Uppfærð hagspá Greiningardeildar – 4,9% hagvöxtur árið 2016

Uppfærð hagspá Greiningardeildar – 4,9% hagvöxtur árið 2016

Árið hefur farið vel af stað fyrir íslensku þjóðarskútuna sem hefur siglt seglum þöndum. Aðstæður í efnahagslífinu eru til þess fallnar að auka bjartsýni, atvinnuleysi er með minnsta móti, afnám hafta er komið vel á veg og hagvaxtarhorfur eru betri en í flestum þróuðum ríkjum, svo ekki sé minnst á góðan árangur landsliðanna okkar í fótbolta sem kitlað hefur þjóðarstoltið.

Í byrjun júní birti Hagstofa Íslands landsframleiðslutölur fyrir fyrsta fjórðung þessa árs sem báru þess skýr merki að mikill kraftur er í hagkerfinu um þessar mundir. Hagvöxtur mældist 4,2% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra og var þetta sterkasti fyrsti fjórðungur hagvaxtarlega séð síðan 2008. Af þeim 35 ríkjum sem mynda OECD eru aðeins þrjú ríki sem geta státað af meiri hagvexti en Ísland á fyrsta fjórðungi ársins. Líkt og kom fram þá flaug hagkerfið nokkuð hærra en við reiknuðum með í okkar síðustu hagspá, en að samneyslu undanskilinni vanmátum við alla undirliði landsframleiðslunnar. Nú þegar annar ársfjórðungur er liðinn og hátíðnivísbendingar, s.s. kortavelta og utanríkisverslun, eru byrjaðar að tínast inn höfum við ráðist í að uppfæra hagspá okkar frá því í mars. Hafa ber í huga að ekki er um að ræða nýja hagspá – aðeins uppfærslu fyrir yfirstandandi ár.

Líkt og sést á myndinni hér að neðan höfum við fært hagvaxtarspá okkar fyrir árið 2016 upp á við. Hagvaxtarspáin hljóðar nú upp á 4,9% vöxt á þessu ári, samanborið við 4,3% í mars. Mestu munar um aukinn vöxt þjóðarútgjalda, þ.e.a.s. samtölu einkaneyslu, fjárfestingar og samneyslu, en framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar tekur litlum breytingum frá fyrri hagspá.

 

Heimild: Greiningardeild Arion banka

Greiðslukortunum sveiflað – vísbending um aukna einkaneyslu

Kortavelta getur verið gagnleg vísbending um umsvif í hagkerfinu, en þróun kortaveltu hefur töluvert forspárgildi um þróun einkaneyslu. Á fyrsta ársfjórðungi jókst kortavelta um 11,3% og einkaneysla um 7,1%, sem er mesti einkaneysluvöxtur á einum fjórðungi síðan 2008. Annar ársfjórðungur bætti um betur, en þá nam vöxtur kortaveltu 12,4%. Þessi mikli kortaveltuvöxtur bendir til þess að einkaneyslan sé að gefa enn meira í, og er ein af forsendum þess að við höfum fært einkaneysluspá okkar upp á við.

Fyrri helmingur ársins hefur borið með sér sterkar kortaveltutölur og virðist því sem launahækkanir og aukinn kaupmáttur séu farin að segja til sín. Tölurnar eru þó um margt óvenjulegar þar sem kortavelta erlendis var á einkar miklu flugi í febrúar, mars og júní. Hér gætir að öllum líkindum áhrifa EM í fótbolta, en í febrúar og mars greiddu margir fyrir leikmiða, flug og gistingu og í júní streymdu síðan Íslendingar í stríðum straumi til Frakklands (metfjöldi fór utan, alls 67þ. Íslendingar). Þá má ekki gleyma að margir ruku upp til handa og fóta og fjárfestu í miðum og flugi í júní þegar í ljós kom að Ísland komst upp úr riðlakeppninni. Það kemur því kannski fáum á óvart að kortavelta erlendis jókst um hvorki meira né minna en 44,6% í júní.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Þjónustuútflutningur eykst með fjölgun ferðamanna

Það stefnir í enn eitt metárið í komu erlendra ferðamanna. Á fyrstu sex mánuðum ársins sóttu tæplega 700þ. ferðamenn landið heim, sem eru fleiri ferðamenn en allt árið 2012. Erlend kortavelta, eða kortavelta ferðamanna í flestum tilfellum, hefur aukist mikið samhliða fjölgun ferðamanna. Heildarvelta erlendra korta nam 99 ma.kr. á fyrri helmingi ársins, sem jafngildir 66% aukningu milli ára, á föstu gengi. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum um 35% á milli ára, sem þýðir að kortavelta á hvern ferðamann hefur aukist talsvert. Hafa ber þó í huga að þessa aukningu má að einhverju leyti rekja til þess að flugbókanir erlendis með íslenskum flugfélögum fara í meira mæli í gegnum íslenska færsluhirða en áður.

Fjölgun erlendra ferðamanna hefur leitt til þess að þrátt fyrir óvenju mikla eyðslugleði Íslendinga erlendis á þessu ári hefur kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunurinn á kortaveltu ferðamanna hér á landi og kortaveltu Íslendinga erlendis, aldrei verið meiri. Þannig nam uppsafnaður kortaveltujöfnuður á föstu gengi á fyrstu sex mánuðum ársins 52 ma.kr., samanborið við 24 ma.kr. á síðasta ári.

Hin mikla fjölgun ferðamanna, sem og aukin kortavelta á hvern ferðamann, er ein meginforsendan á bak við uppfærða spá okkar um útflutning.

Heimild: Seðlabanki Íslands, Ferðamálastofa, Greiningardeild Arion banka

Flugvélakaup lita innflutning og fjárfestingu

Í jafn litlu hagkerfi og Ísland er, geta flugvélakaup (einnig kaup á skipum) skipt sköpum fyrir heildarupphæðir fjárfestingar og innflutnings. Breytingar á milli ára geta því verið mjög sveiflukenndar ef mikið er flutt inn af flugvélum eitt árið en lítið eða ekkert ári síðar. Af þeim sökum er oft gagnlegt að skoða fjárfestingu án skipa og flugvéla, en sú upphæð gefur oftast betri mynd af undirliggjandi fjárfestingum í hagkerfinu, þar sem flugvélakaup eru einkar óreglulegur liður líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.
Frá útgáfu hagspár okkar í mars hafa komið fram tilkynningar um ný flugvélakaup er falla til seinna á þessu ári. Þessi flugvélakaup, ásamt vissulega auknum þrótti í hagkerfinu, útskýra að miklu leyti aukinn innflutnings- og fjárfestingavöxt í uppfærðri hagspá okkar.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka