Verðlag hækkar um 0,21% í apríl – Ársverðbólgan 1,6%

Verðlag hækkar um 0,21% í apríl – Ársverðbólgan 1,6%

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,21% í apríl eða nokkuð undir spám helstu greiningaraðila, en þær lágu á bilinu 0,3% til 0,4%. Ársverðbólgan mælist nú 1,6% og ef litið er framhjá húsnæðisliðnum er verðbólgan einungis 0,2%. Það vekur athygli okkar að án húsnæðis er vísitala neysluverðs á svipuðum stað og um miðbik ársins 2014. Af undirliðum er það því nánast einungis hækkun fasteignaverðs sem hefur drifið áfram verðbólgu undanfarin tvö ár. Helstu liðir sem hækkuðu í apríl voru bensín (+0,10% áhrif á VNV) og húsnæðisliðurinn (+0,10% áhrif á VNV). Einnig hækkaði matarkarfan (+0,05% áhrif á VNV) en aðrir liðir hækkuðu minna. Flugfargjöld til útlanda stóðu nánast í stað en helstu liðir sem lækkuðu voru tómstundir og menning (-0,05% áhrif á VNV) og póstur og sími (-0,05% áhrif á VNV).

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spá okkar fyrir næstu mánuði er óbreytt og spáum við að verðlag hækki um 0,2% í maí, 0,3% í júní og standi í stað í júlí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í 1,4% í júlí og er því ekki að sjá að ársverðbólgan taki við sér á næstu mánuðum. Þó er hætt við að hækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði fari, að óbreyttu, að bíta þegar líða tekur á árið en það sem af er apríl hefur olíuverð á heimsmarkaði hækkaði um í kringum 20%.

Bensín hækkar en en flugfargjöld til útlanda standa í stað

Eldsneyti hækkar nú annan mánuðinn í röð (+0,10% áhrif á VNV). Bensín hækkaði um 3,1% en dísilolía um 2,0%. Hráolíuverð á alþjóðamörkuðum hefur haldið áfram að hækka frá því í janúar og kostar tunnan af Brent Norðursjávarolíu nú rúma 47 bandaríkjadali en það er hæsta verð frá því í byrjun desember á síðasta ári. Ef olíuverð heldur áfram að hækka mun það lita verðbólgutölurnar á næstu mánuðum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu einungis um 0,3% eða nokkuð minna en við spáðum og hefur því hverfandi áhrif á vísitölu neysluverðs.

Húsnæðisliðurinn hækkar

Húsnæðisverð hækkaði um 0,5% um land allt (+0,07% áhrif á VNV) eða nokkuð í takt við okkar spá. Árshækkun fasteignaverðs nemur nú 6,5% og fer markaðurinn hægar af stað í ár samanborið við í fyrra. Engu að síður er útlit fyrir að næg eftirspurn sé á fasteignamarkaði og að verð haldi áfram að hækka samhliða auknum kaupmætti. Greidd húsaleiga hækkaði einnig (+0,03% áhrif á VNV).

Tómstundir og menning lækkar ásamt pósti og síma

Helstu liðir sem lækka eru tómstundir og menning (-0,05% áhrif á VNV) en þar vegur þyngst lækkun á sjónvörpum og tölvum. Einnig lækkar póstur og sími (-0,05% áhrif á VNV) en liðurinn hefur lækkað kerfisbundið undanfarna mánuði, og vó þar þyngst lækkun á farsímaþjónustu og internettengingum.

Aðrir liðir hækka minna

Minni hækkun varð á öðrum liðum en matarkarfan hækkaði umfram spár okkar (+0,05% áhrif á VNV). Einnig hækkuðu hótel og veitingastaðir (+0,03% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta (+0,02% áhrif á VNV).

Húsnæðisverðið drífur áfram verðbólguna

Eins og nefnt var í byrjun hefur verðlag án húsnæðis staðið í stað frá því um miðbik ársins 2014 og hefur verðbólgan því nánast alfarið verið drifin áfram af hækkun húsnæðisverðs. Að minnsta kosti hefur lækkun á verði innfluttra vara vegið á móti hækkun innlendra vara. Að raunvirði hefur íbúðarhúsnæði hækkað um 38% frá árinu 2010. Sé hins vegar litið til húsnæðisverðs ársins 2008 þá hefur húsnæðisverð lækkað að raunvirði um 15%. Hvorki árið 2010 né 2008 gefa líklega góða mynd af húsnæðismarkaði í jafnvægi. Við erum samt þeirrar skoðunar að húsnæðisverð muni halda áfram að drífa verðbólguna vegna aukins kaupmáttar og ójafnvægi í framboði og eftirspurn. Aftur á móti gerum við ráð fyrir lítilli verðbólgu næstu mánuði og spáum því að ársverðbólgan standi í 1,4% í júlí.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:
• Maí +0,2%: Hótel og veitingastaðir, aðrar vörur og þjónusta hækka ásamt húsnæðisverði.
• Júní +0,3%: Ferðaliðurinn og hótel og veitingastaðir hækka ásamt fasteignaverði.
• Júlí 0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka