Óbreyttir stýrivextir en harður tónn sem fyrr

Óbreyttir stýrivextir en harður tónn sem fyrr

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum, í takt við spár. Ekki er hægt að segja að tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar hafi verið mýkri að þessu sinni. Frekar er tónninn harðari ef eitthvað er og bent á að lækkun á innflutningsverðlagi kunni að fjara út og verðbólga gæti aukist í kjölfarið. Einnig eru horfur á meiri vexti efnahagsumsvifa en áður og því spáir Seðlabankinn hærri verðbólgu en við síðustu vaxtaákvörðun. Peningastefnunefndin á þó vandasamt verk fyrir höndum því á sama tíma og merki eru um aukna spennu í hagkerfinu bólar lítið á verðbólgu og má rekja það til batnandi viðskiptakjara og gengisstyrkingu. Erfitt getur reynst að spá fyrir um hvort sú þróun haldi áfram og haldi aftur af verðbólgu eða hvort fjari undan þeim áhrifum á næstunni. Einnig á eftir að koma í ljós hvort fyrirtæki muni kjósa að taka á sig hækkandi launakostnað án þess að hækka verðlag eða hvort launahækkanir skili sér að lokum í auknum verðbólguþrýstingi þegar líður á árið.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Enn beðið eftir verðbólgu

Í Peningamálum nú birtir Seðlabankinn nýja verðbólguspá sem er ívið hærri en sú fyrri þótt verðbólga haldist undir markmiði bankans fram eftir þessu ári. Skýringar á lítilli verðbólgu um þessar mundir eru þær sömu og áður: gengisstyrking og viðskiptakjarabati. Annars vegar hefur styrking nafngengisins tryggt lækkandi verðlag á innfluttum vörum og hins vegar hefur lítil alþjóðleg verðbólga hjálpað til og lækkun hrávöruverðs. Hvort tveggja hefur gert fyrirtækjum kleift að mæta kostnaðarhækkunum vegna launahækkana án verðhækkana.

Þrátt fyrir jákvæða verðbólguþróun virðist peningastefnunefndin engan vegin á þeim buxunum að draga úr aðhaldsstigi peningastefnunnar og kemur það skýrt fram í yfirlýsingu nefndarinnar. Þar kemur fram að þrátt fyrir merki um aukna kjölfestu verðbólguvæntinga sé þörf fyrir frekara aðhald eða eins og segir í yfirlýsingunni: „Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings”.

Þeir óvissuþættir sem gætu aukið verðbólgu eru vanmat á eftirspurnaráhrifum og kostnaðarhækkunum í kjölfar nýgerðra kjarasamninga, aukinn slaki í ríkisfjármálum, vanmat á hækkun húsnæðisverðs og veiking krónunnar svo eitthvað sé nefnt. En þegar litið er á uppgjör skráðra félaga í kauphöllinni er okkar mat að íslenskum fyrirtækjum gangi býsna vel að koma í veg fyrir að launakostnaður leki út í verðlag (sjá neðar). Hvað nafngengi krónunnar varðar eru meiri líkur á frekari styrkingu krónunnar en veikingu til skemmri tíma litið. Ef litið er til þess hve hratt ferðamannastraumurinn eykst og þess gjaldeyrisinnflæðis sem streymir inn í landið í kjölfarið má áætla að þrýstingur sé á styrkingu, svo lengi sem við búum við fjármagnshöft þar sem fjármagn má streyma inn í landið en lokað er fyrir útstreymi. Vegna þess hve hratt hreinn gjaldeyrisforði stækkar um þessar mundir eru jafnvel líkur á að Seðlabankinn þurfi á næstu misserum að draga úr gjaldeyrisinngripum á markaði og leyfa nafngenginu að styrkjast til þess að koma í veg fyrir of hraða styrkingu forðans, líkt og við bentum á nýverið.

Það er því útlit fyrir að verðbólgukúfurinn frestist enn og aftur en helsta óvissan er hve hratt verðbólga muni aukast þegar líður á árið. Miðað við spennu á vinnumarkaði og aukna framleiðsluspennu mætti ætla að verðbólguþrýstingur væri að byggjast upp en svo kann að fara að styrking krónunnar og minni áhrif launahækkana á verðlag en áður var áætlað dragi úr verðbólguþrýstingi og haldi aftur af verðbólgu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Fyrirtæki fá sem fyrr lítið klapp á bakið

Í stýrivaxtaspá okkar í síðustu viku fjölluðum við um að uppgjör félaga í Kauphöllinni bæru glögglega með sér að fyrirtæki eru að taka hluta launahækkana af hagnaði sínum. Sú ályktun er enn fremur studd af hækkandi launahlutfalli sem gæti fljótlega orðið það hæsta sem mælst hefur. Í því ljósi kemur það nokkuð á óvart að þessi þáttur sé ekki nefndur sem einn af áhrifaþáttunum sem hafa haldið aftur af verðbólgu en í staðinn einblínt á alþjóðlega verðþróun og styrkingu gengis krónunnar. Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga er einnig nefnt sem áhrifaþáttur og hefur það líklega áhrif á hversu reiðubúin fyrirtæki eru til að hækka verð. Þó læðist að okkur sá grunur að mikill samfélagslegur þrýstingur og umfjöllun í fjölmiðlum séu ekki síður þarna að verki. Það gæti hafa leitt til þess að fyrirtæki kjósa frekar að halda verði óbreyttu heldur en að tapa viðskiptum og orðspori eftir óvinsælar verðhækkanir.

Heimildir: Árshlutareikningar félaganna, Greiningardeild Arion banka. Miðað er við launakostnað ef hann er gefinn upp, annars rekstrarkostnað. *Horft er til tekna og afkomu eingöngu af tryggingarstarfsemi. **117 m.kr. einskiptis launakostnaður á 1F 2015 er frádreginn. ***Reiknað á föstu gengi dollars

Öfugsnúna veröld: Ríflegur viðskiptaafgangur og sterkt raungengi

Það vakti nokkra athygli okkar að Seðlabankinn spáir áframhaldandi viðskiptaafgangi út spátímann. Það kemur örlítið á óvart því að allar líkur eru á að raungengi krónunnar haldi áfram að styrkjast sökum hlutfallslega mikillar verðbólgu og/eða gengisstyrkingar, innlend eftirspurn vex hratt og innflutningur vex afar hratt. Í hagspá Greiningardeildar frá því mars er því einmitt spáð að viðskiptaafgangur snúist í lítinn viðskiptahalla árið 2018. Reynslan sýnir okkur að raungengi og viðskiptajöfnuður fylgjast að öllu jöfnu mjög vel að. Til að mynda er mjög sterk fylgni milli annars vegar vöruinnflutnings, án skipa, flugvélag og áliðnaðar, og hins vegar raungengis. Það er ekki tilviljun, því með sterkara raungengi verður erlend vara og þjónusta ódýrari sem eykur eftirspurn eftir henni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sem mótrök er nefnt að „jafnvægisraungengi krónunnar“ hafi hækkað og tökum við undir það. Við setjum þó spurningarmerki að raungengi líkt og spáð er undir lok spátímans, sem er aðeins 10% veikara en árið 2007, sé eitthvað sem geti staðist til lengri tíma án þess að viðskiptajöfnuður og gengi krónunnar gefi eftir. Um þetta er þó mikil óvissa en eins og seðlabankastjóri benti á er hún sérlega mikil nú þegar hagkerfið er í miðju haftalosunarferli þar sem opið er inn en ekki út.

Verður íbúðafjárfesting í ár meiri en spáð er?

Annað sem kemur okkur á óvart í spá Seðlabankans er að einungis er spáð 6% vexti íbúðafjárfestingar í ár en við spáum því í mars að hún myndi aukast um 13%. Við sjáum ýmsar vísbendingar um að vöxturinn verði meiri en 6% og mögulega yfir okkar spá.
Í fyrsta lagi hefur íbúðaverð hækkað hratt og mikið á síðustu árum – um 5% á ársgrundvelli á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Það og væntingar um áframhaldandi verðhækkanir skapar hvata til aukinnar íbúðafjárfestingar. Í öðru lagi er verið að slaka á byggingarreglugerðum og búið að boða aðrar opinberar aðgerðir til stuðnings íbúðamarkaðnum, slíkt skapar einnig hvata til nýbyggingar. Í þriðja lagi var íbúðafjárfesting í fyrra langt undir væntingum og dróst raunar saman um 3%, þrátt fyrir uppsafnaða þörf sem hefur aukist enn frekar. Hugsanlegt er að íbúðafjárfesting hafi því aðeins frestast. Á síðasta ársfjórðungi 2015 tók íbúðafjárfesting við sér og jókst um 9,7% milli ára, sem gæti gefið fyrirheit um yfirstandandi ár.
Vísbendingarnar eru ekki bara fólgnar í sterkum rökum fyrir aukinni íbúðafjárfestingu. Í fjórða lagi benda ýmsar hagtölur til þess að byggingageirinn, og að líkindum íbúðafjárfesting, sé að taka hressilega við sér. Hér að neðan má sjá nokkra hagvísa sem endurspegla vöxt í innflutningi byggingaefnis, aukna veltu í byggingageiranum og mikla aukningu í fjölda íbúða sem byrjað var á í fyrra.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka