Ungt fólk hefur setið eftir í kaupmáttaraukningu: Hvers vegna?

Ungt fólk hefur setið eftir í kaupmáttaraukningu: Hvers vegna?

Að undanförnu hefur aukinn tekjuójöfnuður eftir kynslóðum í hinum vestræna heimi verið í eldlínunni. Úttekt breska dagblaðsins The Guardian, hlaut á dögunum mikla athygli og svo virðist sem nær engin þróuð ríki séu undanskilin þessari þróun. Áður hafði The Economist fjallað um að ungt fólk í heiminum væri í raun „undirokað“ af þeim sem eldri eru.

Þessar umfjallanir vöktu athygli okkar og við ákváðum að kanna hvort svipað hefði verið uppi á teningnum hér á landi. Ef litið er til þess hvernig tekjur eftir aldurshópum hafa þróast síðan 1990 er niðurstaðan í takt við það sem kemur fram í umfjöllun The Guardian – ungt fólk hefur setið eftir. Ráðstöfunartekjur einstaklinga, á föstu verðlagi jukust um 41% að meðaltali frá 1990 til 2014, en drógust á sama tíma saman um 17% meðal 16-19 ára, jukust um 7% hjá 20-24 ára og hækkuðu um 13% hjá 25-29 ára. Með öðrum orðum hefur fólk undir þrítugu setið eftir og raunar hefur fólk undir tvítugu í dag minna á milli handanna heldur en fólk undir tvítugu í byrjun 10 áratugsins, ef marka má gögnin.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við nánari skoðun má sjá að þarna er aðallega að verkum mismunandi aukning atvinnutekna milli kynslóða sem erí takt við myndina hér að ofan. Breytt tekjudreifing innan aldurshópa virðist frekar ýkja muninn milli aldurshópa, þar sem tekjuójöfnuður hefur aukist í yngri aldurshópunum, en minnkað hjá öðrum. Tekjur kvenna hafa almennt hækkað meira á tímabilinu, en atvinnuþáttaka þeirra hefur aukist og dregið hefur úr launamun kynjanna. Árið 1990 höfðu karlar 80% hærri ráðstöfunartekjur en munurinn var 27% árið 2014. Þetta hefur ekki áhrif á heildarmyndina því óháð kynjum hallar á þá yngstu hvað varðar aukningu ráðstöfunartekna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Skilyrt meðaltal, eingöngu þeir sem hafa tekjur.

Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir hugsanlega áhrifaþætti ofangreindrar þróunar. Afar mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um ítarlega rannsókn að ræða og því ekki hægt að draga sterkar ályktanir.

Hvenær gerðist þetta?

Myndin hér vinstra megin að neðan sýnir hvenær tekjubilið breikkaði, nánar tiltekið hvernig laun þeirra yngstu hafa þróast í hlutfalli við laun annarra. Á 10. áratugnum var launaþróun fólks undir þrítugu áþekk því sem gerðist í öðrum aldurshópum. Upp úr aldamótum, þegar ráðstöfunartekjur tóku að vaxa enn hraðar, breikkaði bilið milli 16-29 ára og 30-64 ára um 2% á ári að jafnaði. Eftir að kaupmáttur féll í kjölfar fjármálakreppunnar snerist þróunin lítillega við en eftir að efnahagsbatinn hófst hefur hlutfallið haldist nokkuð stöðugt. Niðurstaðan er sú að síðan árið 2000 hafa tekjur fólks undir 30 ára aldri setið eftir.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Er minni atvinnuþátttaka og aukin skólasókn ungs fólks skýringin?

Auðvelt er að draga þá ályktun að þarna sé á ferðinni minnkandi atvinnuþátttaka ungs fólks vegna aukinnar skólasóknar. Við fyrstu sýn er það hluti af skýringunni þar sem skólasókn ungs fólk jókst hvað mest á þeim tíma sem það skildi mest á milli aldurshópa, eða um 4-10 prósentustig eftir aldurshópum. Með meiri skólasókn minnkar tími til atvinnu eðli málsins samkvæmt.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ef við horfum á sjálfan vinnumarkaðinn virðist málið þó ekki svo einfalt og í fljótu bragði virðist skýringuna ekki að finna þar. Niðurstöður vinnumarkaðsrannsókna skiptast ekki í sömu aldursflokka og hér að ofan, en það breytir þó ekki heildarmyndinni að okkar mati og vísa má til fyrstu myndarinnar því til rökstuðnings. Á myndinni hér að neðan sést að atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi hefur aukist mun meira hjá 16-24 ára heldur en hjá öðrum aldurshópum frá 1991. Meðalvinnutími þeirra sem eru í vinnu meðal yngsta aldursbilsins hefur minnkað meira en hjá eldri, en aftur á móti hefur meðalvinnutími allra einstaklinga í þeim hópi ekki styst umfram aðra. Þó að við skoðuðum eingöngu árin 2000 til 2007 þá styttist vinnutími 25-54 ára mun meira heldur en meðal 16-24 ára, einmitt á þeim tíma sem meðaltekjur 25-54 ára hækkuðu hvað mest. Það er því fátt sem bendir til þess að beint vinnuframlag, í sambandi atvinnuþátttöku og fjölda vinnustunda, skýri bilið í launaþróun ungs fólks og annarra. Það eina hér sem virðist geta verið orsakavaldur er mikil aukning hlutastarfa hjá þeim yngstu, á kostnað fullra starfa.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Vegna annarra þátta á vinnumarkaði?

Þó að erfitt sé að greina merki um orsakir launabilsins í vinnumarkaðsrannsóknum er mögulegt að breyttar kröfur á vinnumarkaði séu skýringin fyrir því að fólk á bilinu 30-40 ára og einkum fólk undir þrítugu hafi setið eftir. Hagkerfið hefur orðið sérhæfðara og tæknivæddara sl. 25 ár svo ætla má að umbunað sé meira en áður fyrir gott samspil af reynslu og menntun.

Vísbending um að fótur sé fyrir þessari tilgátu má finna í því hvernig laun starfsstétta á almennum markaði hafa þróast frá 1998. Laun á hverja klukkustund hafa hækkað um 43% að raunvirði á tímabilinu en laun þeirra sem eru í stjórnunarstöðum hafa hækkað um 58%. Ef við skoðum einfalt meðaltal af launahækkunum allra stétta, án stjórnenda, nemur hækkunin 25%, svo að launahækkanir hafa almennt verið drifnar af miklu leyti af hækkun launa stjórnenda. Þetta sést bersýnilega á myndinni hér vinstra megin að neðan. Á myndinni hægra megin sjást laun stjórnenda í hlutfalli við aðra og athyglisvert að sjá að breytingin þar er í nokkrum takti við það sem má sjá í þróun ráðstöfunartekna ungs fólks samanborið við aðra. Taka skal fram að lítil hækkun launa annars konar sérhæfðs starfsfólks er þó í nokkurri mótsögn við tilgátuna um vaxandi mikilvægi sérþekkingar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

En hvernig tengist þetta tekjum þeirra sem yngri eru? Ætla má að stjórnendur séu almennt séð tiltölulega reynslumiklir einstaklingar og því ólíklegra að einstaklingar fái slíka stöðu eftir því sem þeir eru yngri. Því getur verið að þessi hækkun launa stjórnenda umfram aðra endurspeglist því í að ungt fólk hafi setið eftir í launahækkunum síðustu ára. Lengri skólaganga gæti líka spilað þarna inn í þar sem fólk er eldra þegar það hefur sinn formlega atvinnuferil, þó að flestir hafi unnið á sumrin og/eða með skóla frá unglingsaldri.

Þarfnast frekari rannsókna

Skýringarnar gætu verið fleiri en taldar hafa verið upp hér að framan – okkur dettur í hug að yngri kynslóðir í dag fái meiri fjárhagsstuðning frá foreldrum vegna annars vegar lengri skólagöngu og hins vegar vegna þess að mið- og eldri kynslóðir eru betur settar fjárhagslega en áður. Upplýsingar um tekjur byggja á skattframtölum þar sem slíkar millifærslur innan fjölskylda koma líklega síður fram. Einnig má velta því fyrir sér hvort að vaxandi tekjuójöfnuður meðal 16-24 ára, þvert á minnkandi ójöfnuð í öðrum aldurshópum, sé ekki nátengdur því að fleiri eru í námi eða á framfæri foreldra.

Þetta eru þó aðeins vangaveltur. Mögulegt er að hér sé á ferðinni eðlileg þróun og ekki ástæða til sérstakra aðgerða. Ungir Íslendingar búa við betri lífskjör en flestir jafnaldrar þeirra í heiminum. Einnig hafa þeir sjaldan eða aldrei haft jafn mikla möguleika til þess að starfa við það sem þeir vilja þar sem þeir vilja. Auk þess hafa ýmsar tæknibreytingar bætt lífskjör á síðustu árum sem birtast e.t.v. ekki að fullu í rauntekjum einstaklinga.

Aftur á móti er einnig mögulegt að þetta sé óeðlileg þróun og að það sé vaxandi vandamál að ungt fólk hafi síður fengið kaupmáttaraukningu sl. áratugi. Þá má nefna að húsnæðisverð hefur hækkað um 58% umfram vísitölu neysluverðs frá 1997 og húsaleiga um 88%, en húsnæðiskostnaður er að öllu jöfnu sérlega íþyngjandi hjá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði. Ungt fólk er neytendur og fjárfestar framtíðarinnar svo það gæti verið áhyggjuefni fyrir framtíðarefnahagshorfur ef sá þjóðfélagshópur á erfitt með að koma undir sig fótunum.