Kortavelta á fleygiferð

Kortavelta á fleygiferð

Kortavelta einstaklinga jókst um 11,6% milli ára í apríl sem er aðeins meira en í síðasta mánuði en þó í góðum takti við þróunina síðasta hálfa árið. Vöxtur kortaveltu erlendis tekur nokkuð skarpa dýfu úr 33% í mars niður í 19% í apríl, en þar spilar örugglega mikið inn í að páskarnir í ár voru í mars en í apríl í fyrra. Páskarnir gætu einnig hafa áhrif á veltu innanlands að einhverju leyti, sem skekkir samanburð milli mánaða.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka.

Mikil aukning kortaveltu á hvern ferðamann

Kortavelta erlendra ferðamanna nam 14,6 ma.kr. í apríl sem er um 6 ma.kr. aukning milli ára (+71%) Ferðamönnum fjölgaði þó ekki svo mikið hlutfallslega, eða um 32,5%, þannig að kortavelta á hvern ferðamann jókst um um 29% á föstu gengi og hefur hún aldrei verið meiri í einum mánuði ef leiðrétt er fyrir gengisáhrifum. Aukið vægi innlendra færsluhirða í farmiðasölu íslenskra flugfélaga erlendis gæti verið að ýta þessum tölum upp á við því almennt koma slík farmiðakaup ekki inn í tölur um kortaveltu á Íslandi. Skv. tölum Rannsóknarstofnunar verslunarinnar (RSV) hafa verið vísbendingar um slíkt síðustu mánuði. Þessi mikla aukning gæti einnig þýtt afar góða bókunarstöðu hjá íslenskum ferðaþjónustuaðilum þannig að framundan sé mikil fjölgun ferðamanna í sumar, eins og spár gera ráð fyrir. Þá er mögulegt að lækkandi verð á flugfargjöldum geri það að verkum að ferðamenn hafa meira á milli handanna fyrir aðra neyslu. Enn einn möguleikinn er að betur sé að takast sé að fá til landsins „betur borgandi“ ferðamenn.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa og Greiningardeild Arion banka

Enn ein vísbendingin um vöxt einkaneyslu og frekari fjölgun ferðamanna

Hér að neðan má sjá helstu breytingar á árinu hingað til í samanburði við hvernig takturinn var í fyrra. Vöxturinn í ár er í öllum tilfellum talsvert meiri en á sama tíma í fyrra. Til dæmis hefur kortavelta einstaklinga skv. almennri skilgreiningu Seðlabankans aukist um 11% að raunvirði og erlend kortavelta um 72%. Þessi þróun er í samræmi við upplifun margra og okkar umfjöllun um mikla fjölgun ferðamanna og vaxandi einkaneyslu. Í nýbirtri efnahagsspá Seðlabankans er vöxtur einkaneyslu í ár færður upp á við í 6%, en áður hafði Greiningardeild spáð 6,8% vexti. Þessar tölur og aðrar vísbendingar, eins og innflutningur á fyrstu mánuðum ársins, gætu gefið til kynna að það sé í það minnsta ekki ofmat á vexti einkaneyslu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands og Greiningardeild Arion banka. Munurinn á skilgreiningu Greiningardeildar og Seðlabankans á kortaveltu einstaklinga er að við tökum tillit til veltu í hraðbönkum, ekki Seðlabankinn.