Vinnumarkaðurinn þá og nú

Vinnumarkaðurinn þá og nú

Þær hremmingar er innlendur vinnumarkaður gekk í gegnum í kjölfar fjármálakreppunnar snertu flesta landsmenn eflaust á einn eða annan hátt. Það tók vinnumarkaðinn nokkurn tíma að hökta aftur í gang en frá árinu 2013 hefur mikill kraftur verið í vinnumarkaðnum og bera t.d. fjöldi atvinnuauglýsinga og nýleg fréttafyrirsögn Hagstofunnar („Atvinnuleysi í maímánuði ekki lægra síðan 2005“) stöðunni nú skýr merki.

Nú er svo komið að aðstæður á vinnumarkaði svipa til þess sem var áður en fjármálakreppan skall á. Atvinnuleysi hefur komið hratt niður undanfarin misseri og stefnir hraðbyr að „góðærisgildi“ sínu, ef svo mætti að orði komast. Þannig hefur meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009, en mælist nú 3,5% samkvæmt könnunum Hagstofunnar og 2,6% samkvæmt skráningum Vinnumálastofnunar. Þá hefur atvinnuþátttaka farið ört vaxandi og gælir nú við fyrri hágildi sín.

Líkt og sést á hægri myndinni hér að neðan hafa heildarvinnustundir aukist samfleytt síðustu fjórtán fjórðunga. Öndvert við það sem var þegar hagkerfið var að taka sín fyrstu skref í átt að bata og fyrirtæki juku framleiðslu með því að krefjast aukinnar framleiðni, þá hefur auknum efnahagsumsvifum verið mætt með fjölgun starfa fremur en lengingu vinnutíma síðastliðin ár. Ísland virðist því hafa forðast gildruna er sum hver viðskiptalönd okkur sátu föst í, þ.e. efnahagsbata án fjölgunar starfa. Stóra spurningin er, hvernig fórum við að því? Hvaðan komu þessu störf og hvernig hefur vinnumarkaðurinn breyst frá því sem áður var?

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vinnumarkaðurinn svífur á vængjum ferðaþjónustunnar

Það þarf ekki að kafa djúpt til að svara ofangreindri spurningu, það nægir að ganga niður Laugarveginn, fara Gullna hringinn eða reka nefið inn á Keflavíkurflugvöll til að finna svarið - nú eða líta á myndina hér fyrir neðan. Bróðurpartur nýrra starfa er tilkominn vegna ferðaþjónustunnar. Til að mynda hefur störfum er tengjast rekstri gististaða og veitingarekstri fjölgað um 3.200 á tímabilinu 2010-2015, störfum er snúa að flutningum og geymslu hefur fjölgað um 2.300 og störfum á ferðaskrifstofum og í tengslum við aðra bókunarþjónustu (fellur undir leigustarfsemi og önnur sérhæfð þjónusta á myndinni hér að neðan) hefur fjölgað um 1.000. Mesta fækkun starfa hefur átt sér stað innan fjármálakerfisins og landbúnaðar og fiskveiða.

Vinnumarkaðurinn stóð á ákveðnum tímamótum í fyrra en þá voru í fyrsta skipti frá því að fjármálakreppan skall á fleiri við vinnu, eða starfandi, heldur en árið 2008. Með öðrum orðum, fyrir þau 12.000 störf er töpuðust á árunum 2008-2010 hafa 16.300 komið í staðinn, en í fyrra sköpuðust hvorki meira né minna en um 6.000 ný störf. Til að setja þessar stærðir í frekara samhengi er vert að hafa í huga að í maí 2016 voru samtals um 204.000 manns á íslenskum vinnumarkaði, samkvæmt Hagstofunni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Landsbyggðin spýtir í lófana

Fjölgun starfa hefur ekki einskorðast við höfuðborgarsvæðið, þvert á móti. Vissulega hafa fleiri störf skapast á höfuðborgarsvæðinu, enda töpuðust þar talsvert fleiri störf í efnahagsþrengingunum, en engu að síður hefur prósentuvöxturinn milli svæða verið áþekkur. Ef árið sem fjöldi starfandi náði botngildi sínu er notað sem viðmiðunarár, árið 2010 fyrir höfuðborgarsvæðið en árið 2011 fyrir svæðin utan þess, þá hefur störfum fjölgað um 10% á höfuðborgarsvæðinu en 11,2% utan þess.

Utan höfuðborgarsvæðisins ber fræðslustarfsemi höfuð og herðar yfir aðrar atvinnugreinar í atvinnusköpun. Þannig hefur störfum í tengslum við fræðslustarfsemi fjölgað um 40% frá árinu 2011, eða um 2.600 störf sem er mesta fjölgunin í stöðugildum talið, utan sem innan höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur störfum er snúa að rekstri gistiheimila og veitingarekstri fjölgað umtalsvert sem og störfum í flutningum og verslunargeiranum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur ýmis sérhæfð þjónusta verið umsvifamikil sem og upplýsinga- og fjarskiptageirinn sem sópað hefur til sín starfsfólki.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Sókn kvenna inn á vinnumarkaðinn

Í gegnum tíðina hefur eitt af helstu einkennum íslensks vinnumarkaðar verið mikil atvinnuþátttaka, langt umfram það sem gengur og gerist meðal OECD landanna, þá sérstaklega atvinnuþátttaka kvenna. Árið 2015 var atvinnuþátttaka kvenna að meðaltali 79,3% samkvæmt Vinnumarkaðsrannsóknum Hagstofunnar og hefur aldrei mælst hærri. Atvinnuþátttaka karla var nokkuð meiri, eða 85,7%, en hún á þó ennþá eitthvað í land til að ná fyrri hæðum.

Starfandi konum fjölgaði um 7.200 á tímabilinu 2010-2015 en starfandi körlum um 9.100. Líkt og sjá má á myndinni hér að neðan hefur konum í fræðslustarfsemi fjölgað mikið, sem og í gisti- og veitingarekstri, en í báðum greinum starfa talsvert fleiri konur en karlar. Karlar hafa aftur á móti leitað í verslunargeirann og viðgerðir, en einnig í framleiðslutengda starfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Önnur sýnileg breyting á ásýnd vinnumarkaðarins er aukin menntun vinnuaflsins. Árið 1991 voru 11% starfandi einstaklinga með háskólamenntum en árið 2015 var þetta hlutfall komið upp í tæp 34%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vantar „réttu vandamálin“?

Á hverjum tíma er alltaf eitthvert atvinnuleysi til staðar óháð efnahagssveiflum. Þetta atvinnuleysi, sem er jafnan nefnt jafnvægisatvinnuleysi eða „náttúrulegt atvinnuleysi“, stafar m.a. af því að fólk lýkur námi, flytur eða segir upp og er þar af leiðandi án vinnu í einhvern tíma á meðan leit að starfi stendur yfir. Í þjóðhagslíkani sínu miðar Seðlabankinn við 4% jafnvægisatvinnuleysi og bendir því kalt mat á atvinnuleysistölum til þess að íslenskur vinnumarkaður sé að sigla inn í ójafnvægi – skort á vinnandi höndum.

Þegar skortur er að myndast á vinnumarkaði, hvers vegna flytja þá Íslendingar úr landi? Á síðasta ári voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta 1.265. Fjölgun starfa virðist því að miklu leyti hafa verið mætt með erlendu vinnuafli en á sama tíma voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta 2.716. Auðvitað eru margvíslegar ástæður fyrir því að fólk flytur búferlum til lengri eða skemmri tíma og það er óneitanlega jákvæð þróun að fólk hafi tækifæri til að freista gæfunnar í öðru landi. Þessi þróun gefur til kynna að sú sköpun starfa sem orðið hefur síðustu ár sé enn sem komið er aðeins að hluta til að mæta væntingum Íslendinga um starfsvettvang og starfskjör.

Flest bendir til að störfum haldi áfram að fjölga af krafti næstu misserin. Á sama tíma sækja sífellt fleiri Íslendingar sér framhalds- og háskólamenntunar og er því spurningin hvort sú menntun falli að vinnumarkaðinum og umhverfi atvinnusköpunar - eða hvort texti Spilverksins muni eiga við: „Hér vantar tólin og tækin og réttu vandamálin.“ Spennandi verður að fylgjast með framvindunni á vinnumarkaði, hvort að ferðaþjónustan haldi áfram að vera leiðandi í sköpun nýrra atvinnutækifæra eða hvort aðrar atvinnugreinar taki við keflinu, og hvernig fyllt verður upp í hinar nýju stöður.