Spáum 0,2% lækkun verðlags í júlí

Spáum 0,2% lækkun verðlags í júlí

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% milli mánaða í júlí. Gangi spáin eftir mun árstaktur verðbólgunnar lækka úr 1,6% í 1,2%, en leita þarf aftur til febrúar á síðasta ári til að finna minni verðbólgu. Þrátt fyrir spennu í hagkerfinu höfum við fært skammtímaspá okkur niður á við sökum umtalsverðrar gengisstyrkingar krónunnar að undanförnu. Við gerum ráð fyrir að ársverðbólgan mælist undir 2% á næstu mánuðum og standi í 1,8% í október, en taki síðan að stíga hratt upp á við. Í júlímánuði eru það áhrif af sumarútsölum er vega þyngst (-0,53% áhrif á VNV). Eldsneytisverð lækkar sömuleiðis (-0,06% áhrif á VNV) eftir nokkuð skarpar hækkanir síðustu fjóra mánuði en aðrir liðir lækka minna. Húsnæðisliðurinn hækkar mest milli mánaða (+0,14% áhrif á VNV) en einnig hækka flugfargjöld til útlanda (+0,12% áhrif á VNV) og matur og drykkjarvörur (+0,08% áhrif á VNV). Þá hækka hótel og veitingastaðir yfir sumartímann (+0,04% áhrif á VNV). Hagstofan birtir mælingu á VNV föstudaginn 22. júlí nk.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sumarútsölur skella á

Síðastliðin ár hafa sumarútsölur haft mest áhrif á þróun verðlags í júlí og verður engin breyting á því að þessu sinni. Föt og skór lækka mest í mánuðinum og gerum við ráð fyrir að áhrifin á VNV verði um 0,52% til lækkunar. Þá gerum við ráð fyrir lítilsháttar lækkun á verði húsgagna sem hefur 0,01% áhrif til lækkunar á VNV. Útsöluáhrifin hafa óveruleg áhrif á árstakt verðbólgunnar enda áætlum við að útsöluáhrifin verði svipuð og í fyrra. Samtals hafa sumarútsölur -0,53% áhrif á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eldsneytisverð lækkar en flugfargjöld hækka

Við spáum því að flugfargjöld til útlanda hækki um 10% í júlí (+0,12% áhrif á VNV) en um er að ræða árstíðabundnar hækkanir. Þetta verður að teljast hógvær hækkun samanborið við júlí á síðasta ári, þegar flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 32,6%. Þróunin á flugfargjöldum hefur þó verið nokkuð undir því sem verið hefur undanfarin ár, líkt og sést á myndinni hér að neðan, einkum vegna hráolíuverðslækkana. Þá hækkuðu flugfargjöld nokkuð umfram væntingar okkar í júní þegar landsmenn flykktust til Frakklands og nærliggjandi landa. Lækkun eldsneytisverðs vegur á móti hækkunum flugfargjalda en samkvæmt okkar mælingum lækkar bensínverð um 1,8% á milli mánaða en verð á dísilolíu um 1% (samtals -0,06% áhrif á VNV). Þetta er fyrsta lækkunin á eldsneytisverði síðan í febrúar, en Brexit, sveiflur í gengi Bandaríkjadollars og misvísandi vísbendingar af olíumarkaði, svo lítið eitt sé nefnt, hafa stuðlað að lækkun hráolíuverðs. Samtals hefur ferðaliðurinn +0,06% áhrif á VNV.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Lífið gengur sinn vanagang og húsnæðisliðurinn hækkar

Við spáum því að fasteignaverð haldi áfram að hækka í júlí og áætlum 0,7% hækkun, sem skilar sér í hækkun á reiknaðri húsaleigu (+0,1% áhrif á VNV). Annar kostnaður án húsaleigu hækkar að sama skapi (+0,04% áhrif á VNV) og spáum við því samtals að húsnæðisliðurinn hafi 0,14% áhrif til hækkunar VNV.

Mjólkin hækkar og matarkarfan með

Við gerum ráð fyrir að matarkarfan muni hækka nokkuð í júlímánuði (+0,08% áhrif á VNV), en hækkunina má að miklu leyti rekja til hækkunar á verði mjólkurvara. Í júní sl. tók verðlagsnefnd búvara þá ákvörðun að hækka heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða um 2,5% sökum vaxandi launakostnaðar. Verðhækkunin tók gildi þann 1. júlí og ætti því að koma inn í verðmælingu Hagstofunnar.

Krónan heldur aftur af verðbólguþrýstingi

Þrátt fyrir spennu í hagkerfinu höfum við fært skammtímaverðbólguspá okkar niður á við sökum gengisstyrkingar krónunnar að undanförnu. Frá 1. júní hefur krónan styrkst talsvert gagnvart helstu viðskiptamyntum, þá sérstaklega gagnvart breska pundinu sem hefur gefið mikið eftir í kjölfar Brexit. Líkt og við höfum áður bent á eru meiri líkur en minni á áframhaldandi styrkingu krónunnar: Ekkert lát er á fjölgun ferðamanna, viðskiptajöfnuður er jákvæður, vaxtamunur við útlönd talsverður, efnahagshorfur hér á landi eru betri en í flestum öðrum þróuðum ríkjum og síðast en ekki síst má leiða líkur á því að hægja taki á gjaldeyrissöfnun Seðlabankans. Ef krónan heldur áfram að styrkjast á komandi mánuðum getur sú styrking haldið aftur af innlendum verðbólguþrýstingi og dregið úr áhrifum dvínandi innfluttrar verðhjöðnunar.

Samkvæmt spá okkar mun verðbólga haldast undir 2% á næstu mánuðum, en gæla við verðbólgumarkmið Seðlabankans í nóvember og desember. Við gerum ráð fyrir að verðbólga stigi hratt á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Ágúst +0,27%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.
September +0,19%: Föt og skór hækka þegar útsölum lýkur en flugfargjöld lækka.
Október +0,34%: Föt og skór, húsnæðisliðurinn og matarkarfan hækka en flugfargjöld lækka.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka