Hvernig hefur gengi gjaldmiðla áhrif á verðstöðugleika?

Hvernig hefur gengi gjaldmiðla áhrif á verðstöðugleika?

Nýleg rannsókn bendir til þess að því hærra hlutfall innflutnings sem er verðlagður í erlendri mynt, þeim mun meiri áhrif hafa gengisbreytingar á verðlag í tilteknu hagkerfi. Þetta hefur ýmis konar áhrif, ekki síst á Íslandi þar sem um 90% innflutnings er innheimtur í öðrum myntum en krónu. Á Íslandi hefur gengisleki (áhrif gengis á verðlag) yfirleitt verið metinn talsverður og því auðvelt að sjá hvernig gengisstyrking krónunnar undanfarið hefur haldið aftur af verðbólgu. Því gæti áframhaldandi styrkingarfasi haldið aftur af kostnaðar- og eftirspurnardrifinni verðbólgu – í bili.

Alþjóðlega verðkerfið (e. The International Price System)

Í nóvember sl. gaf Gita Gopinath hjá Harvard háskóla og NBER út rannsóknarritgerð þar sem áhrif utanríkisviðskipta á verðbólgu voru könnuð. Gopinath nefnir til sögunnar Alþjóðlegt verðkerfi, sem hún segir bera tvö megineinkenni:

  1. Megnið af alþjóðlegum viðskiptum á heimsvísu fer fram í örfáum gjaldmiðlum þar sem bandaríkjadollar er sá langalgengasti.
  2. Alþjóðleg verð, í gjaldmiðlinum sem innheimt er í, eru ekki mjög viðkvæm fyrir hreyfingum í gengi gjaldmiðla þegar horft er til tveggja ára tímabils. 

Í þessu kerfi er hlutfall innflutnings sem greitt er fyrir með erlendum gjaldmiðli ágætis nálgun fyrir verðbólgunæmni tiltekins lands gagnvart gjaldmiðlahreyfingum. Þeim mun hærra sem þetta hlutfall er þeim mun næmari er innflutt verðbólga fyrir gengisbreytingum og þ.a.l. fyrir skellum á heimsmörkuðum. Gengisleki (áhrif gengis á almennt verðlag) fer því að miklu leyti eftir umfangi erlendrar myntar í utanríkisviðskiptum.

Gopinath skoðar m.a. Ísland í þessu samhengi. Þar sem gjaldmiðill okkar er smár fer meirihluti innflutnings fram í öðrum gjaldmiðlum en okkar eigin, eða um 90%. Þar að auki er hagkerfið fremur háð innflutningi sem gerir heildaráhrifin á verðlag meiri heldur en í ríkjum minna háðum innflutningi, t.d. Japan sem er sérstaklega fjallað um í ritgerðinni. Því kemur ekki á óvart að gengisleki hér á landi virðist meiri en víða annars staðar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Gengisleki á Íslandi – lítil verðbólga þökk sé styrkingu krónunnar

Minni verðbólguvæntingar, hagræðing fyrirtækja og lækkandi hrávöruverð, ásamt öðru, hefur lagst gegn undirliggjandi verðbólguþrýstingi hér á landi sl. ár eða svo. Einnig hefur gengisstyrking krónunnar sl. 2 ár haft talsverð áhrif, en hve mikil? Það ræðst af gengislekanum sem aftur ræðst að miklu leyti, eins og fyrr segir, af því hversu hátt hlutfall innflutnings er rukkaður í erlendri mynt. Ef við horfum á vísitölu neysluverðs standa innfluttar vörur undir 31,5% úgjalda heimila. Út frá því getum við sagt, með mikilli einföldun á gengisáhrifum, að gengislekinn (e. exchange rate pass-through) sé 0,315: Ef gengið veikist um 10%, þá hækkar almennt verðlag um 3,15% og öfugt ef gengið styrkist. Þessi mælikvarði er þó ekki óskeikull. Í nýuppfærðu þjóðhagslíkani Seðlabankans er skammtímagengislekinn einungis 0,11 samanborið við 0,25 í fyrri líkönum. Þá er gengislekinn áætlaður um 0,4 eftir 2 ár í sérriti Seðlabankans Peningastefnan eftir höft.

