Fótboltahagfræði og hamingja

Fótboltahagfræði og hamingja

Bókin Soccernomics, sem gæti útlagst á íslensku sem fótboltahagfræði, kom út fyrst árið 2009. Í henni eru ýmis fyrirbæri í fótbolta eins og laun leikmanna, velgengni knattspyrnuþjóða, áhrif þjálfara á árangur o.fl. greind frá sjónarhóli tölfræði, hagfræði og viðskiptafræði. Upp til hópa hafa starfsmenn Greiningardeildar áhuga á fótbolta og/eða eru hagfræðimenntaðir svo fótboltahagfræði hljómar eins og músík í okkar eyrum. Það er því viðeigandi að rýna í fáein atriði tengd fótboltahagfræði nú þegar stórmót í fótbolta er nýhafið, t.d. fótboltaáhuga þjóða, áhrif íþrótta á hamingju og áhrif EM á inn- og útstreymi gjaldeyris hér á landi.

Heimildir: Alþjóðabankinn, Hagstofa Bretlands, Greiningardeild Arion banka

Þjóðin sem elskar fótbolta meira en aðrar þjóðir í Evrópu

Allt frá því að Ísland tryggði sér farseðil til Frakklands, og raunar fyrr, hafa erlendir fjölmiðlar keppst við að leita skýringa hvers vegna Íslendingar eru svona góðir í fótbolta. Hagkerfið er það 146. stærsta í heiminum og þjóðin sú 180. fjölmennasta í heiminum en á sama tíma er karlalandsliðið í 34. sæti á heimslista FIFA og kvennalandsliðið í 20. sæti. Ástæður sem eru nefndar eru oftar en ekki uppbygging sparkvalla og knattspyrnuhalla um allt land auk gríðarlegrar áherslu á menntun þjálfara. En hvers vegna leggur Ísland svona mikla áherslu á að fjárfesta í fótbolta og hver er þá grundvöllur þessara fjárfestinga?

Svarið gæti verið að finna í Soccernomics. Bókin gerir tilraun til að svara spurningunni: Hvaða Evrópuþjóð elskar fótbolta mest? Til að svara því tóku höfundarnir saman gögn um fótboltaiðkendur, fjölda áhorfenda í efstu deild karla og áhorf á fótbolta í sjónvarpi – allt sett í samhengi við fjölda íbúa. Allskonar fyrirvarar eru settir við samanburðinn og gögnin sem eru lögð til grundvallar, enda er þetta til gamans gert fremur en nokkuð annað. Í fyrsta lagi spilar 11% þjóðarinnar fótbolta og 7% eru skráðir iðkendur – það nægir okkur til að komast á topp 20 listann í heiminum. Í öðru lagi er samanlagður meðalfjöldi áhorfenda (meðalfjöldi áhorfenda á leik í efstu deild karla margfaldaður með fjölda liða) hér á landi í hlutfalli við mannfjölda sá næsthæsti í Evrópu, eða 4%. Einungis frændur okkar Færeyingar skáka okkur með 10%. Í þriðja og síðasta lagi eru teknar saman tölur um sjónvarpsáhorf á HM 2010 þar sem Ísland er á toppnum eins og sjá má hér að neðan.

Heimildir: Kuper og Szymanski (2014) Soccernomics, European-football-statistics.co.uk

Niðurstaða höfundanna er að Ísland sé sú þjóð sem elskar fótbolta mest, a.m.k í Evrópu. Þessi mikli fótboltaáhugi, og íþróttaáhugi almennt, ætti að auka líkur á góðum árangri okkar og þar með skýra hann að hluta til. Einstaklingi sem finnst ákveðin íþrótt leiðinleg verður tæplega góður í henni. Einstaklingur sem er stútfullur af áhuga á hins vegar möguleika á að verða mjög góður. Áhugi Íslendinga hefur að líkindum einnig þau áhrif að sveitarfélög, KSÍ, íþróttafélög og aðrir leggja meira á sig en ella, sem birtist í hundruðum þjálfara með UEFA gráður, knattspyrnuhöllum og annarri aðstöðu.

Stórmót í íþróttum auka hamingju

Eins og fjallað er um í Soccernomics borgar það sig nær aldrei fyrir þjóðir að halda stórmót í íþróttum, þó að þau séu oft haldin einmitt á þeim forsendum að þau skapi störf, tekjur og séu lyftistöng fyrir ferðamannaiðnaðinn. Staðreyndin er sú að þessi áhrif eru oft takmörkuð, tímabundin og afar lítil í hlutfalli við kostnað. Kostnaður Brasilíu af því að halda HM karla í fótbolta 2014 var t.d. 15 milljarðar dollara, sem er um 85% af landsframleiðslu Íslands.

Þó að stórmót borgi sig ekki er ekki þar með sagt að þau séu ekki þess virði þegar allt kemur til alls. Sterkar vísbendingar eru um að stórmót í íþróttum auki almennt hamingju þar sem þau eru haldin. Í rannsókn frá 2010 eru niðurstöður samevrópskra hamingjukannanna í 12 Evrópuríkjum sem spanna 30 ár notuð til að kanna hvort stórmót auki hamingju gestgjafanna. Niðurstaðan er sú að stórmót í fótbolta auka hamingju, en áhrifin eru oftast fremur skammvinn þó þau séu talsverð.

