Fer Ísland áfram í 16 liða úrslit?

Fer Ísland áfram í 16 liða úrslit?

Nú styttist óðfluga í Evrópumót karla í knattspyrnu sem haldið verður í Frakklandi. Mótinu verður sparkað af stað með leik Frakklands og Rúmeníu á morgun og óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríki meðal Íslendinga fyrir mótinu, enda íslenska karlalandsliðið að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti.

Fyrirkomulagið að þessu sinni er breytt frá EM 2012 þar sem ákveðið var að bæta við tveimur riðlum á mótið í ár. Áður fyrr fóru tvö efstu lið hvers riðils beint í átta liða úrslit en að þessu sinni verður spilað til 16 liða úrslita. Þessi viðbót þýðir að þriðja sætið getur komið okkur í 16 liða úrslitin því að af liðunum í þriðja sæti riðlanna fara þau fjögur sem ná bestum árangri áfram.

Greiningardeild hefur rýnt í ýmsa tölfræði fyrir mótið og skoðað hvernig tölfræðigreiningar spá fyrir um gengi Íslands í riðlakeppninni. Það skemmtilega við fótbolta er hversu óútreiknanleg íþrótt hann er og hefur tölfræði því takmarkað forspárgildi. Greiningardeild mælir því ekki með því að fólk rjúki upp til handa og fóta og veðji á gengi í keppninni út frá þessari greiningu.

Ísland í samanburði við keppinauta

Þegar styrkleiki liða er borinn saman er oftar en ekki horft á styrkleikalista FIFA. Ísland situr nú í 35. sæti listans sem er talsvert á eftir flestum keppnisþjóðum, en aðeins tvö lið sitja neðar en við á listanum; Albanía og Svíþjóð. Annar þekktur stuðull er ELO stuðullinn en hann var upphaflega notaður til að meta getu skákmanna. ELO stuðullinn er uppfærður eftir hvern einasta landsleik og byggir matið á úrslitum leikja með sérstaka vigt á hverri keppni (úrslit vináttuleikja hafa lægri vægi en t.d. leikur á EM). Stuðullinn er reglulega notaður í spám og er hann talinn hafa betri spágetu en styrkleikalisti FIFA. Aftur situr Ísland nokkuð neðar en hinar þjóðirnar, að þessu sinni í fjórða neðsta sæti. Ef taka á mark á þessum stuðlum erum við því með lakasta liðið í F riðli, stutt á eftir Ungverjum. Íslendingar hafa aftur á móti klifið hratt upp báða lista á undanförnum árum.

Heimildir: ELO ratings, FIFA, Greiningardeild Arion banka, transfermarkt.co.uk

Einnig er áhugavert að skoða skráð verðmæti 23-manna liðshóps hvers liðs á mótinu og samband þess við ELO stuðulinn. Íslendingar eru með fjórða ódýrasta liðshópinn og er t.d. David Alaba, leikmaður Austurríkis og Bayern München, verðmætari en allur íslenski hópurinn til samans. Okkur til ánægju eru mótherjar okkar frá Ungverjalandi með ennþá ódýrari hóp, en hann er verðlagður á 20,48 milljónir punda.
Það er oft talað um það að Ísland hafi komist upp úr mjög erfiðum riðli í undankeppninni. En hversu erfiðir voru andstæðingar Íslands? Með því að skoða getustig (ELO stig) keppinauta hvers liðs í undankeppninni má sjá að meðal ELO stig keppinauta Íslands var það næst hæsta af öllum löndum. Aðeins Albanía átti erfiðari leið á mótið. Má þá einnig nefna að Albanía spilaði aðeins átta leiki (líkt og Portúgalar) ásamt því að Albanir fengu útileik á móti Serbíu gefinn 0-3 vegna slæmrar hegðunar stuðningsmanna Serba. Íslendingar spiluðu einnig langt fram úr væntingum ef horft er til stuðla hjá veðbönkum í undankeppninni.

Heimildir: ELO ratings, Greiningardeild Arion banka

Þegar markamismunur, þ.e. mismunur skoraðra og fenginna marka, í undankeppninni er skoðaður virðist Ísland við fyrstu sýn dragast nokkuð aftur úr, en erfiðleikastig keppinauta skiptir hér gríðarlega miklu máli þar sem leikir við t.d. Gíbraltar og San Marinó bjaga samanburð allverulega milli liða. Með því að horfa til markamismunar gegn mótherjum sem eru skráðir sem topp 60 lið samkvæmt ELO stuðlinum kemur önnur mynd í ljós. Pólland t.d., með markamaskínuna Robert Lewandowski fremstan í flokki, skoraði 33 mörk í riðlakeppninni en 23 af þessum mörkum komu á móti Gíbraltar og Georgíu. Pólverjar skoruðu samanlagt 10 mörk á móti Þýskalandi, Írlandi og Skotlandi en fengu á sig 9 mörk. Þegar horft er á markamismun á móti topp 60 liðum kemur í ljós að Ísland er með þriðja besta markahlutfallið, 5 mörk í plús og sóttu 12 stig, af 18 mögulegum, úr þeim leikjum. Þetta undirstrikar afrek Íslands í undankeppninni. Ungverjar, mótherjar okkar í F riðli, skoruðu aðeins sex mörk á móti andstæðingum í topp 60 en fengu á sig átta.

