Óbreyttir stýrivextir á meðan snjóhengjan bráðnar

Óbreyttir stýrivextir á meðan snjóhengjan bráðnar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum, sem er í samræmi við spár og væntingar ef horft er til lítilla hreyfinga á markaði í morgun. Jafnframt ákvað nefndin að lækka bindisskyldu úr 2,5% niður í 2%, líkt og búið var að tilkynna að myndi gerast þegar að dagsetning aflandskrónuútboðs lægi fyrir.

Að öðru leyti er yfirlýsing nefndarinnar tíðindalítil og framsýna leiðsögnin óbreytt, sem er skiljanlegt þar sem stutt er frá síðustu vaxtaákvörðun og horfur hafa nær ekkert breyst í millitíðinni. Næsta vaxtaákvörðun verður 24. ágúst nk. og línur verða þá væntanlega teknar að skýrast betur varðandi losun hafta, sem boðuð hefur verið með haustinu.

Heimild: Seðlabanki Íslands.

Gjaldeyrisútboðið á ekki að hafa áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar

Með komandi aflandskrónuútboði og bindingu aflandskróna á sérstökum reikningum mun að óbreyttu draga úr lausafé í bankakerfinu. Á kynningarfundi í morgun sagði seðlabankastjóri að ef það gerist muni Seðlabankinn mögulega opna fyrir veðlánaviðskipti en þá jafnframt loka á bundin innlán, en í dag eru þeir innlánsvextir virkir stýrivextir. Ef lokað er á bundin innlán en bankinn byrjar í staðinn að veita veðlán er það ígildi stýrivaxtahækkunar þar sem veðlánavextir eru 6,5% en vextir á bundnum innlánum eru 75 punktum lægri eða 5,75%. Aðspurður sagði seðlabankastjóri að ef þessi breyting verður þá muni það „...ekki hafa tilviljanakennd áhrif á aðhald peningastefnunnar, hvort sem það tekur þá á sig það form að vextir lækki á móti eða það verður ekki lækkun sem ella hefði orðið er svo bara annað mál og kemur bara í ljós. Við munum útskýra það mjög glögglega, muninn sem er að verða á lausafjárskilyrðum kerfisins og hvernig við tryggjum það aðhaldsstig sem við viljum stefna að.“ Því búumst við við tíðindum er þetta varðar fljótlega eftir uppgjör aflandskrónuútboðsins eða í lok sumars.

Forðinn hæfilega stór og verður það væntanlega aftur fyrir áramót

Seðlabankastjóri sagði á fundinum í morgun að gjaldeyrisforði Seðlabankans nú væri hæfilega stór, en skv. gróflegum áætlunum okkar var hann um 778 ma.kr. 27. maí sl. og hreinn forði þá um 437 ma.kr. Hann sagði einnig að hann gerði sér góðar vonir um að búið verði að byggja forðann aftur upp vel fyrir áramót og helst fyrir haustið. Við komandi aflandskrónuútboð gætu að hámarki 1,67 milljarðar evra farið úr forðanum sem eru 231 ma.kr. á genginu 190. Þannig verður hreinn forði í minnsta lagi um 206 ma.kr. en teljast verður ólíklegt að allar aflandskrónur fari út í útboðinu svo hreinn forði verður væntanlega talsvert meiri. Ef við gerum ráð fyrir að helmingur aflandskróna fari út eru engu að síður rúmir 115 ma.kr. sem upp á vantar til að ná núverandi stöðu. Því má búast við áframhaldandi krafti í gjaldeyriskaupum Seðlabankans í sumar en eins og kom fram í síðustu fundargerð peningastefnunefndar verður stefnan í gjaldeyrisinngripum bankans endurmetin áður en höft verða losuð á innlenda aðila. Miðað við horfur um enn eitt metsumarið í ferðaþjónustu og vísbendingar um að hver ferðamaður eyði meira skv. tölum um þjónustuviðskipti sem birt voru í morgun, verður sjálfsagt lítill vandi fyrir Seðlabankann að byggja upp gjaldeyrisforða í sumar. En eins og kom skilmerkilega fram á fundinum og við þekkjum öll er ætíð mikil óvissa um hvað gerist í framtíðinni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka. Neysla á hvern ferðamann hér er ferðalög í þjónustuútflutningi á föstu gengi deilt með fjölda erlendra ferðamanna. Flug og samgöngur eru undanskilin.