Verðlag lækkar um 0,32% í júlí

Verðlag lækkar um 0,32% í júlí

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,32% milli mánaða í júlí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Lækkunin var nokkuð umfram spár greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0% til -0,2% og spáðum við 0,2% lækkun. Ársverðbólga mælist nú 1,1% og kjarnavísitala 1 hefur hækkað um 1,5% síðustu 12 mánuði. Athyglisvert er að án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun upp á 0,6% undanfarna 12 mánuði. Líkt og áður skýrist lækkunin í júlí af sumarútsölum og endurspeglast það einna helst í lækkun á fötum og skóm (-0,51% áhrif á VNV). Sumarútsölur hafa þó áhrif á fleiri liði en föt og skó. Einnig lækka húsgögn og heimilisbúnaður (-0,09% áhrif á VNV) og er það nokkuð umfram spár greiningaraðila. Jafnframt lækka snyrtivörur í verði í kringum sumarútsölur og veldur það því að aðrar vörur og þjónusta lækka (-0,09% áhrif á VNV). Á móti hækka flugfargjöld til útlanda (+0,16% áhrif á VNV), húsnæðisliðurinn (+0,14% áhrif á VNV) og matur og drykkjarvörur (+0,13% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði hækkar lítillega en við spáum að verðlag hækki um 0,4% í ágúst, 0,2% í september og 0,4% í október. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,9% í október.

Sumarútsölur hafa meiri áhrif en oft áður

Svo virðist vera sem sumarútsölur hafi haft víðtækari áhrif á undirliði VNV en oft áður. Föt og skór lækkuðu í takt við spár greiningaraðila (-0,51% áhrif á VNV) en það sem kom á óvart var 2,1% lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,09% áhrif á VNV). Það er mesta lækkun á húsgögnum undanfarin 14 ár. Borðbúnaður lækkaði einna mest í verði (-11,2%) en einnig lækkuðu dýnur, sængur og koddar (-7,9%) og vefnaðarvörur (-4,1%). Útsöluáhrifin komu einnig fram í lækkun á snyrtivörum, sjampó og tannkremi (-0,09% áhrif á VNV). Líkt og sjá má á myndinni að neðan hafa þessir liðir að jafnaði ekki lækkað sem þessu nemur í júlí mánuði undanfarin ár.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Ferðaliðurinn hækkar og húsnæðisverð fer á flug

Ferðaliðurinn hækkar í heildina (+0,13% áhrif á VNV) og vegur þar þyngst hækkun flugfargjalda til útlanda (+0,16% áhrif á VNV). Einnig hækka flugfargjöld innanlands lítillega (+0,01% áhrif á VNV) en á móti vegur að bensínverð lækkar (-0,04% áhrif á VNV). Húsnæðisliðurinn heldur einnig áfram að hækka (+0,14% áhrif á VNV) og má segja að liðurinn sé með byr undir báða vængi þessa stundina ef horft er til þróunar fasteignaverðs. Fasteignaverð hefur ekki lækkað síðan í júní á síðasta ári skv. mælingum Hagstofunnar og í síðasta mánuði hækkaði húsnæðisverð um 2,2% skv. Þjóðskrá. Fasteignaverð hefur þá hækkað um 8,1% um land allt síðustu 12 mánuði miðað við gögn Hagstofunnar. Reiknuð húsaleiga hækkar (+0,10% áhrif á VNV) og þá hækkar einnig hiti og rafmagn (+0,02% áhrif á VNV) og greidd húsaleiga (+0,02% áhrif á VNV).

Matarkarfan hækkar en póstur og sími lækkar

Verðlagsnefnd búvara ákvað í lok júní að hækka heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum um 2,5%. Tók breytingin gildi 1. júlí sl. og endurspeglast þetta í matarkörfunni (+0,13% áhrif á VNV) en þar af hækkuðu mjólk, ostar og egg um 2,8% (+0,07% áhrif á VNV). Póstur og sími heldur áfram að lækka (-0,03 áhrif á VNV) og lækkar þar farsímaþjónusta mest eða um 5,6% og hefur liðurinn lækkað í hverjum einasta mánuði frá áramótum.

Minni verðbólga en búist var við

Enn og aftur eru verðbólgutölur í lægri kantinum og í þetta skipti voru það helst sumarútsölur sem höfðu víðtækari áhrif en búist var við. Lækkun á verði snyrtivara og húsgagna var töluvert meiri nú en undanfarin ár og má velta fyrir sér hvort styrking krónunnar undanfarið sé enn og aftur að skapa svigrúm til lækkunar á verði innfluttra vara. Krónan hefur styrkst umtalsvert undanfarið gagnvart evru og ekki síst breska pundinu. Einnig hefur Seðlabankinn verið að kaupa töluvert af gjaldeyri með inngripum á gjaldeyrismarkaði í júlí og því virðist vera nokkur þrýstingur til styrkingar krónunnar. Útlit er því fyrir að hækkun verðbólgu með haustinu verði mildari en gert hefur verið ráð fyrir og dregur úr líkum á því að verðbólga nálgist verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Ágúst +0,4%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en ferðaliðurinn lækkar.
September +0,2%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en flugfargjöld lækka.
Október +0,4%: Hækkun verður á flestum liðum en helst hækkar húsnæðisliðurinn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.