Aflandskrónueigendur kjósa að sitja um kyrrt

Aflandskrónueigendur kjósa að sitja um kyrrt

Síðasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans er nú lokið og liggur fyrir að tilboð bárust fyrir tæplega 178 ma.kr. en þar af nam fjárhæð samþykktra tilboða 72 ma.kr. Seðlabankinn ákvað að samþykkja öll tilboð á genginu 190 krónur á hverja evru eða lægra. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkar í kjölfarið um rúma 47 ma.kr., en það er einungis rúmlega 10% af hreinum forða bankans sem nemur nú 454 ma.kr. Ljóst er að nokkuð dræm þátttaka var í útboðinu og mun því aðeins lítið hlutfall af 320 ma.kr. snjóhengjunni hverfa úr hagkerfinu. Aftur á móti kemur niðurstaðan ekki á óvart. Samkvæmt samþykktum lögum um aflandskrónur verða þær girtar af með því móti að laust fé mun fara inn á sérstaka höfuðbók sem er lokuð af. Það sama á við um skuldabréf sem falla til á gjalddaga, það fer inn á læsta höfuðbók með litla sem enga vexti.

Lítil þátttaka í gjaldeyrisútboðinu á hins vegar ekki að standa í vegi fyrir að hægt sé að stíga næstu skref við losun fjármagnshafta og auka frelsi almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða til fjármagnsflutninga. Þeir aflandskrónueigendur sem kusu að taka ekki þátt í útboðinu munu fara aftast í röðina líkt og Seðlabankastjóri hefur orðað það. Að okkar mati er dræm þátttaka í útboðinu því ekki vonbrigði ef takmarkinu um losun fjármagnshafta verður náð nú í haust.

Lítil hreyfing á skuldabréfamarkaði í kjölfar gjaldeyrisútboðs

Taflan hér að neðan sýnir sundurliðun á eigendum aflandskróna og virðist sem lítill hluti af eigendum ríkisbréfa og ríkisvíxla hafi tekið þátt í útboðinu. Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans fóru einungis 14 ma.kr. af ríkistryggðum skuldabréfum út í gegnum útboðið að nafnverði, en samtals áttu aflandskrónueigendur 177 ma.kr. í ríkisbréfum og ríkisvíxlum.  

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Nánari útlistun á aflandskrónueignum má finna í lið 6.4 í athugasemdum með frumvarpinu.

Myndin hér að neðan sýnir hvernig þátttaka aflandskrónueigenda var í gjaldeyrisútboðinu eftir einstökum markflokkum ríkisskuldabréfa og ríkisvíxla. Þar sést að einungis um 7 ma.kr. af eigendum í markflokknum RB 16 tóku þátt eða um 12,6%. Þá tóku eigendur RB 19 þátt fyrir um 4 ma.kr. eða um 7,8%. Þátttaka í flestum öðrum flokkum var umtalsvert minni að nafnverði.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Áhrif útboðsins á gjaldeyrisforðann

Undanfarin tvö ár hefur svigrúm Seðlabankans til gjaldeyrisforðasöfnunar aukist umtalsvert. Seðlabankinn hefur ekki látið þetta tækifæri sér úr greipum og hefur safnað í forðann sem aldrei fyrr. Þannig námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans í fyrra 272 ma.kr. en þau voru 111 ma.kr. árið á undan. Það sem af er ári hefur bankinn keypt gjaldeyri fyrir 164 ma.kr., sem er umtalsverð aukning samanborið við sama tíma í fyrra, og verður að teljast nokkuð hressileg söfnun í ljósi þess að mesti ferðamannatíminn er ekki genginn í garð. Krónan hefur þó látið þennan gauragang á gjaldeyrismarkaði sem vind um eyru þjóta og haldið áfram að styrkjast gagnvart helstu gjaldmiðlum, þó ætla mætti að styrkingin hefði verið enn meiri ef Seðlabankinn hefði setið með hendur í skauti.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Í kjölfar þessara miklu gjaldeyriskaupa hefur hreinn gjaldeyrisforði bankans, þ.e. sá hluti forðans sem er fjármagnaður innanlands, styrkst til muna og stóð hann, líkt og áður sagði, í 454 ma.kr. í lok maí á meðan heildarforðinn nam 780 ma.kr. Styrking forðans hefur að mestu leyti átt sér stað síðustu tólf mánuði en samkvæmt grófu mati hefur hreinn forði aukist um 360 ma.kr. á þeim tíma. Bankinn hefur áður sagt að þörf sé á stórum gjaldeyrisforða m.a. vegna óvissu í kringum losun hafta. Við höfum fjallað um heppilega stærð forðans og hvaða viðmiðum skal fylgja. Þá kemur einnig fram í lögum um aflandskrónur sem samþykktar voru fyrir stuttu að „á meðan losun hafta gengur yfir mun stærð gjaldeyrisforða mótast af varfærinni nálgun í samræmi við útgefnar leiðbeiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Á vaxtaákvörðunarfundi þann 1. júní sl. sagði Seðlabankastjóri að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri orðinn hæfilega stór (síðan þá hefur Seðlabankinn reyndar keypt 17 ma.kr.). Í máli hans kom einnig fram að hann gerði sér góðar vonir um að búið yrði að byggja forðann aftur upp vel fyrir áramót og helst fyrir haustið. Nú þegar niðurstöður aflandskrónuútboðsins liggja fyrir er ljóst að gjaldeyrisforðinn minnkar um rúmlega 47 ma.kr. við útboðið, sem er nokkuð minna útflæði en margir höfðu búist við. Þar sem aflandskrónueigendum stendur ennþá til boða að selja eignir sínar á genginu 190 kr. á hverja evru fram til 27. júní gæti þessi tala að vísu breyst eitthvað.
Engu að síður, miðað við þann takt sem hefur verið í gjaldeyriskaupum Seðlabankans að undanförnu má gera fastlega ráð fyrir því að bankinn verði fljótur að fylla upp í þetta, óneitanlega litla, gat sem útboðið skilur eftir sig. Hvort hann láti þar við sitja er ekki víst, enda losun gjaldeyrishafta á innlenda aðila vonandi handan við hornið. Ef Seðlabankinn heldur uppteknum hætti og heldur áfram að safna í forðann gætum við séð hreinan forða á bilinu 595 – 656 ma.kr. við lok árs – að því gefnu að ekkert fari úr forðanum á móti. Ef hins vegar hægja tekur á forðasöfnun bankans, samhliða þess að útlit er fyrir enn einu metárinu í komu ferðamanna, gæti það greitt veginn fyrir frekari styrkingu krónunnar á komandi mánuðum.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka