Verðlag hækkar um 0,37% í mars

Verðlag hækkar um 0,37% í mars

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,37% í mars sem er nokkuð minni hækkun en við áttum von á. Spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,4%-0,8% og er hækkunin því við neðri mörkin. Ársverðbólgan lækkar engu að síður úr 2,2% í 1,5% sökum þess að mikil hækkun VNV í mars í fyrra dettur nú út. Því eru enn líkur á því að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði fram eftir ári.

Þeir liðir sem við reiknuðum með að myndu hækka sem mest voru nokkuð undir væntingum. Þar ber helst að nefna reiknaða húsaleigu sem hækkaði um 0,1% og hefur því hverfandi áhrif á VNV. Þá hækkuðu föt og skór (+0,15 áhrif á VNV) og flugfargjöld til útlanda (+0,07% áhrif) sem hvort tveggja var undir spá okkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spá okkar fyrir næstu mánuði lækkar aðeins og spáum við að verðlag hækki um 0,2% í apríl, 0,1% í maí og 0,3% í júní. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,5% í júní.

Föt og skór hækka minna en gert var ráð fyrir

Í spá okkar fyrir marsmánuð veltum við því upp hvort afnám tolla á föt og skó væri ekki að skila sér út í verðlag. Marsmælingin gefur vísbendingu um að tollaáhrifin skili sér en með nokkrum töfum. Föt og skór hækkuðu um 3,6% (+0,15% áhrif á VNV) þar sem útsölum lauk en við höfðum spáð rúmlega 5% hækkun. Ekki kæmi á óvart ef enn myndi eima af afnámi tolla í næstu mælingum.

Húsnæðisverð stendur í stað þvert á spár

Það kemur nokkuð á óvart að húsnæðisverð (reiknuðu húsaleiga) hækkar einungis um 0,01% milli mánaða og eru því áhrifin á VNV lítil sem engin. Ef horft er framhjá verkfallinu sem stoppaði þinglýsingar tímabundið á síðasta ári þarf að fara aftur til nóvember 2014 til að finna minni hækkun (-0,3% lækkun). Við teljum þó að þetta sé ekki vísbending um temprun á hækkun húsnæðisverðs, þar sem eftirspurn vex hratt en of lítið hefur verið byggt sl. ár. Við gerum því ráð fyrir að húsnæðisverð muni drífa áfram verðbólgu að talsverðu leyti næstu mánuði.

Hóflegar hækkanir flugfargjalda og eldsneytis

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 5% (+0,07% áhrif á VNV) en við spáðum um 10% hækkun. Þá hækkar eldsneytisverð (+0,04% áhrif á VNV) einnig minna en við höfðum gert ráð fyrir en eldsneyti hækkaði síðast í verði í júní á síðasta ári. Því hafði hafði ferðaliðurinn samtals 0,11% áhrif til hækkunar á VNV. Gera má ráð fyrir að flugliðurinn hækki næstu mánuði vegna árstíðabundinna áhrifa en erfiðara er að segja til um eldsneytisverð sem hefur haldist óvenju stöðugt sl. mánuð samanborið við síðustu misseri.

Litlar breytingar á öðrum liðum og innfluttar vörur hækka lítillega

Ef horft er til annarra liða má sjá að breytingarnar eru að mestu litlar og áhrifin á VNV lítil. Helst ber að nefna að verð veitinga hækkar (+0,04% áhrif á VNV) og matarkarfan hækkar sömuleiðis (+0,02% áhrif á VNV). Verð á innfluttum vörum hækkar annan mánuðinn í röð, nú um 0,6%, sem er vísbending um að gengisstyrking á seinni hluta síðasta árs sé að mestu komin fram.

Atvinnuleysi fer hverfandi og verðbólga vel undir markmiði – gengur það upp?

Á sama tíma og ársverðbólgutakturinn dettur niður og flestir undirliðir VNV hækka tiltölulega lítið hafa laun hækkað mjög mikið, eða um 13% í febrúar, og hækkaði kaupmáttur um rúm 10% í febrúar. Miðað við 0,4% hækkun verðlags í mars kæmi ekki óvart þótt að kaupmáttur aukist enn meira. Leita þarf aftur til ársins 1998 til að finna viðlíka kaupmáttaraukningu. Á sama tíma er atvinnuleysi með lægsta móti og mælist árstíðaleiðrétt atvinnuleysi nú 3,2%. Til samanburðar metur Seðlabankinn sem svo að atvinnuleysi undir 4% ýti undir verðbólguþrýsting (sbr. mat á NAIRU). Ein ástæðan fyrir því er að lítið atvinnuleysi eykur samkeppni eftir starfsfólki sem hækkar laun enn meira.

Þessi þróun er að öðru óbreyttu ósjálfbær hvað verðbólgumarkmið Seðlabankans varðar. Gengi krónunnar, viðskiptakjör, alþjóðleg verðlagsþróun og hækkun launahlutfalls hafa hingað til unnið á móti innlendum verðbólguþrýstingi. Þó svo að svo verði áfram og krónan haldi áfram í styrkingarfasa gæti það reynst skammgóður vermir eins og við höfum bent á. Við gerum þó ráð fyrir að við verðum enn í vari fyrir verðbólgudraugnum fram á sumar og jafnvel lengur.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:

  • Apríl +0,2%. Húsnæðisverð og flugfargjöld hækka.
  • Maí +0,1%. Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt húsnæðisverði.
  • Júní +0,3%. Hótel og veitingastaðir og ferðaliðurinn hækka ásamt fasteignaverði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, spá Greiningardeildar Arion banka