Spáum að verðlag hækki um 0,4% í júní

Spáum að verðlag hækki um 0,4% í júní

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% milli mánaða í júní og að ársverðbólgan hækki úr 1,7% í 1,8%. Samkvæmt spá okkar mun ársverðbólgan hækka í 2,2% í september og er það í fyrsta sinn sem verðbólgan fer upp fyrir 2% frá því í febrúar á þessu ári. Þá áætlum við að verðbólgan hækki enn frekar fram að áramótum. Helstu liðir sem hækka í spá okkar eru eldsneytisverð (+0,10% áhrif á VNV) og flugfargjöld til útlanda (+0,05%). Einnig hækkar reiknuð húsaleiga (+0,09% áhrif á VNV) og húsnæði án húsaleigu (+0,03%). Hótel og veitingastaðir hækka yfir sumartímann (+0,06% áhrif á VNV) en aðrir liðir hækka minna. Helstu liðir sem lækka eru húsgögn og heimilisbúnaður (-0,03% áhrif á VNV) og póstur og sími (-0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði breytist lítið en við spáum að verðlag standi í stað í júlí en hækki um 0,4% í ágúst og 0,3% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 2,2% í september.

Ferðaliðurinn hækkar

Við spáum því að flugfargjöld til útlanda hækki um 4% í maí (+0,05% áhrif á VNV). Þrátt fyrir það er verð á flugfargjöldum til útlanda lægra nú en í ársbyrjun eins og sjá má á myndinni að neðan og er þróunin nokkuð undir því sem sést hefur undanfarin tvö ár. Framundan eru þó árstíðarbundnar hækkanir flugfargjalda í júlí líkt og síðustu ár. Einnig mun hækkun hráolíuverðs ýta undir frekari hækkanir flugfargjalda til lengri tíma litið.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Samkvæmt okkar mælingum hækkar eldsneytisverðs um tæp 3% milli mánaða (+0,10% áhrif á VNV). Þar af hækkar bensínverð um 2,7% og verð á dísilolíu um 2,9%. Verð á eldsneyti innanlands fylgir því nokkurn veginn þróun hráolíuverðs á alþjóðamörkuðum líkt og sjá má á myndinni að neðan. Líklegt er að frekari hækkanir eldsneytisverðs séu í kortunum næstu mánuði og gerum við ráð fyrir því í spá okkar fram á við. Samtals hefur ferðaliðurinn +0,15% áhrif á VNV.

Heimildir: Heimasíður íslenskra olíufélaga, Bloomberg, Greiningardeild Arion banka.

Húsnæðisliðurinn hækkar

Gert er ráð fyrir að húsnæðisverð hækki um rúm 0,6% milli mánaða (+0,09% áhrif á VNV). Húsnæðisverð hefur hækkað um 7,3% um land allt undanfarna 12 mánuði og þar af hefur fjölbýli innan höfuðborgarsvæðisins hækkað mest eða um 7,4%. Verð á sérbýli er enn að hækka hægar en verð á fjölbýli og er hlutfallið þar á milli því enn að lækka. Líkt og sjá má á myndinni að neðan er verð á sérbýli sem hlutfall af verði fjölbýla að nálgast það bil sem tíðkaðist á árabilinu 1994 til 2004. Mögulegt er að verð á sérbýli og fjölbýli sé að nálgast langtíma jafnvægi og að verð á sérbýli taki við sér í auknum mæli í kjölfarið. Við spáum einnig að viðhald og viðgerðir á húsnæði hækki lítillega (+0,03% áhrif á VNV) milli mánaða í júní og hefur húsnæðisliðurinn því +0,12% áhrif á VNV.

 

Heimildir: Þjóðskrá Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þjónustuliðir hækka í verði en húsgögn lækka á móti

Í spá okkar er gert ráð fyrir að hótel og veitingastaðir hækki í verði (+0,06% áhrif á VNV) samhliða auknum ferðamannastraumi. Þá gerum við ráð fyrir að aðrar vörur og þjónusta hækki (+0,02% áhrif á VNV) en að aðrir liðir hækki minna. Á móti lækka húsgögn og heimilisbúnaður (-0,03% áhrif á VNV) og póstur og sími (-0,03% áhrif á VNV).

Er verðbólgan að taka við sér?

Á næstu mánuðum mun árstaktur verðbólgunnar hækka og spáum við 2,2% verðbólgu í september. Það stafar af því að mikil hækkun var á vísitölu neysluverðs í ágúst í fyrra en sú mæling dettur út í september. Sökum þess hækkar árstakturinn og einnig er ólíklegt að lækkun hrávöruverðs verði með svipuðu móti og í fyrra en þá lækkaði hráolíuverð hratt á alþjóðamörkuðum. Næstu mánuði er því líklegt að árstakturinn hækki nokkuð hratt og spáum við því að verðbólgan fari yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Júlí +0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.
Ágúst +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.
September +0,3%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.