Heimildir: UEFA, Greiningardeild Arion banka

Eins og áður var nefnt spiluðu bæði Portúgal og Albanía aðeins átta leiki í undankeppninni. Þá voru þrír riðlar í undankeppninni með aðeins þrjú topp 60 lið. Því höfum við skoðað meðaltal skoraðra og fenginna marka bæði gegn öllum andstæðingum í undankeppninni (vinstra graf) og eingöngu í leikjum við topp 60 lið (hægra graf). Aftur sést hvað Ísland spilaði vel í undankeppninni í samanburði við önnur lönd sem komust á EM.

Heimildir: UEFA, Greiningardeild Arion banka

Spár greiningaraðila

Við höfum kannað spár þriggja ólíkra greiningaraðila sem allar byggja á mismunandi forsendum. Leitner (2016) nýtir sér líkur frá 19 veðbönkum til að búa til líkan sem spáir fyrir útkomu mótsins, allt frá því hverjir komast áfram í 16 liða úrslit yfir í hver verður sigurvegari. Leitner og samstarfsfélagar framkvæmdu sambærilega spá fyrir EM 2008 og 2012 með nokkuð góðum árangri. Fyrir seinna mótið spáði líkan þeirra rétt fyrir um sigurvegara og í hvoru móti fyrir sig spáði það fimm af átta liðum í útsláttarkeppnina. Fyrir mótið í ár spáir Leitner Frökkum sigri, en þeir mæta að öllum líkindum Þjóðverjum í undanúrslitum skv. spánni. Heimavöllurinn mun þar vega þungt og munu Frakkar komast naumlega áfram í úrslitaleikinn á móti Spánverjum. Það sem meira máli skiptir er að Leitner telur meiri líkur en minni á að Íslendingar komist áfram í 16 liða úrslitin.

Önnur spáin er frá Goldman Sachs, sem er að gefa út sína fyrstu spá fyrir EM, en bankinn hefur gefið út spár fyrir HM frá árinu 1998. Starfsmenn Goldman Sachs eru ekki alveg jafn bjartsýnir um gengi Íslands og spá okkur neðsta sæti F riðils. Spá Goldman byggir að miklu leiti á ELO stuðlinum og þar sem Ísland er lágt skráð þar í samanburði við önnur lið er okkur eðlilega spáð lélegu gengi. Á hinn bóginn gekk spá Goldman um hverjir kæmust í 16 liða úrslit á HM 2014 frekar illa eftir. Goldman Sachs spáði þó rétt fyrir þremur af fjórum liðum í undanúrslitum. Samkvæmt EM spá bankans munu annars vegar Frakkar og Þjóðverjar mætast í undanúrslitum og hins vegar Englendingar og Spánverjar. Frakkar munu svo standa uppi sem sigurvegarar eftir nauman sigur á Spánverjum í úrslitaleiknum.

Að lokum hefur ESPN búið til sína eigin spá sem byggir á svokölluðu „Soccer Power Index“ eða SPI. Þar er notast við hina ýmsu stuðla, t.d. gæði liðsins og mörk skoruð/fengin í fyrri leikjum, til að búa til sóknar- og varnarstyrkleika allra liða í heiminum. Spá þeirra segir svo til um hvað lið getur búist við því að skora mörg mörk gegn tilteknum mótherja sem gefur í framhaldi líkurnar á tiltekinni útkomu í hverjum leik á mótinu. Þannig spáir ESPN Íslandi að jafnaði í 2,6 sæti riðilsins og 64,5% líkum á að komast áfram í 16 liða úrslit.

 

Heimildir: ESPN, Greiningardeild Arion banka

Á Ísland möguleika á að vinna mótið?

Líkt og í þeim spám sem voru reifaðar hér að ofan þá eru heimamenn taldir sigurstranglegastir samkvæmt veðbönkum. Eftir að stuðlar 19 stórra veðbanka hafa verið yfirfærðir á sigurlíkur má sjá að Frakkar eru metnir með tæplega 22% líkur á sigri, Þjóðverjar fylgja fast á eftir með 20% líkur og Spánverjar með tæplega 14% líkur. Veðbankar eru ekki alveg jafn vongóðir á að strákarnir okkar standi uppi sem sigurvegarar og spá þeim um 1% sigurlíkum. Til að horfa á björtu hliðarnar þá eru það margfalt betri líkur en þær sem Leicester City fékk á að vinna ensku úrvalsdeildina fyrir nýliðið tímabil (stuðull 5000/1).

 

Heimildir: Leitner (2016), Greiningardeild Arion banka

Það er ljóst að Ísland á erfiða leiki fyrir höndum, þá sérstaklega á móti Portúgal og Austurríki. Gengi Íslands á mótinu mun að miklu leyti velta á úrslitunum á móti Ungverjum en miðað við spár um framvindu mótsins þá myndi sigur á móti Ungverjum fara langleiðina með að koma okkur í 16 liða úrslitin. Jafntefli svo á móti Portúgal eða Austurríki myndi nánast gulltryggja okkur áfram. Ef litið er á hversu vel Íslendingum gekk á móti erfiðum andstæðingum í undankeppninni er vel hægt að ímynda sér að við náum stigi úr öðrum hvorum leiknum. Það er eitthvað sem segir okkur að Ísland geti komið á óvart á þessu móti en ef taka má mark á tölfræðinni þá geta Íslendingar verið tiltölulega bjartsýnir fyrir því að komast áfram í 16 liða úrslitin.