Mismunandi niðurstöður rannsókna á gengisleka hér á landi undirstrika að erfitt er að henda reiður á hversu mikill hann er. Ástæður þess eru margar, t.d. að áhrifin eru oft lengi að koma fram, verð innfluttra vara hafa óbeint áhrif á önnur verð, gengi krónunnar hefur áhrif á eftirspurn og þar að auki virðast áhrifin vera mismunandi yfir tíma. Þá eru einnig vísbendingar um að gengislekinn sé ósamhverfur, þ.e. að áhrif gengisbreytinga eru mismikil eftir því hversu stór breytingin er og hvort um er að ræða veikingu eða styrkingu. Allt þetta spilar vafalítið inn í að gengislekinn hefur verið metinn á nokkuð breiðu bili.

Gengi krónunnar hefur einnig mikil áhrif á aðrar hagstærðir en verðlag. Í ritinu Íslenskur sjávarútvegur – staða og framtíð sem Greiningardeild vann í samstarfi við fyrirtækjasvið bankans og Sjávarklasann er í kaflanum Bölvun eða blessun fjallað um hvernig framlag sjávarútvegs til landsframleiðslu ræðst að nokkru leyti af gengi krónunnar. Að gefnum forsendum um hlutfall innlends kostnaðar og gengisleka má ætla að uppsafnaður virðisauki sjávarútvegs frá 2009 til 2013 hafi verið um 250 milljörðum króna minni ef gengi krónunnar hefði styrkst um 10% árlega.

Hvað ef? Hugsanleg verðbólga miðað við mismunandi gengisþróun

Hér að neðan er gerð tilraun til að varpa ljósi á hvernig gengi krónunnar hefur áhrif á verðbólgu. Athuga skal að þetta eru einungis sviðsmyndir um möguleg áhrif gengisbreytinga en ekki spár úr líkönum Greiningardeildar. Ástæður þess að við sýnum þetta svona að þessu sinni eru í fyrsta lagi að áhrif gengisbreytinga á haglíkön, eins og hagkerfi, eru óljós og flókin, sem endurspeglast bersýnilega í mismunandi mati Seðlabankans og annarra á gengisleka. Í öðru lagi er einfaldleikinn oft bestur til að átta sig á hlutunum. Á vinstri myndinni hér að neðan sjáum við verðbólgu frá árinu 2011 og undirliggjandi innlenda verðbólgu að gefnum mismunandi forsendum um gengisleka sem kemur inn með töf. Þannig sýna bleiku og fjólubláa línurnar hvernig verðbólga hefði mögulega getað þróast sl. 5 ár ef gengið hefði haldist óbreytt frá hruni. Sjá má að að gefnum forsendum hefur styrking krónunnar frá 2010 haldið aftur af verðbólgu. Skv. þessu væri verðbólga nú á bilinu 2,7-6,3% og teljum við afar líklegt að verðbólgan lægi á þessu bili ef krónan hefði ekki styrkst um 9% síðastliðna 12 mánuði.

Hægra megin má svo sjá verðbólgusviðsmyndir miðað við veikingu og styrkingu krónunnar í samhengi við verðbólguspá Greiningardeildar, sem gerir ráð fyrir föstu gengi. Hér er annars vegar gert ráð fyrir 0,4 gengisleka og hins vegar því að gengið hafi bein áhrif á verð innflutra vara (gengi veikist um 1% => verð innfluttra vara hækkar um 1%). Í báðum tilvikum hefur gengið áhrif á verðbólgu án tafar, sem gæti ýkt frávik frá verðbólguspá á árinu 2016. Ef krónan veikist um 1% á hverjum ársfjórðungi á næstunni færi verðbólga skv. okkar spá, og ofangreindum forsendum, yfir markmið í haust og nær 6% eftir ár. Ef krónan aftur á móti styrkist um 1% á hverjum ársfjórðungi þá helst verðbólga við verðbólgumarkmið út spátímann.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Gengið stórt akkeri á verðbólguþrýsting í kjölfar kjarasamninga... ennþá

Undanfarið hefur Greiningardeild fært rök fyrir því að krónan muni styrkjast á næstunni, sem myndi áfram halda aftur af undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Þó er alltaf mikil óvissa þegar kemur að gengi gjaldmiðla og ekki þurfa að eiga sér stað stórkostlegar breytingar til að við horfum fram á veikara gengi krónu eftir t.d. ár. Einnig gæti mikil gengisstyrking, eins og við höfum fjallað um, þýtt það að gengið falli með hraði síðar.

Viðauki: Margvísleg áhrif alþjóðlega verðkerfisins á efnahagslífið

Í ritgerðinni sem er fjallað um hér í byrjun er farið yfir áhrif þessa alþjóðlega verðkerfis á efnahagsstefnu og hagkerfi. Þau geta verið margvísleg en almennt séð eru þau helstu eftirfarandi:

1) Verðstöðugleiki: Þeim mun hærra hlutfall influttra vara sem rukkað er fyrir í erlendum gjaldmiðli, þeim mun meiri verða áhrif á innlenda verðbólgu þegar gengi gjaldmiðla sem viðskiptin fara fram í fara á hreyfingu. Ekki þarf að fara lengra en 8 ár aftur í tímann til að rifja upp óþægilegt dæmi um þessi áhrif hér á landi. Á myndinni hér að neðan má sjá að nær ¾ af innflutningi Íslands kemur frá Evrópu svo að áhrif gengi gjaldmiðla á meginlandinu hafa hér veruleg áhrif á verðlag. Þyngst vegur evra í innflutningi, eða um 42% (að meðtöldum innflutningi frá Danmörku). Því er skiljanlegt að að Seðlabanki Íslands horfi nær eingöngu til þess að halda gengi krónu gagnvart evru stöðugu í þeim tilgangi að viðhalda verðstöðugleika.

Heimild: Seðlabanki Íslands

2) Samkeppnishæfni útflutnings: Almennt er talið að þegar gengi gjaldmiðils tiltekins lands veikist auki það samstundis samkeppnishæfni útflutnings með lægri verðum. Það er hins vegar ólíklegt ef varan er verðlögð í erlendum gjaldmiðli þar sem verð alþjóðlegra vara í erlendum myntum eru tregbreytanleg. Líklegra er að útflytjendur finni fyrir gengisbreytingum í rekstrarafkomu á þann hátt að þegar gengið veikist (styrkist) hagnist þeir meira (minna). Nærtækt dæmi á Íslandi er góð afkoma sjávarútvegsins eftir fjármálakreppuna þegar gengi krónunnar var veikt.
3) Viðskiptajöfnuður: Afleiðingar gjaldmiðlahreyfinga á viðskiptajöfnuð fara að líkindum í gegnum innflutningshliðina hjá þeim löndum sem greiða í erlendum gjaldmiðlum. Þetta leiðir af fyrstu tveimur punktunum. Í krónukynningu sem flutt var samhliða síðustu Hagspá Greiningardeildar mátti leiða líkur að þessu.
4) Áhrif af peningastefnu annarra landa: Hert aðhald peningastefnu á Evrusvæðinu myndi líklega styrkja gengi evru sem, að öðru jöfnu, myndi valda auknum verðbólguþrýstingi hér á landi og þar með aukið á aðhaldsþörf peningastefnunnar hér. Undanfarna mánuði og misseri hefur Evrópski seðlabankinn gert hið gagnstæða, með stýrivöxtum við 0% og magnbundnum íhlutunum, sem hefur því lagst á sveif með peningastefnunni hér og stutt við litla verðbólgu.
5) Alþjóðavæðing gjaldmiðla: Stöðugleiki alþjóðlegra verða í þeim gjaldmiðlum sem innheimt er í gefur til kynna að lönd geti aukið verðstöðugleika heima fyrir með því að notast í auknum mæli við sína mynt í alþjóðlegum viðskiptum. Það er varla hægt að segja annað en að líkurnar á að íslenska krónan verði á næstunni notuð í alþjóðlegum viðskiptum í miklu mæli séu álíka miklar og að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð á næstunni.