Í rannsókninni kemur fram að árangur gestgjafa skipti síður máli eða engu máli þegar kemur að hamingju sem e.t.v. kemur nokkuð á óvart. Það kemur þó kannski síður á óvart er að tíðni sjálfsvíga lækkar þegar þjóðir taka þátt á HM eða EM karla í fótbolta, jafnvel þó að lið detti snemma út og ekki einungis í gestgjafaríkjum. Kenningin er sú að félagsleg samheldni (e. social cohesion) aukist þegar þjóðir taka þátt á stórmótum, sem leiðir til þess að þeir sem væru annars á einn eða annan hátt úr tengslum við samfélagið upplifa sig sem part af einhverjum hópi, sem er mannskepnunni svo mikilvægt. Þegar stórmót standa yfir geta nær allir talað saman um fótbolta, stríðsaxir eru grafnar, fólk hittist, fólk fagnar saman og fólk grætur saman. Allt þetta eykur félagslega samheldni innan hópa og í samfélaginu í heild. Slíkt er bersýnilega til þess fallið að auka hamingju í samfélaginu a.m.k. aðeins lengur en þær 90 mínútur sem fótboltaleikur stendur yfir.

Hafa stórmót og íþróttaafrek áhrif á væntingavísitöluna?

Við gerðum tilraun til að prófa þessi áhrif hér á landi og notuðum til þess væntingavísitölu Gallup sem nálgun fyrir hamingju í samfélaginu. Augljóslega endurspeglar væntingavísitalan ekki hamingju að fullu leyti, en ætla má að sveiflur í henni fylgi stemmningunni í samfélaginu nokkuð vel og prófuðum við það.

Þrátt fyrir að leiðrétt hafi verið fyrir þáttum sem hafa áhrif á væntingavísitöluna eins og eignarverði, atvinnuleysi og kaupmætti fundum við ekki í fljótu bragði að stórmót, þátttaka Íslendinga á stórmótum eða önnur íþróttaafrek hefðu marktæk áhrif á væntingavísitöluna. Aftur á móti gaf líkanið okkur rétt formerki, þannig að skv. því hafa t.d. stórmót í fótbolta og ólympíuleikar jákvæð en ómarktæk áhrif á væntingavísitöluna. Mögulega er gagnasafnið of lítið, aðrar skýribreytur vantar o.s.frv. sem skekkir myndina. Hvað sem því líður verður áhugavert í þessu ljósi að sjá hvernig væntingavísitalan mun mælast næstu mánuði.

Heimild: Capacent

Smávægileg en sýnileg áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins

Ljóst er að Íslendingar munu þurfa að kaupa talsvert af evrum til að greiða fyrir gistingu, lestarmiða, mat og drykk á meðan á dvölinni í Frakklandi stendur næstu daga (og vonandi vikur). Skv. upplýsingum frá UEFA keyptu Íslendingar tæplega 27.000 miða á mótið og því eru hér upphæðir sem hlaupa á tugum milljóna, enda gætu rúm 8% þjóðarinnar tæknilega séð farið á leiki. Einhverjir komast ekki og margir fara á fleiri en einn leik svo hlutfallið er væntanlega lægra.

Ef við gerum ráð fyrir að flestir hafi keypt miða í ódýrustu sætunum (40%) og svo 10 prósentustigum lægra hlutfall fyrir hvern miðaflokk, má ætla að Íslendingar hafi keypt miða fyrir 1,7 m. evra eða um 232 m.kr. á núverandi gengi. Í flestum tilfellum var greitt fyrir miðana í febrúar og á myndinni hér að neðan má sjá að kortavelta erlendis hefur aukist talsvert meira en ferðir Íslendingar erlendis virðast gefa tilefni til. Þó gæti verið að kaupmáttaraukning komi fram hér, auk þess sem 232 m.kr. er einungis um 4% af veltunni þann mánuðinn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu miklum fjármunum Íslendingar verja í heildina en þó má leika sér með tölur. Ef við gerum ráð fyrir að hver Íslendingur fari að meðaltali á tvo leiki með miða í flokkum 3 og 4 auk þess að verja 150.000 kr. í flug, gistingu og uppihald er upphæðin 2,2 milljarðar króna, eða 0,1% af landsframleiðslu. Stærstur hluti af þessari upphæð er í erlendum gjaldeyri og því nokkuð gjaldeyrisútstreymi sem hlýst af EM. Þó eru líklega margir sem hefðu varið sumarfríinu sínu í fríi einhversstaðar annars staðar erlendis svo hreint viðbótarútflæði er líklega mun minna. Þá fær KSÍ að lágmarki 1,1 ma.kr. í gjaldeyri fyrir þátttöku í mótinu sem flokkast sem gjaldeyrisinnflæði. Upphæðin getur hækkað eftir árangri og ef Ísland, t.d. vinnur einn leik af þeim tveimur sem eru eftir í riðlinum og dettur út í 16-liða úrslitum fær KSÍ 1,5 ma.kr. Heildaráhrifin á greiðslujöfnuð gætu því ráðist af velgengni landsliðsins, en verða þó varla stór í samhengi við aðrar stærðir greiðslujafnaðar.