Verðlag hækkar um 0,42% í maí

Verðlag hækkar um 0,42% í maí

 Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,42% í maí eða nokkuð yfir spám helstu greiningaraðila, en þær lágu á bilinu 0,2% til 0,3%. Ársverðbólgan mælist nú 1,7% og ef litið er framhjá húsnæðisliðnum er verðbólgan einungis 0,3%. Það vekur athygli okkar að flestir liðir hækka nokkuð umfram okkar spá og má þar einna helst nefna húsnæðisliðinn (+0,18% áhrif á VNV), tómstundir og menningu (+0,09% áhrif á VNV), hótel og veitingastaðir (+0,08% áhrif á VNV) og mat og drykkjarvöru (+0,07% áhrif á VNV). Ekki kemur á óvart að húsnæðisverð heldur áfram að hækka en hækkun annarra liða má túlka sem vísbendingu um að verslun sé að velta launahækkunum út í verðlag og gæti það skýrt hækkun matarkörfunnar. Einnig eru merki um vaxandi eftirspurn í hagkerfinu samhliða hraðri kaupmáttaraukningu og gæti það staðið að baki hækkun á verðlagi tómstundarvara. Þá skýrist hækkun á gistiþjónustu á árstíðarbundnum ferðamannastraumi til landsins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði hækkar lítillega en við spáum að verðlag hækki um 0,4% í júní, standi í stað í júlí og hækki um 0,5% í ágúst. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,6% í ágúst.

Húsnæðisverð og viðhaldskostnaður húsnæðis hækkar

Húsnæðisliðurinn hafði í heild sinni 0,18% áhrif til hækkunar á VNV en þar af voru áhrif vegna reiknaðrar húsaleigu 0,12%. Húsnæðisverð hækkaði einna helst utan höfuðborgarsvæðisins í maí eða um 3,3%. Þá hækkaði fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% og einbýli á höfuðborgarsvæðinu um 0,4%. Fasteignaverð hefur það sem af er ári hækkað um 3,2% eða ívið minna en undanfarin tvö ár. Engu að síður er árstakturinn á svipuðu róli og undanfarin misseri og hefur fasteignaverð um allt land hækkað um 7,3% undanfarna 12 mánuði. Við búumst við því að hækkanir fasteignaverðs haldi áfram samhliða þeirri miklu kaupmáttaraukningu sem á sér stað um þessar mundir og það aukna svigrúm sem heimili hafa til lántöku vegna batnandi fjárhagsstöðu. Hækkun byggingavísitölunnar hafði einnig áhrif á viðhaldskostnað húsnæðis (+0,05% áhrif til hækkunar) og greidd húsaleiga hækkaði (+0,02% áhrif til hækkunar).

Flestir liðir hækka umfram spár

Þeir liðir sem höfðu áhrif til hækkunar á VNV, fyrir utan húsnæðisliðinn, hækkuðu flestir umfram spár og má þar helst nefna tómstundir og menningu (+0,09% áhrif á VNV). Sú hækkun skýrist af hækkun tómstundarvara, pakkaferða innanlands og hækkun ritfanga svo eitthvað sé nefnt. Þá hækka hótel og veitingastaðir (+0,08% áhrif á VNV) og vekur athygli að hækkun á gistiþjónustu nemur +35,2% milli mánaða. Skýringin er að hluta til sívaxandi ferðamannastraumur en það er þó umtalsverð hækkun milli mánaða. Einnig hækkar matarkarfan umfram okkar spár (+0,07% áhrif á VNV) og hækkar brauð í verði ásamt kjötvörum, svo eitthvað sé nefnt.

Eldsneytisverð hækkar en flugfargjöld lækka

Eldsneytisverð hækkar umfram okkar spá (+0,08% áhrif á VNV) en á móti vegur að flugfargjöld til útlanda lækka (-0,07% áhrif á VNV). Verð á hráolíu á alþjóðamörkuðum er nú nálægt 50 bandaríkjadölum á tunnuna og hefur olíuverð hækkað samfellt undanfarna mánuði. Það kæmi því ekki á óvart ef eldsneytisverðs hér innanlands myndi hækka frekar á komandi mánuðum. Flugfargjöld til útlanda lækka um rúm 6% milli mánaða en á móti hækka flugfargjöld innanlands um 25,3%. Aðrir undirliðir ferðaliðarins breytast minna, en þó hækka sumir liðir eins og þjónusta á hjólbarðaverkstæðum um 5,6%. Ferðaliðurinn í heild sinni hefur einungis +0,02% áhrif til hækkunar á VNV.

Er lækkun á verði innfluttra vara að dvína?

Hækkun VNV í maí, sem nemur 0,42%, er mesta hækkun frá því árið 2011 þegar miklar launahækkanir voru í spilunum vegna nýafstaðinna kjarasamninga það árið. Þegar litið er á verðlagsþróun í maí undanfarin ár má sjá að hækkanir hafa farið vaxandi milli ára. Ferðaliðurinn hefur áhrif til lækkunar árin 2012 til 2014 og er húsnæðisliðurinn enn fyrirferðarmeiri en árin áður. Þegar litið er á hve miklar hækkanir eru þvert á flesta undirliði má velta fyrir sér hvort launahækkanir og vaxandi eftirspurn í hagkerfinu hafi nú meiri áhrif til hækkunar verðlags en undanfarna mánuði. Ýmsir þjónustuliðir hækka s.s. hótel og veitingar og einnig eru dvínandi áhrif af lækkun innfluttra vara. Eldsneytisverð hækkar áfram og einnig hækka ýmsar matvörur. Ef áhrif af lækkun innfluttra vara gefur eftir á næstu mánuðum og innlendir liðir halda áfram að hækka má búast við hækkandi verðbólgu á síðasta fjórðungi ársins.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
• Júní +0,4%: Ferðaliðurinn og hótel og veitingastaðir hækka ásamt fasteignaverði.
• Júlí +0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.
• Ágúst +0,5%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.
 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.