Fjárfestar gera ráð fyrir lítilli verðbólgu

Fjárfestar gera ráð fyrir lítilli verðbólgu

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hefur farið hækkandi undanfarið og hefur sú þróun í raun átt sér stað frá því í lok síðasta árs líkt og sjá má á myndunum að neðan. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa lækkað síðustu tvo mánuði, hvort sem litið er til ríkisbréfa eða sértryggðra bréfa. Fjárfestar virðast því hafa fært sig úr verðtryggðum skuldabréfum yfir í óverðtryggð bréf og endurspeglar það minni verðbólguvæntingar á markaði. Lækkun á vísitölu neysluverðs í júlí var meiri en spár gerðu ráð fyrir eða -0,32% milli mánaða og er útlit fyrir að verðbólgan, sem mælist nú 1,1%, haldist undir eða við verðbólgumarkmið vel inn á næsta ár. Það eru fyrst og fremst innlendir fjárfestar sem síðustu mánuði hafa sótt í óverðtryggð skuldabréf en ekki erlendir aðilar, líkt og misserin á undan. Verulega hefur dregið úr innflæði erlendra aðila inn á íslenskan skuldabréfamarkað eftir að Seðlabankinn kom á bindingu á innstreymi reiðufjár erlendis frá. Flæðið á skuldabréfamarkaði er því ekki litað af innstreymi erlendra aðila líkt og áður fyrr. Lækkun verðbólguvæntinga á markaði virðist því vera heimatilbúin.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguálag til 10 ára nálgast verðbólgumarkmið

Hækkun verðtryggðu kröfunnar á markaði gerir það að verkum að verðbólguálag nálgast nú verðbólgumarkmið eða 2,5%. 10 ára verðbólguálag stendur nú í 2,9% og 5 ára álag í 2,8%. Myndin hér að neðan sýnir álag óverðtryggðra ríkisbréfa á íbúðabréf með sama líftíma að frádregnu sérstöku áhættuálagi Íbúðalánasjóðs (en það er reiknað sem vegin ávöxtunarkrafa íbúðabréfa ofan á RIKS 21). Það er nýmæli á Íslandi að markaðurinn meti sem svo að verðbólga verði að meðaltali svo lítil sem 2,9% næstu 10 árin og má túlka það sem merki um þó nokkra lækkun verðbólguvæntinga. Í síðustu væntingakönnun markaðsaðila frá 12. maí sl. voru verðbólguvæntingar til 5 ára 3,1% og væntingar til 10 ára 3,5%. Það má því gera ráð fyrir að í næstu væntingakönnun, sem fer fram 25. ágúst, muni verðbólguvæntingar til lengri tíma lækka.

Heimildir: Kodiak, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Lífeyrissjóðir róa á ný mið

Önnur ástæða fyrir dræmri eftirspurn eftir verðtryggðum bréfum, fyrir utan hjaðnandi verðbólguvæntingar, kann að vera þau skref sem hafa verið stigin í losun fjármagnshafta, og þá vegur þyngst aukin fjárfestingaheimild lífeyrissjóða erlendis. Þeir hafa nú heimild sem nemur 40 ma.kr. fram til byrjun september til að fjárfesta á fjármálamörkuðum utan landsteinanna. Samtals nemur því heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis 80 ma.kr. frá því um mitt ár í fyrra og fram í september á þessu ári.

Þar að auki gerir aukin útgáfa sjóðfélagalána lífeyrissjóðanna það að verkum að eftirspurn lífeyrissjóða eftir verðtryggðum eignum kann að vera minni en ella. Lífeyrissjóðir hafa gefið út á bilinu 4 til 8 ma.kr. af nýjum sjóðfélagalánum á mánuði það sem af er ári, en hafa þarf í huga að þá er ekki tekið tillit til uppgreiðslna. Fjárhæðin kann því að vera lægri. Ef horft er á sjóðfélagalán í efnahagsreikningi lífeyrissjóða hefur stofninn stækkað um 21 ma.kr. síðustu 5 mánuði eða um rúmlega 4 ma.kr. á mánuði. Engu að síður er alveg ljóst að fjárfestingaheimildir erlendis upp á 80 ma.kr. frá því um mitt síðasta ár og 4 ma.kr. útgáfa sjóðfélagalána á mánuði uppfylla fjárfestingaþörf lífeyrissjóða að miklu leyti, en hún nemur um 150 ma.kr. á ári. Það eru því ekki einungis minni verðbólguvæntingar sem hafa áhrif á skuldabréfamarkaðinn heldur einnig breyttar forsendur ýmissa fjárfestahópa sem hefur áhrif á flæðið á markaði.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Peningastefnunefnd liggur þungt hugsi

Gera má ráð fyrir að aukin kjölfesta verðbólguvæntinga á skuldabréfamarkaði veki meðlimi peningastefnunefndar til umhugsunar fyrir næstu vaxtaákvörðun sem tilkynnt verður þann 24. ágúst. Þá hafa raunstýrivextir hækkað nokkuð skarpt, hvort sem litið er til nafnvaxta að frádreginni verðbólgu, en þeir eru um 4,7%, eða nafnvaxta að frádregnum verðbólguvæntingum, en þeir eru 3,0% ef horft er til verðbólguálags til 5 ára. Afar forvitnilegt verður að heyra tón Peningastefnunefndar. Mun hún áfram telja líklegt „að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings,“ eins og það hefur verið orðað í yfirlýsingum allt þetta ár. Eða mun hún bregðast við aukinni kjölfestu verðbólguvæntinga með mildum tóni?