Ódýr hádegisverður ei meir

Ódýr hádegisverður ei meir

Um helgina jukust völd Seðlabanka Íslands til muna. Á fimmtudag samþykkti Alþingi breytingu á lögum um gjaldeyrismál sem veitir Seðlabankanum heimild til að setja stjórnvaldsfyrirmæli sem fela í sér sérstaka bindiskyldu á skammtíma fjárstreymi til Íslands. Seðlabankinn lét rúman sólarhring líða og birti fyrirmælin á laugardag. Í grófum dráttum felst í fyrirmælunum að þeir aðilar sem ákveða að koma með gjaldeyri til Íslands og nota hann til að fjárfesta í skuldabréfum, víxlum eða bankainnstæðum þurfa að geyma 40% af fjárhæðinni í eitt ár á reikningi sem ber 0% vexti.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Kodiak, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka

Veruleg áhrif á vaxtastig í landinu

Áhrifin hafa ekki látið á sér standa. Þegar þetta er ritað hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkað um 30-50 punkta og langtímavextir ríkisbréfa eru komnir vel yfir 6%. Í ljósi þess að ríkistryggðir vextir eru grunnur á verði nánast allra langtíma eignaflokka í íslenskum krónum; fasteignir, hlutabréf, fasteignalán og önnur skuldabréf, þá hefur ákvörðunin og áhrifin vakið ótrúlega litla athygli. Markmið lagabreytinganna og ákvörðunar Seðlabankans er að draga úr áhuga þeirra fjárfesta sem ætla sér að njóta skammtímaágóða af miklum vaxtamun milli Íslands og ýmissa annarra ríkja. Þeir sjá, eins og aðrir, að efnahagsaðstæður eru hér hlutfallslega góðar; Seðlabankinn hefur byggt upp sterkan gjaldeyrisforða, vaxtastig ræðst opinberlega af verðbólgumarkmiði og Peningastefnunefnd hefur ítrekað talað um þörf á frekari hækkun vaxta. Þannig eru til skemmri tíma tiltölulega litlar líkur á miklu gengisfalli sem er einn stærsti áhættuþáttur vaxtamunarviðskipta og íslenskir vextir hljóma því sem ódýr hádegisverður fyrir alþjóðlega skammtímafjárfesta.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Seðlabankinn hættur að vera í hlutverki þolanda

Við höfum áður í Markaðspunktum velt fyrir okkur stærð gjaldeyrisforðans. Stór gjaldeyrisforði breytir áhættumati á íslenskum krónum. Hættan á gengisfalli ætti að vera minni en á árum áður þegar stærð forða tók t.d. mið af þriggja mánaða innflutningi og var því miklu minni Tilgangur forðans í dag er að Seðlabankinn hafi burði til að draga úr sveiflum í gengi gjaldmiðilsins og þar með áhrifum á verðlag auk þess að geta losað fjármagnshöft án mikilla sveiflna í gengi. Bankinn tekur m.a. mið af skammtímaskuldum þjóðarbúsins þegar hann ákveður stærð gjaldeyrisforðans og hefur þar að auki horft til fjárhæðar skammtímafjárfestingar erlendra aðila. M.ö.o. má líta svo á að Seðlabankinn sé á röngum enda vaxtamunarviðskiptanna. Hann á lágvaxtaberandi erlendar eignir sem hann mun færa yfir í krónur ef útstreymi verður það mikið að það raskar verulega verð- og fjármálastöðugleika. Seðlabankinn er greinilega ekki til í það lengur að vera í hlutverki þolanda vaxtamunarviðskipta og vill greina kvikt erlent fjármagn frá öðru. Þegar erlendir fjárfestar eru í raun langtímafjárfestar þá er sú bindiskylda sem nú hefur verið sett ekki stórkostlega íþyngjandi. Yfir líftíma lengstu skuldabréfa með ríkisábyrgð eru áhrif á meðalávöxtun t.d. óveruleg og fjárfesting í hlutabréfum og fasteignum er utan bindiskyldu.

Sjálfstæð peningastefna, sjálfstæður seðlabanki og sjálfstæð króna

Í athugasemdum með frumvarpinu er færð sannfærandi rök fyrir bindiskyldunni. Um leið og talað er vel um áhrif beinnar og langtíma erlendrar fjárfestingar, sem getur auk fjármögnunar falið í sér tilkomu langtímaviðskiptasambands og miðlun á þekkingu og tækni, er talað um takmarkaðan ábata en heilmiklar ógnir skammtímainnstreymis. Því geti fylgt efnahagslegur óstöðugleiki og hætta á fjármálaáfalli enda hafi vaxtamunarviðskipti tilhneigingu til að ýkja efnahagsveifluna, líkt og raunin varð á Íslandi í kringum fjármálakreppuna 2008. Loks leiða vaxtamunarviðskipti til þess að peningastefnan virkar ekki sem skyldi og að erfitt verður fyrir smærri ríki að fylgja annarri peningastefnu en er í stærri ríkjum. Þarna er varpað fram þeirri skoðun að bindiskylda, eða önnur aðgerð sem hefur sömu áhrif, sé nauðsynleg fyrir sjálfstæða peningastefnu. Það er skammur vegur frá sjálfstæðri peningastefnu, til sjálfstæðs seðlabanka og sjálfstæðs gjaldmiðils. Peningastefnunefnd hefur t.a.m. talað um þá hnökra sem hafa verið á miðlun peningastefnunnar vegna fjármagnsinnstreymis og áhrifa þess til lækkunar á langtímavöxtum þrátt fyrir yfirlýsingar um að líklega þurfi að hækka vexti frekar. Tilkoma bindiskyldunnar hefur nú getið af sér verulega kröfuhækkun á skuldabréfamarkaði sem eykur peningalegt aðhald sem Seðlabankinn tekur væntanlega tillit til þegar kemur að næstu ákvörðun um peningastefnu.

Heimild; Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Kannski eru vextir einfaldlega of háir?

Það er ekki hægt að loka þessum punkti án þess að nefna sökudólginn sjálfan, vaxtamuninn. Getur verið að vextir á Íslandi séu einfaldlega of háir ef tekið er mið af lítilli verðbólgu, lítilli skuldastöðu ríkissjóðs, fyrirtækja og almennings, vöxtum í viðskiptalöndum og stórum þætti útflutningsgreina í eftirspurn eftir lánsfé? Svo má auðvitað líta á kaup útlendinga á íslenskum skuldum sem vilja þeirra til að lána Íslendingum á hagstæðari kjörum heldur en Seðlabankinn telur heppilegt í ljósi þeirrar peningastefnu sem hann fylgir. Seðlabankinn tekur hins vegar annan pól í hæðina og með vísan í launahækkanir, framleiðsluspennu, atvinnustig og hagvaxtarhorfur og telur jafnvel þörf á að vextir, og þar með vaxtamunur, séu hærri en nú er raunin. Hvort sem sú stefna er farsælust við núverandi aðstæður á eftir að koma í ljós. Tækjakostur Seðlabankans til þess að hafa áhrif á vaxtastig, verðlag og gengi krónunnar hefur hins vegar stækkað til muna.