Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í apríl

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í apríl

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% milli mánaða í apríl. Gangi spáin eftir mun árstaktur verðbólgunnar hækka úr 1,5% í 1,7%. Við spáum að ársverðbólgan mælist undir 2% á næstu mánuðum og jafnvel inn á þriðja ársfjórðung. Engu að síður fara áhrif af innfluttri verðhjöðnun dvínandi og má nefna að bensínverð hækkar milli mánaða annan mánuðinn í röð. Haldi sú þróun áfram gæti það skilað sér í aukinni verðbólgu þegar líður á seinni hluta ársins. Helstu liðir sem hækka í spá okkar eru bensínverð (+0,11% áhrif á VNV), húsnæðisliðurinn (+0,11% áhrif á VNV) og flugfargjöld til útlanda (+0,02% áhrif á VNV). Hagstofan birtir mælingu á VNV fimmtudaginn 28. apríl nk.

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Bensín og flugfargjöld hækka

Eldsneyti hækkar nú annan mánuðinn í röð (+0,11% áhrif á VNV). Bensín hækkar um 3,3% samkvæmt okkar mælingum en díselolía um 2,0%. Hráolíuverð á alþjóðamörkuðum hefur farið hækkandi frá því um miðjan janúar sem endurspeglast í innlendu eldsneytisverði. Flugfargjöld hækka um 2% samkvæmt okkar mælingum (+0,03% áhrif á VNV). Við gerum því ráð fyrir að ferðaliðurinn hafi í heild sinni um 0,14% áhrif til hækkunar á VNV.

Húsnæðisliðurinn hækkar

Við spáum því að fasteignaverð haldi áfram að hækka í apríl og áætlum 0,6% hækkun, en það skilar sér í hækkun á reiknaðri húsaleigu (+0,09% áhrif á VNV). Einnig hækkar annar kostnaður eins og greidd húsaleiga, hiti og rafmagn (+0,02% áhrif á VNV). Samtals spáum við því að húsnæðisliðurinn hafi 0,11% áhrif til hækkunar á VNV.

Aðrir liðir hækka minna

Við gerum ráð fyrir að aðrir liðir hækki minna í apríl. Við spáum því að hótel og veitingastaðir hækki (+0,02% áhrif á VNV) en liðurinn hækkar svo enn frekar á komandi mánuðum þegar sumarið nálgast. Einnig hækka aðrar vörur og þjónusta (+0,02% áhrif á VNV), föt og skór (+0,02% áhrif á VNV) og tómstundir og menning (+0,01% áhrif á VNV). Á móti heldur póstur og sími áfram að lækka (-0,02% áhrif á VNV). Aðrir liðir breytast minna en í heildina gerum við ráð fyrir að áhrif annarra liða verði um 0,10% til hækkunar á VNV.

Gengisleki á Íslandi – lítil verðbólga þökk sé styrkingu krónunnar

Það sem af er ári hefur nafngengi krónunnar styrkst um 2,2%. Gengi krónunnar hefur verið frekar stöðugt undanfarið en styrkst jafnt og þétt og síðustu 12 mánuði hefur gengið styrkst um 8,5%. Eins og við komum inn á í glænýjum markaðspunkti hefur gengisleki (áhrif gengis á verðlag) yfirleitt verið metinn talsverður á Íslandi og því auðvelt að sjá að gengisstyrking krónunnar undanfarið hefur haldið aftur af verðbólgu. Einnig hefur lækkun á hrávöruverði hjálpað til. Olíuverð hefur þó hækkað á alþjóðamörkuðum undanfarið og má búast við að áhrif af innfluttri verðhjöðnun fari hægt og rólega dvínandi á næstunni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Erfitt er að spá fyrir um hvort gengisstyrking krónunnar heldur áfram á næstu mánuðum. Mikið gjaldeyrisinnflæði og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði til að draga úr gengisstyrkingu krónunnar hefur verið ágætis vísbending um áframhaldandi styrkingarfasa krónunnar. Aftur á móti hefur snarlega dregið úr gjaldeyrisveltu og gjaldeyrisinngripum Seðlabankans síðustu daga eða í kjölfarið á því pólitíska umróti sem átti sér stað í byrjun apríl. Kann það að vera merki um að dregið hafi úr gjaldeyrisinnflæði til skemmri tíma litið en engu að síður gerum við ráð fyrir að töluvert gjaldeyrisinnflæði verði í sumar í kringum háannatíma ferðaþjónustunnar.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Maí +0,2%: Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt húsnæðisverði.
Júní +0,3%: Ferðaliðurinn og hótel og veitingastaðir hækka ásamt fasteignaverði.
Júlí 0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka