Sigurinn í Nice meiri landkynning en Eyjafjallajökull

Sigurinn í Nice meiri landkynning en Eyjafjallajökull

Það kemst nánast ekkert annað að í umræðunni á Íslandi þessa dagana heldur en karlalandsliðið í fótbolta. Liðið er nú þegar komið lengra en flestir spáðu, þar á meðal Greiningardeild. Áhrifin á samfélagið og hagkerfið geta líka verið nokkur eins og við höfum áður bent á. Magnaður árangur liðsins virðist einnig hafa áhrif út fyrir landssteinana, en landkynningin virðist vera meiri en sú sem landið fékk vegna eldgossins í Eyjafjallajökli árið 2010 skv. Google Trends, sem mælir hversu vinsæl leitarskilyrði eru í leitarvél Google. Ef horft er til fjölda leitarfyrirspurna um Ísland hefur áhugi á landinu 15-20 faldast frá því sem gengur og gerist að jafnaði og í yfirstandandi viku hefur landið fengið meiri athygli en þegar eldgosið árið 2010 var í algleymingi. Sérstaka athygli vekur að fyrri árangur og þátttaka Íslands á mótinu virðist ekki komast í hálfkvisti við sigurinn á Englandi sl. mánudag. Vísitalan í þessari viku stendur í 100, en í síðustu viku, þegar Ísland komst í 16-liða úrslit, var vísitalan 17 og hún var 32 í vikunni þegar Ísland hóf þátttöku á mótinu.

 

Heimild: Google Trends

Þó að landkynningin þá og nú sé ekki að fullu sambærileg er ljóst í okkar huga að hér sé á ferðinni vísbending um að ekki sé að fara að hægja á straumi erlendra ferðamanna til landsins alveg á næstunni. Fjöldi ferðamanna til landsins í ár mun verða nærri fjórfalt meiri en við byrjun áratugarins eða ríflega 1,7 milljón skv. spá Isavia. Sú spá er frá því í febrúar en aukin landkynning og aukið framboð á flugi frá því að spáin var birt eykur líkur á að sú spá sé vanmat fremur en ofmat.

 

Heimildir: Ferðamálastofa, Isavia. *Spá Isavia

Hefur EM áhrif á áhuga ferðamanna?

Fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi síðustu ár má rekja til margra þátta, t.d. átaks í markaðssetningu, vexti íslenskra flugfélaga, framboði á flugi erlendra flugfélaga og góðs orðspors landsins sem ferðamannalands. Það er þó algeng tilgáta að ekkert hafi haft meiri áhrif en eldgosið í Eyjafjallajökli og að það hafi opnað fyrir flóðgáttir ferðamanna til Íslands. Fyrsta spurningin sem vaknar er því hvort að landkynningin nú hafi sambærileg áhrif. Eru vísbendingar um að áhugi á ferðamannalandinu Íslandi sé að aukast verulega samhliða áhuga á fótboltalandinu Íslandi?

Í fljótu bragði virðist svarið vera já. Fjöldi leitarfyrirspurna um Ísland í flokknum ferðalög hefur aldrei verið meiri en í þessari viku. Vísitala Google Trends fyrir vikuna stendur í 100, en hún stóð í 10 í byrjun maí og 60 í vikunni þegar eldgosið hófst í Eyjafjallajökuli. Google Trends veitir innsýn inn í fleiri þætti er snerta leitarskilyrði tengd ferðamannastaðnum Íslandi og benda þeir flestir til þess að EM í fótbolta sé mesta landkynning sem Ísland hefur fengið frá upphafi mælinga Google árið 2004.
Í fyrsta lagi hefur leit að Íslandi í flokkunum ferðalög rokið upp í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, en meira en helmingur erlendra ferðamanna árið 2015 komu frá þessum löndum. Ísland hefur aldrei verið vinsælla í þessum flokki í Bretlandi og Þýskalandi, en í Bandaríkjunum á vikan sem Eyjafjallajökull hóf að gjósa enn metið.

 

Heimild: Google Trends

Í öðru lagi hefur leit að helstu ferðamannastöðunum á Íslandi aukist. Reykjavík sker sig úr og hefur aldrei verið vinsælli á Google. Bláa lónið og Gullni hringurinn fylgja nokkuð á eftir og hafa ekki náð fyrri toppum, en þó má sjá að leitarfyrirspurnir um þá staði hafa sjaldan verið fleiri en í þessari viku.

Heimild: Google Trends

Í þriðja lagi hefur aldrei verið leitað jafn oft að því hvað sé hægt að gera á Íslandi, en eins og við sjáum hefur sú leit aukist mikið með auknum ferðamannstraum til landsins. Í fjórða lagi hefur aldrei verið leitað jafn oft að norðurljósum og Íslandi í júní. Í mánuðinum hingað til stendur vísitalan í rétt tæplega 40 sem verður að teljast hátt þar sem nokkuð langt er í að norðurljósin muni sjást hér að nýju. Hæsta gildið sem þetta leitarskilyrði hefur náð var í janúar sl. (100).

Heimild: Google Trends, Greiningardeild Arion banka

Mótvægi við sterkara gengi krónunnar og Brexit

Raungengi krónunnar hefur hækkað um 10% sl. ár sem gerir það að verkum að Ísland verður dýrari áfangastaður og getur sú þróun, ef hún heldur áfram, haldið aftur af fjölgun ferðamanna. Þá hefur útganga Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, leitt til þess að breska pundið hefur veikst um rúm 8% gagnvart krónunni á örfáum dögum. Brexit er einnig talið líklegt til þess að valda efnahagssamdrætti þar í landi og því gæti eftirspurn Breta eftir utanlandsferðum minnkað verulega á næstunni, en þeir eru næstfjölmennustu ferðamenn á Íslandi. Einnig hefur olíuverð farið hækkandi síðustu mánuði og efnahagshorfur á heimsvísu fremur versnað en batnað. Í ljósi alls þessa er landkynningin vegna árangurs landsliðsins á EM í Frakklandi mögulega kærkomið mótvægi við annars neikvæða þróun.

Er vöxturinn of hraður?

Í ferðaþjónustuúttekt okkar í september sl. veltum við því upp hvort að ferðaþjónustan á Íslandi væri komin að þolmörkum. Þó að erfitt sé að fullyrða með skýrum hætti að svo sé, er nokkuð ljóst að hún er komin nálægt þeim. Það að nýting hótelherbergja er í hámarki víða um landið, bæði yfir háannatímann sem og allan ársins hring, auk þess sem atvinnuleysi er nánast horfið, eru vísbendingar um það. Ef það verður tilfellið að landkynningin sem hlýst af árangri landsliðsins muni hraða fjölgun ferðamanna verður spurningin um hvort þessi hraði vöxtur sé í raun af hinu góða enn réttmætari en áður.