Spáum óbreyttum stýrivöxtum – er innstæða fyrir auknum kaupmætti?

Spáum óbreyttum stýrivöxtum – er innstæða fyrir auknum kaupmætti?

Þann 1. júní nk. verður tilkynnt um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og spáum við því að vextir verði óbreyttir líkt og síðustu fjögur skipti. Næsta vaxtaákvörðun er eftir tæpa þrjá mánuði og peningastefnunefnd hefur undanfarið boðað hertara aðhald og því er spáð að verðbólga muni aukast með haustinu. Þannig er ekki algjörlega útilokað að peningastefnunefnd kjósi nú að hækka vexti ef hækkun vísitölu neysluverðs í maí, sem birt verður á föstudag, verður umfram væntingar (við spáum 0,2% hækkun). Á móti vegur að lítið hefur breyst frá síðustu vaxtaákvörðun enda innan við mánuður frá henni. Þá verða fjármagnshöft væntanlega ekki losuð fyrr en í haust og munu aðgerðir í aðdraganda þess, einkum gjaldeyrisútboð Seðlabankans, að líkindum ekki hafa veruleg áhrif á peningastefnuna fyrir næsta fund. Einnig mun talsverður gjaldeyrir væntanlega flæða inn yfir háannatímann í ferðaþjónustu líkt og síðustu sumur, sem myndi þýða gengisstyrkingu eða litlar gengisbreytingar hið minnsta.

Hvað sagði peningastefnunefnd síðast?

Fundargerð síðasta fundar peningastefnunefndar var birt síðdegis í gær. Þar kom fram að nefndin fjallaði um helstu atriðin sem fram komu í nýjustu Peningamálum, eins og ástæður þess að verðbólga hefur verið minni en reiknað var með og að krafturinn í þjóðarbúskapnum virðist meiri en áður var talið. Enginn nefndarmaður taldi ástæðu til að breyta vöxtum að þessu sinni og styður það við spá okkar um að hið sama verði uppi á teningnum nú þremur vikum síðar. Í fundargerðinni kom einnig fram að seðlabankastjóri gerði grein fyrir vinnu vegna sérstakra stýritækja til að hemja óhófleg vaxtamunarviðskipti annars vegar og áætlunar um losun hafta hins vegar.

Í fundargerðinni er sagt frá því að markmið með gjaldeyrisinngripum Seðlabankans nú sé að vinna gegn óhóflegum sveiflum og að safna í forða í aðdraganda losunar fjármagnshafta. Það sem vekur sérstaka athygli er að: „Við fyrirhugað útboð vegna svokallaðra aflandskróna yrðu ákveðin kaflaskil hvað það snerti og staðan yrði endurmetin í aðdraganda losunar fjármagnshafta á innlenda aðila.“ Forvitnilegt verður því að sjá hvort stefnubreytingar sé að vænta í gjaldeyrisinngripum Seðlabankans.

Þrýstingur eykst á vinnumarkaði

Í vikunni birti Hagstofan tölur um vinnumarkaðinn í apríl, sem endurspegla vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum líkt og þær hafa gert undanfarið. Atvinnuleysi er áfram lítið, mælist nú 4,9%, og lækkar um 0,7 prósentustig milli ára. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi er nokkuð minna eða 3,7%. Atvinnuleysi segir ekki alla söguna því atvinnuþátttaka hefur aukist undanfarin misseri og hefur vinnuafl aukist um 8-10.000 einstaklinga á ári sl. tvö ár. Fjölgun starfandi er í svipuðum takti, t.a.m. nam ársfjölgunin 8.200 einstaklingum í apríl eða 4,9%. Þessi mikla aukning vinnuafls skýrist að mestu leyti af fjölgun Íslendinga á vinnualdri og aukinni atvinnuþátttöku en að minna leyti af innflutningi vinnuafls. Þó má sjá merki þess að þetta sé að breytast þar sem aðfluttum umfram brottflutta hefur fjölgað með auknum hraða síðustu mánuði. Þeirri fjölgun er haldið uppi af erlendum ríkisborgurum og raunar rúmlega það þar sem fleiri Íslendingar flytja erlendis heldur en til landsins. Síðasta ár (miðað við 1. ársfjórðung 2016 og fjórðungana þrjá á undan) vou 3.440 fleiri aðfluttir erlendir ríkisborgarar heldur en brottfluttir, samanborið við 2.130 á sama tíma í fyrra.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Miðað við fyrsta ársfjórðung hvers árs.

Kaupmáttur vex enn meira

Launavísitalan hefur haldið áfram að hækka eftir SALEK samkomulagið eða um samtals 1,1% í mars og apríl. Á ársgrundvelli nemur hækkunin 13,3% og þar sem verðbólga er lítil (1,6%) hefur kaupmáttur aukist um heil 11,6%. Þessi þróun er afar athyglisverð því á sama tíma og laun hækka virðist eftirspurn eftir vinnuafli vera að aukast eins og kemur fram hér að ofan. Þá er einnig athyglisvert að sjá að síðustu helgi voru 23 blaðsíður undirlagðar atvinnuauglýsingum í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Á sama tíma í fyrra voru blaðsíðurnar 20 en árið 2014 voru þær 18.

Að óbreyttu ættu svona miklar launahækkanir að kynda undir verðbólgu en eins og rakið var í síðustu Peningamálum bólar lítið á henni, einkum sökum alþjóðlegrar verðlagsþróunar og styrkingar krónunnar. Það má því velta fyrir sér hvort að verðbólga hefði ekki verið enn minni ef laun hefðu hækkað í takt við það sem Seðlabankinn telur hæfilegt og hvort þá væri hér verðhjöðnun að öðru óbreyttu?

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Stenst kaupmáttaraukningin til lengri tíma?

Til lengri tíma ræðst hagsæld þjóða fyrst og fremst af framleiðni. Framleiðni vinnuafls hefur vaxið um 1% á ári síðustu ár en óx um 2% á ári fram að fjármálakreppu. Því er ekki nema von að það hringi viðvörunarbjöllum hjá mörgum að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi vaxið um tæp 9% í fyrra og muni vaxa svipað mikið í ár. Slíkt getur ekki staðist til lengri tíma, en er þessi kaupmáttaraukning úr takti við þróun framleiðni þegar nánar er að gáð?

Fram að fjármálakreppu var vöxtur framleiðni (landsframleiðsla deilt með vinnustundum), kaupmáttar á vinnustund og landsframleiðslu á mann heilt yfir í góðum takti frá 10. áratugnum. Við fjármálakreppuna breyttist það allverulega þar sem landsframleiðsla og kaupmáttur drógust mikið saman, á sama tíma og framleiðni hélt velli og jókst t.d. um 6% árið 2009. Fram til 2014 var vöxtur þessara stærða áþekkur en árið 2015 jókst kaupmáttur mikið sem fyrr segir og útlit er fyrir að sama verði uppi á teningnum í ár. Þrátt fyrir þessa miklu kaupmáttaraukningu verður framleiðni, verg landsframleiðsla á mann og kaupmáttur ráðstöfunartekna á vinnustund, skv. spá Seðlabankans, í svipuðum hlutföllum og upp úr aldamótum þegar hagkerfið var í góðu jafnvægi. Þess vegna má spyrja hvort mikil kaupmáttaraukning sé eðlileg aðlögun að fyrra jafnvægi eftir að hagkerfið hafði náð bata eftir fjármálakreppuna?

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Fjöldi ársverka notað sem „proxy“ fyrir fjölda vinnustunda fram til 1991.

Til allrar hamingju hefur reynst meiri innistæða fyrir launahækkunum heldur en óttast var, jafnvel þó að verðbólga taki að aukast með haustinu og á næsta ári. Ef tilfellið er að hér sé aðlögun að fyrra jafnvægi er þó mjög mikilvægt að ekki sé dregin sú ályktun að launahækkanir síðustu 12 mánaða séu nýja normið og ávísun á kaupmáttaraukningu. Ekki síst ef þær eru gerðar þegar alþjóðlegt verðlag og gengi krónunnar eru þróast með óhagstæðum hætti, öfugt við það sem er nú.