Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í maí

Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í maí

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% milli mánaða í maí. Gangi spáin eftir mun árstaktur verðbólgunnar lækka úr 1,6% í 1,5%. Við gerum ráð fyrir að ársverðbólgan mælist áfram undir 2% fram að síðasta fjórðungi ársins, en þá hækkar verðbólgan vegna þess hve miklar lækkanir voru á haustmánuðum í fyrra. Ólíklegt er að slíkar lækkanir endurtaki sig miðað við þá spennu sem er í hagkerfinu um þessar mundir ásamt því sem heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað og leiðir það af sér hækkandi verðbólgu. Í maímánuði er það húsnæðisliðurinn sem hækkar mest milli mánaða (+0,14% áhrif á VNV). Einnig hækka hótel og veitingastaðir (+0,05% áhrif á VNV) og föt og skór (+0,04% áhrif á VNV). Sömuleiðis hækkar eldsneytisverð (+0,05% áhrif á VNV) en á móti lækka flugfargjöld til útlanda (-0,06% áhrif á VNV) og stendur því ferðaliðurinn í heild sinni nokkurn veginn í stað. Hagstofan birtir mælingu á VNV föstudaginn 27. maí nk.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Húsnæðisverð hækkar ellefta mánuðinn í röð

Ekkert lát er á hækkun húsnæðisverðs og spáum við 0,6% hækkun (+0,09% áhrif á VNV) og er það ellefta mánuðinn í röð sem verð á húsnæði hækkar. Þróunin er áþekk og undanfarin ár en þó er hækkunin það sem af er ári minni en í fyrra en svipuð og árið 2014. Viðhald á húsnæði hækkar í mánuðinum en byggingavísitala hækkaði um 1,9% í maí og endurspeglast það í viðhaldsliðnum (+0,05% áhrif á VNV). Samtals hefur því húsnæðisliðurinn +0,14% áhrif á VNV til hækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ferðaliðurinn stendur í stað

Í heildina stendur ferðaliðurinn nánast í stað en helstu breytingar eru þær að eldsneytisverð hækkar þriðja mánuðinn í röð. Bensín hækkar um 1,5% og díselolía hækkar um 1,6% (samtals 0,05% áhrif á VNV). Á móti vegur að flugfargjöld til útlanda lækka um 5% milli mánaða (-0,06% áhrif á VNV). Gangi spáin eftir hafa flugfargjöld til útlanda lækkað um hátt í 10% það sem af er ári, en framundan gerum við ráð fyrir hækkunum líkt og síðustu tvö ár. Aðrir undirliðir breytast minna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Hótel og veitingastaðir hækka ásamt öðrum liðum

Nú þegar ferðamannastraumurinn fer að aukast yfir sumartímann má búast við hækkun á liðum eins og hótel og veitingastöðum (+0,05% áhrif á VNV). Sérstaklega gerum við ráð fyrir að gisting hækki í verði. Einnig hækka föt og skór (+0,04% áhrif á VNV) og matur og drykkjarvörur (+0,02% áhrif á VNV). Helstu lækkanir í mánuðinum eru póstur og sími (-0,03% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,04% áhrif á VNV).

Lítil verðbólga þrátt fyrir vaxandi framleiðsluspennu

Í nýlegum Peningamálum var farið rækilega yfir þá þætti sem gætu valdi vaxandi verðbólgu á komandi misserum. Þar á meðal má nefna aukna framleiðsluspennu og lækkandi atvinnuleysi en langtímaatvinnuleysi er nú nánast horfið. Önnur merki um spennu á vinnumarkaði og miklar launahækkanir eru þau að hér á landi er launahlutfall nú hátt í 67% af vergum þáttatekjum eða með því hæsta í áratug. En líkt á áður vinnur gengisstyrking og viðskiptakjarabati gegn verðbólguþrýstingi og eru því jafnvel merki um aukna kjölfestu verðbólguvæntinga. Mótun peningastefnu getur því verið sérstaklega snúin um þessar mundir því lykilspurningin er hvort gengisstyrkingin muni halda áfram næstu misseri eða ekki. Mat Seðlabankans er þó á þann veg að gengisstyrking og lækkun hrávöruverðs taki að lokum enda og því muni áhrif gengisstyrkingar og viðskiptakjarabata fjara út. Seðlabankinn birti í Peningamálum nýja verðbólguspá og hækkaði spáin lítillega og er nokkuð yfir okkar spá. Engu að síður eru flestir sammála um að ársverðbólgan fari hækkandi þegar líður á árið.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Júní +0,3%: Ferðaliðurinn og hótel og veitingastaðir hækka ásamt fasteignaverði.
Júlí +0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.
Ágúst +0,3%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.