Aflandskrónur kvaddar – hver verða áhrifin?

Aflandskrónur kvaddar – hver verða áhrifin?

Nú þegar vorar er mikið tilhlökkunarefni í sveitum landsins að setja kýrnar út enda þrá þær sólina eftir að dúsa á bás yfir langan veturinn og að hlaupa frjálsar út í sumarið. Ekki verður komist hjá því að sjá ákveðin líkindi þegar lög um aflandskrónueignir hafa verið samþykkt á Alþingi. Í framhaldinu mun Seðlabankinn halda gjaldeyrisútboð þar sem eigendum aflandskróna verður boðið að skipta eignum sínum í gjaldeyri eða greiða fyrir lyftingu hafta af krónueignum sínum og þar með frelsa þær fyrir sumarið. Lögin sjálf fjalla ekki um fyrirhugað útboð og er enn er beðið skilmála þess. Í kjölfarið, eða með haustinu, verður hægt að rýmka heimildir almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða til fjármagnsflutninga milli landa og er það fagnaðarefni í sjálfu sér. Hér er reynt að fara yfir helstu áhrif laganna en setja þarf þann fyrirvara að ekki liggja fyrir skilmálar gjaldeyrisútboðsins en þeir gætu haft töluverð áhrif á gang mála.

Frumvarpið leggur fram valkosti fyrir aflandskrónueigendur

Segja má að ákveðin tímalína liggi nú fyrir um þróun mála hvað varðar losun fjármagnshafta næstu mánuði eftir að frumvarpið varð að lögum. Stefnt er að því að gjaldeyrisútboð verði haldið í júní þar sem aflandskrónueigendur hafa kost á að kaupa gjaldeyri, en þátttaka er valfrjáls.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, Alþingi

Segja má að lögin fjalli meira um þær takmarkanir sem eru lagðar á þær aflandskrónur sem kjósa að fara ekki úr landi í gegnum útboðið. Fyrir 1. september munu innlánsstofnanir þurfa að flytja aflandskrónueignir inn á sérstaka höfuðbók og eignir eins og verðbréf í vörslu hjá Seðlabankanum. Með þessu móti er í raun verið að skilgreina betur þær eignir sem teljast vera aflandskrónueignir og auðvelda eftirlit með þeim eignum sem kjósa að vera áfram innan hagkerfisins. Taflan hér að neðan sýnir skilgreiningu laganna á aflandskrónueignum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greininardeild Arion banka.  *Nánari útlistun á aflandskrónueignum má finna í lið 6.4 í athugasemdum með frumvarpinu.

Aflandskrónueignirnar eru háðar bindiskyldu og þurfa bankar því að kaupa innstæðubréf Seðlabankans fyrir fjárhæð sem jafngildir aflandskrónueigninni. Að lokum hafa aflandskrónueigendur kost á að fara út í gegnum viðmiðunargengið 220 krónur á evru til 1. nóvember. Þannig er opinn gluggi fyrir aflandskrónueigendur að komast út þó svo þeir taki ekki þátt í útboðinu í júní. Nóvembertilboð Seðlabankans verður þó væntanlega óhagstæðara fyrir aflandskrónueigendur heldur en þátttaka í útboðinu. Það er því engan veginn hægt að áætla áhrif á Seðlabankann með því einu að horfa til mismunar á núverandi gengi krónu á móti evru og viðmiðunargengisins 220. Þá má bæta við að styrking krónunnar hefur leitt af sér gengistap í krónum á gjaldeyrisforða bankans og því má spyrja hvort miða eigi við núverandi gengi evrunnar eða meðalverð í gjaldeyriskaupum Seðlabankans, en það er önnur saga.

Áhrif á gjaldeyrisforðann

Hver áhrif útboðsins verða á gjaldeyrisforðann veltur annars vegar á þátttöku í útboðinu og hins vegar á útboðsgenginu. Myndin að neðan sýnir hve stóran hluta af gjaldeyrisforðanum Seðlabankinn þyrfti að ráðstafa (á lóðréttum ás) miðað við þátttökuhlutfall og gengi í útboðinu (á láréttum ás). Gjaldeyrisforði Seðlabankans var 760 ma.kr. í lok apríl og sá hluti sem ekki er skuldsettur, þ.e. fjármagnaður í krónum, er tæplega 400 ma.kr. í kjölfar kraftmikilla gjaldeyriskaupa Seðlabankans síðustu tvö ár.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, Seðlabanki Íslands

Bankinn hefur sagt þörf á stórum gjaldeyrisforða m.a. vegna óvissu um losun hafta. Þannig segir í athugasemdum við lögin: „Á meðan losun hafta gengur yfir mun stærð gjaldeyrisforða mótast af varfærinni nálgun í samræmi við útgefnar leiðbeiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“ Þannig hefur bankinn litið svo á að hluta forðans verði varið í útboð aflandskróna. Á sama tíma og Seðlabankinn vill væntanlega losna við sem flestar aflandskrónur úr kerfinu mun bankinn hafa á bak við eyrað að við afnám hafta ætlar bankinn sér að eiga óskuldsettan forða til að milda sveiflur í gjaldmiðlinum.

Áhrif á flæði á fjármálamörkuðum

Þegar næstu skref um losun fjármagnshafta liggja fyrir má færa ýmis rök fyrir því að það dragi úr eftirspurn á fjármagnsmörkuðum. Heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis aukast væntanlega hratt þegar líður á árið og sama gildir um almenning og fyrirtæki. Velta má fyrir sér hvort ekki dragi úr fjárfestingu erlendra aðila á skuldabréfamarkaði þar til gjaldeyrisútboðinu er lokið. Einnig hefur Lindarhvoll ehf. ákveðið að selja um 8 ma.kr. af skuldabréfum í dag og á morgun og eykur það framboð á skuldabréfamarkaði tímabundið. Ýmis merki eru því um aukið framboð og lakari eftirspurn til skamms tíma litið.
Á hinn bóginn þarf að hafa í huga að ef þátttaka í gjaldeyrisútboðinu verður sæmileg munu eigendur ríkisbréfa skipta þeim út fyrir evrur. Lánamál ríkisins munu því taka á móti ríkisbréfum eins og RIKB 16 og getur það dregið úr útgáfuþörf ríkisins á skuldabréfamarkaði í ár. Það eru því líka rök fyrir minna framboði á mörkuðum en áður var talið. Einnig eru efnahagshorfur á Íslandi fremur góðar um þessar mundir og því líklegt að lánshæfismat ríkisins hækki í kjölfar næstu skrefa við losun hafta.
Í þessu sambandi má benda á að matsfyrirtækin hafa síðustu misserin horft til skuldastöðu ríkissjóðs, uppgjöra slitabúa bankanna, efnahagsþróunar og loks til haftanna sem hindranir gegn bættu lánshæfi. Skuldastaðan hefur batnað, uppgjörum slitabúanna er lokið, efnahagslífið stendur nokkuð vel, sérstaklega í alþjóðlega samhengi, og þá eru bara höftin eftir.
Sú staðreynd ein og sér að hér eru hærri vextir en annars staðar og að lánshæfismat gæti farið batnandi getur dregið fjármagn til landsins í auknum mæli. Hver áhrifin verða á flæði á fjármagnsmörkuðum til lengri tíma litið á því eftir að koma í ljós.

Áhrif á vaxtastig

Oft hafa verið færð rök fyrir því að innan fjármagnshafta hafi verið kleift að hafa lægra vaxtastig en ella og að hækka þurfi vexti í kjölfar losunar hafta. Eru því líkur á stýrivaxtahækkunum á næstunni? Okkar mat er að gjaldeyrisútboðið og afnám hafta gefi ekki tilefni til hækkunar vaxta. Í raun er raunvaxtastig nokkuð hátt eins og er miðað við núverandi verðbólgu og einnig hafa verðbólguvæntingar farið batnandi og eru merki um aukna kjölfestu verðbólguvæntinga.
Að okkar mati er ekki síður mikilvægt að huga að miðlun peningastefnunnar og að skilgreina þau tól og tæki sem Seðlabankinn gæti nýtt til að stemma stigum við óhóflegum vaxtamunarviðskiptum í kjölfar losunar hafta – í því sambandi væri vandamálið of mikill vaxtamunur en ekki of lítill. Mikil hækkun vaxta á komandi misserum samhliða batnandi efnahagshorfum gæti dregið kvikt fjármagn til landsins og torvelt miðlun peningastefnunnar. Það kæmi því ekki á óvart ef Seðlabankinn myndi kynna slík tæki á næstunni eða í kjölfar gjaldeyrisútboðsins líkt og boðað hefur verið síðustu ár og mánuði.