaákvörðun en tíðindamikill ársfundur

Tíðindalítil vaxtaákvörðun en tíðindamikill ársfundur

Í morgun var yfirlýsing peningastefnunefndar birt og var vöxtum haldið óbreyttum að þessum sinni. Yfirlýsingin er sú stysta sem komið hefur frá nefndinni í næstum eitt og hálft ár og þar að auki er óhætt að fullyrða að ekkert nýtt komi þar fram. Nær sömu orð má finna þar og í síðustu yfirlýsingum: „...líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“
Á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar kom fram að stóra myndin væri nánast óbreytt. Í svörum seðlabankastjóra við spurningum sem lagðar voru fyrir hann, vísaði hann til þess að frekari upplýsingar um gjaldeyrisútboð, hömlur á gjaldeyrisinnflæði og notkun gjaldeyrisforða myndu koma fram á morgun á ársfundi Seðlabankans eða í ársskýrslu bankans. Því verður forvitnilegt að fylgjast með hvað þar kemur fram, en fundurinn hefst klukkan 16.

Óvenju stutt yfirlýsing og lítið fréttnæmt

Það kom okkur nokkuð á óvart að ekkert nýtt kæmi fram að þessu sinni í yfirlýsingu peningastefnunefndar sökum þess að langt er í næsta fund og ýmislegt er að gerjast um þessar mundir. Þá var hún óvenju stutt og leita þarf aftur til október 2014 til að finna styttri yfirlýsingu. Framsýn leiðsögn er nær orðrétt sú sama og undanfarið: „Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.“ Einnig var minnst á að hagvöxtur í fyrra hafi verið nálægt febrúarspá bankans, útlit væri fyrir kröftugum hagvexti á næstu misserum og loks fjallað örstutt um verðbólguþróun og -horfur.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Tíðinda að vænta á ársfundi Seðlabankans – tilkynnt um gjaldeyrisútboð?

Í svörum seðlabankastjóra við spurningum á kynningarfundi í kjölfar yfirlýsingarinnar kom skýrt fram að dregið gæti til tíðinda á ársfundi Seðlabankans sem fer fram á morgun klukkan 16. Aðspurður um tíðindi af aflandskrónuútboði sagði seðlabankastjóri lítið, en benti á að „Ársfundur Seðlabankans verður á morgun. Ég held að það sé ágætt að leggja þar við hlustir. Kannski verður þar eitthvað aðeins meira kjöt á beinunum þar.“ Einnig kom fram að Alþingi þyrfti að gera lagabreytingar vegna útboðsins en skammur tími er til að leggja fram ný frumvörp á þessu þingi og því hlýtur að draga til tíðinda á næstu dögum eða vikum. Ef marka má ofangreind orð seðlabankastjóra verður það líklega á morgun.
Varðandi hömlur á fjármagnsinnflæði og vaxtamunaviðskipti sagði Már að bankinn vildi hafa tól til þess að bregðast við of miklu innflæði ef svo þarf. „Tæki sem er vonandi yfirleitt alltaf stillt á núll en er hægt að grípa til“ sagði Már og vísaði aftur til ársfundarins á morgun varðandi frekari tíðindi. Þó bætti hann því við að þetta tæki þyrfti helst að vera tilbúið þegar aflandskrónuútboðið fer fram.
Á morgunfundi Greiningardeildar, þar sem ný Hagspá var kynnt, kom fram að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri að vaxa hratt um þessar mundir og gæti jafnvel nálgast 1.000 milljarða króna undir lok árs að teknu tilliti til aflandskrónuútboðs. Seðlabankastjóri sagði að ef forðasöfnunin væri orðin of mikil væri hægt að hleypa lífeyrissjóðum út í meira mæli efir að útboði lýkur. Jafnframt benti hann á að núverandi höft á útflæði en frjálst innflæði skapaði skekkju sem söfnun forðans á að vinna á móti. Aftur var vísað í ársfundinn og sagði Már að „nákvæmari upplýsingar verða veittar í ársfundarræðu minni á morgun.“

Spáum vaxandi verðbólgu undir lok árs

Óhætt er að segja að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi aukist mikið undanfarið og í nýbirtri hagspá gerum við ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Aukinn kaupmáttur endurspeglast í kortaveltutölum, sem birtar voru í fyrradag, en kortavelta einstaklinga jókst um 16,3% milli ára í febrúar sem er mesti vöxtur síðan 2007. Í nýrri hagspá spáum við að verðbólgan fari að taka við sér á seinni hluta ársins samhliða vaxandi kaupmætti og aukinni framleiðsluspennu. Einnig mun verðbólguþrýstingur aukast þegar áhrifa hrávöruverðslækkana og verðhjöðnunar í innfluttu verðlagi taka að fjara út. Miðað við hve dræm íbúðafjárfesting hefur verið upp á síðkastið teljum við að fasteignaverð haldi áfram að hækka og kynda undir verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga nálgist 3% á síðasta ársfjórðungi í ár, nái svo hámarki á öðrum ársfjórðungi 2017 þegar hún mælist 4,5% en fari svo dvínandi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, spá Greiningardeildar Arion banka