Verðlag hækkar um 0,18% júní – engin verðbólga án húsnæðis

Verðlag hækkar um 0,18% júní – engin verðbólga án húsnæðis

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,18% í júní, sem er nokkuð undir spám helstu greiningaraðila er lágu á bilinu 0,4% til 0,5%. Ársverðbólgan mælist nú 1,6% og ef litið er framhjá húsnæðisliðnum er verðbólgan 0%. Það kemur helst á óvart að nokkrir liðir lækka nokkuð og þá umfram okkar væntingar. Þar má helst nefna mat og drykkjarvöru (-0,08% áhrif á VNV), tómstundir og menningu (-0,03% áhrif á VNV) og póst og síma (-0,09% áhrif á VNV). Líkt og búist var við hækkar húsnæðisliðurinn sem fyrr (+0,10% áhrif á VNV). Einnig hækkar ferðaliðurinn talsvert (+0,25% áhrif á VNV) í takt við væntingar, einkum vegna hærri flugfargjalda til útlanda sem tengist árstíðarsveiflu og bensínverðs vegna hækkana á heimsmarkaði. Gengi krónunnar virðist halda áfram halda aftur af verðbólgu og þar sem gjaldeyrisforði Seðlabankans er orðinn mjög stór er líklegt að krónunni verði frekar leyft að styrkjast á næstunni heldur en að Seðlabankinn stækki gjaldeyrisforðann verulega. Slíkt myndi halda verðbólgu áfram í skefjum.

 
Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði lækkar lítillega en við spáum að verðlag standi í stað í júlí, hækki um 0,4% í ágúst og hækki um 0,3% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,9% í september.

Heimild: Hagstofa Íslands

Eldsneytisverð og flugfargjöld hækka – húsnæði hækkar

Ferðaliðurinn dregur vagninn í hækkunum (+0,25 áhrif á VNV) að þessu sinni, bæði vegna hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði og árstíðasveiflu. Eldsneytisverð hækkar eilítið meira en við höfðum spáð eða um 2,5% (+0,08% áhrif á VNV). Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað síðustu mánuði og um 25% frá byrjun apríl. Aftur á móti hefur það staðið nokkuð í stað síðan í maí. Flugfargjöld til útlanda hækka um 9,26% milli mánaða (+0,11%) sem er nokkru meira en við höfðum spáð. Hér eru á ferðinni árstíðaáhrif og má ætla að flugfargjöld hækki einnig í júlí en farið svo lækkandi með haustinu.

Húsnæðisverð (reiknuð húsaleiga) hækkar um 0,7% milli mánaða (+0,1% áhrif á VNV) og nemur nú árshækkunin 7,8%. Á hinn bóginn lækkar greidd húsaleiga milli mánaða um 0,2% og hefur hækkað um 4,2% sl. 12 mánuði. Ef ekki væri fyrir húsnæðisliðinn væri 12 mánaða verðbólga nú engin, eða 0%. Vegna hægrar framboðsaukningar og aukins kaupmáttar má gera ráð fyrir að húsnæðisverð haldi áfram að hækka næstu mánuði.

Lækkanir sem koma á óvart – EM virðist hafa áhrif

Frávik frá okkar spá má helst skýra með þremur liðum. Í fyrsta lagi lækkar matur og drykkjarvara um 0,6% sem hefur -0,08% áhrif á VNV. Það kemur sérstaklega á óvart þar sem ætla mætti að áhrif aukinnar eftirspurnar og launahækkana væru að koma fram með meiri þunga. Á hinn bóginn styrktist gengi krónunnar um tæplega 1% milli mælinga sem virðist hafa haft yfirgnæfandi áhrif. Í öðru lagi lækkar póstur og sími talsvert meira en við höfðum spáð, eða um 3,2% og hefur nú lækkað um tæplega 14% síðustu 12 mánuði. Í þriðja lagi lækka tómstundir og menning sem skýrist að stærstu leyti af 3% lækkun á sjónvörpum.

Lækkun á verði sjónvarpa skýrist líklega af EM tilboðum og velta má því upp hvort að EM æðið sem gripið hefur landsmenn hafi víðar áhrif. Tilboð hafa verið á fleiri vörum en sjónvörpum, t.a.m. hafa olíufélögin verið iðin bjóða upp á afsláttarkjör og sjáum við aðeins minni hækkun bensínverðs en við spáðum. Þá hækkuðu flugfargjöld nokkuð meira en við höfðum spáð, enda virðist meirihluti landsmanna vera í Frakklandi, stefna til Frakklands eða hafa verið í Frakklandi.

Sterkari króna hjálpar – leyfir Seðlabankinn henni að hjálpa meira?

Ein stærsta ástæðan fyrir lítilli verðbólgu um þessar mundir er að gengi krónunnar hefur styrkst jafnt og þétt í bráðum þrjú ár. Á yfirstandandi ári hefur sú þróun haldið áfram, þrátt fyrir að Seðlabankinn safni gjaldeyri sem aldrei fyrr og hefur það sem af er ári keypt gjaldeyri að andvirði um 174 ma.kr., sem vegur gegn gengisstyrkingunni. Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans nálgast nú hratt 500 ma.kr. og heildarforði er líklega kominn yfir 800 ma.kr.

Ein helstu rökin fyrir forðasöfnun Seðlabankans eru að eiga nægan forða fyrir losun fjármagnshafta. Einungis munu um 47 ma.kr. fara úr forðanum í tengslum við aflandskrónuútboðið fyrr í mánuðinum svo að forðinn verður enn stór fyrir almenna losun hafta. Á kynningarfundi síðustu vaxtaákvörðunar kom fram að forðinn væri hæfilega stór eins og hann var þá og því verður gjaldeyrisforðinn að líkindum enn nægilega stór þegar aflandskrónuútboðið hefur verið gert upp. Það er því komið að því að endurmeta í gjaldeyrisinngrip Seðlabankans, eins og kom fram í fundargerð peningastefnunefndar í maí.

Í ljósi þessara upplýsinga teljum við því miklar líkur á að Seðlabankinn dragi a.m.k. úr gjaldeyrisforðasöfnun ef gjaldeyrisinnflæði verður áfram meira en gjaldeyrisútflæði. Ekki virðist vera að hægja á fjölgun ferðamanna, viðskiptajöfnuður er jákvæður, vaxtamunur við útlönd er talsverður og efnahagshorfur hér betri en í flestum þróuðum ríkjum. Það er því líklegt að þrýstingur til styrkingar krónunnar haldi áfram næstu mánuði. Ef það hægir á forðasöfnun og krónan styrkist þá enn meira mun verðbólga því líklega áfram vera við eða undir markmiði á næstunni.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguþróun næstu mánuði:
• Júlí +0,0%: Föt og skór lækka en ferðaliðurinn og fasteignaverð hækkar.
• Ágúst +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.
• September +0,3%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.