Hagkerfið hækkar flugið: 4,2% hagvöxtur á 1F 2016

Hagkerfið hækkar flugið: 4,2% hagvöxtur á 1F 2016

Verg landsframleiðsla jókst um 4,2% á fyrsta ársfjórðungi 2016 miðað við sama tíma í fyrra. Svo virðist sem krafturinn í hagkerfinu í byrjun árs hafi verið eilítið meiri en við áttum von á. Þrátt fyrir það var hagvöxtur aðeins undir okkar spá, en það skýrist af aðallega af innflutningi flugvéla í mars, og í minna mæli, að hið opinbera hélt fastar um pyngjuna þegar kom að fjárfestingum en við höfðum áætlað.

Líkt og undanfarin ár var vöxturinn drifinn áfram af vexti í fjárfestingu og einkaneyslu, en alls jukust þjóðarútgjöld um 8,3%. Vöxtur einkaneyslu var töluvert sterkari á fjórðungnum en við spáðum (5,6%) en hann mældist 7,1%. Horfur eru á að mikil kaupmáttaraukning, fjölgun starfa og bætt eiginfjárstaða muni styðja við umtalsverðan vöxt einkaneyslu á árinu. Þá benda hátíðnivísbendingar, svo sem kortavelta, innflutningur og væntingavísitalan, til þess að innlend eftirspurn sé að sækja í sig veðrið. Með þessar upplýsingar bak við eyrað er ekki loku fyrir það skotið að spá okkar frá því í mars, er hljóðaði upp á 6,8% einkaneysluvöxt árið 2016, hafi verið full hógvær.

Fjárfesting hélt áfram að vaxa skarpt og er styrkleikamerki að fjárfestingarstigið er komið upp í langtímameðaltal sitt. Líkt og áður var það atvinnuvegafjárfesting sem dró vagninn en hún jókst um 32,4% á fyrsta fjórðungi. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting um hvorki meira né minna en 45% og fjárfesting alls um 31,4%. Þá jókst íbúðafjárfesting um tæp 10%, annan fjórðunginn í röð, sem teljast verður til gleðitíðinda í ljósi vaxandi eftirspurnar eftir húsnæði. Fjárfesting hins opinbera dróst aftur á móti saman á fjórðungnum. Vísbendingar úr könnun Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins benda til þess að atvinnuvegafjárfesting muni ekki gefa eftir á árinu, en um 75% svarenda sögðust stefna á fjárfestingar á þessu ári.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Líkt og áður sagði var hagvöxtur á fyrsta fjórðungi 4,2%, sem gerir þetta að sterkasta fyrsta fjórðungi hagvaxtarlega séð síðan 2008. Í rauninni á lýsingin „síðan 2008“ afskaplega vel við þessar hagvaxtartölur fyrsta fjórðungs: Vöxtur einkaneyslu var sá mesti á einum ársfjórðungi síðan á fyrsta ársfjórðungi 2008 og hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur ekki verið hærra síðan í lok árs 2008.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vöxtur útflutnings var nokkuð umfram spá okkar en hann jókst um 6,4%. Sem fyrr var það sterkur þjónustuútflutningur sem var driffjöðurin, með ferðaþjónustuna í broddi fylkingar. Aftur á móti var það sterkur vöxtur innflutnings sem kom okkur einna mest á óvart, en innflutningur jókst um 15,2%, sem var töluvert umfram spá okkar (10,4%). Hér munar mestu um innflutning á flugvélum í mars sem fer langt með að útskýra muninn. Sökum mikils vaxtar innflutnings var framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar neikvætt.

Þá var framlag birgðabreytinga einnig neikvætt en minnkun birgða milli ára skýrist líklega að miklu leyti af talsvert lakari loðnuvertíð. Ætla má að mjöl-, lýsis- og frystigeymslur hafi af þeim sökum ekki verið eins fullar og á sama tíma í fyrra.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Greiningaraðilar hafa haft í nógu að snúast síðustu vikurnar við að uppfæra hagspár sínar en Seðlabankinn, Hagstofan, Landsbankinn og Íslandsbanki birtu öll nýjar spár í maí/júní. Allir aðilar uppfærðu spár sínar fyrir árið 2016 talsvert upp á við enda mikill gangur í hagkerfinu um þessar mundir. Í mars, þegar við kynntum spá okkar, voru greiningaraðilar að spá rúmlega 4% vexti á þessu ári núna er meðaltalið komið upp í 4,7%.

Heimildir: Ofangreindir greiningaraðilar, Greiningardeild Arion banka