Markaðir spenntir fyrir Ólympíuleikunum?

Markaðir spenntir fyrir Ólympíuleikunum?

Síðar í dag munu yfir 11.000 íþróttamenn frá 208 löndum koma saman á Maracana leikvanginum í Rio de Janeiro þegar setningarhátíð XXXI Ólympíuleikanna fer fram. Leikarnir, sem standa yfir til 21. ágúst, marka tímamót fyrir þær sakir að þetta verður í fyrsta sinn sem þeir verða haldnir í Brasilíu og raunar í fyrsta sinn sem þeir verða haldnir í Suður-Ameríku. Jafnframt er metfjöldi þátttakenda og keppnislanda og hafa keppnisgreinarnar aldrei verið eins margar, en í ár verður í fyrsta sinn keppt í golfi og rúgbý. Að þessu sinni munu átta einstaklingar koma fram fyrir Íslands hönd, þau Guðni Valur Guðnason, Aníta Hinriksdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir (frjálsar íþróttir), Irina Sazonova (fimleikar), Þormóður Árni Jónsson (júdó), Anton Sveinn McKee, Hrafnhildur Lútherdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir (sund).

Að gefnu tilefni hefur Greiningardeild kannað hvernig hlutabréfamarkaðir haga sér á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við könnum tengsl hlutabréfamarkaða og stórviðburða í íþróttum, en Greiningardeild skrifaði fyrr á árinu markaðspunkt um tengsl sigurvegara Ofurskálarinnar (Super Bowl) og gengi Dow Jones vísitölunnar. Að þessu sinni er hugmyndin fengin frá hinum svo kallaða Ólympíuvísi sem var birtur af Bespoke Investment Group árið 2012, en samkvæmt honum hefur Dow Jones vísitalan tilhneigingu til að hækka þær rúmu tvær vikur á meðan Ólympíuleikarnar fara fram. Vissulega myndi margur tölfræðingurinn fussa og sveia yfir þessu sambandi og kalla það bullfylgni en við látum það í hendur lesandans að leggja dóm á hvort sambandið sé tilviljun eða ekki.

Á myndinni að neðan má sjá hvernig Dow Jones vísitalan hefur þróast frá setningar- til lokaathafnar allra Ólympíuleika frá endurreisn þeirra, að undanskyldum leikunum í Aþenu 1896. Af þeim 26 leikum sem kannaðir voru hefur vísitalan hækkað í 77% tilfella og meðalávöxtunin verið 4,41%. Þá má einnig sjá að vísitalan hefur hækkað töluvert þegar leikarnir hafa verið haldnir í Bandaríkjunum. Ólympíuleikarnir árin 1900, 1904 og 1908 og bjaga tölurnar hins vegar nokkuð þar sem þeir leikar stóðu yfir talsvert lengra tímabil en gengur og gerist í dag. Leikarnir í St. Louis stóðu t.d. opinberlega yfir frá 1. júlí til 23. nóvember (helstu íþróttagreinarnar sem þekkjast í dag stóðu aðeins yfir sex daga). Sé horft fram hjá þessum þremur leikum hefur meðalávöxtun verið 2,15% yfir þá 16 keppnisdaga sem leikarnir standa að jafnaði yfir. Þá hefur vísitalan hækkað í 10 af síðustu 12 skiptum sem leikarnir hafa farið fram.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, olympic.org og Bloomberg
*Setningarathöfnin fór ekki fram fyrr en í ágúst þrátt fyrir að leikarnir byrjuðu tæknilega séð í apríl. Horft var til ávöxtunar frá setningarathöfn.

Auk Dow Jones vísitölunnar höfum við kannað hvernig vísitölurnar S&P 500 og FTSE 100 hafa þróast undanfarna átta Ólympíuleika, ásamt hinni íslensku ICEXI vísitölu undanfarna fimm leika. S&P 500 vísitalan hefur fylgt Dow Jones nokkuð vel eftir á meðan að FTSE 100 hefur hækkað yfir sex af síðustu átta leikum og skilað meðalávöxtun upp á 2,57%. Líkt og Dow Jones vísitalan þá hækkaði FTSE umtalsvert þegar leikarnir voru haldnir í heimalandinu 2012, þrátt fyrir að efnahagur landsins hafi verið í töluverðri lægð á þeim tíma. Þá hefur íslenska ICEXI vísitalan hækkað yfir alla þá fimm leika sem mælingar ná yfir og meðalávöxtun verið um 2,8%. Eftir töluverðar lækkanir framan af ári þá hefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn aðeins tekið við sér í þessari viku. Ef Ólympíuvísirinn er tekinn trúanlega mega íslenskir fjárfestar hins vegar vera bjartsýnir fyrir næstu tveim vikum og búast við enn frekari hækkunum.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, olympic.org og Bloomberg

Líkt og bent var á að ofan þá virðist sem hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi hækkað töluvert þegar löndin voru gestgjafar. En getur það gefið fyrirheit um gengi markaða í Brasilíu á meðan á leikunum stendur? Brasilíska hagkerfið hefur verið í mikilli stöðnun undanfarið og er að upplifa sinn mesta samfellda efnahagssamdrátt í tæp 80 ár. Landframleiðsla á mann hefur lækkað snarpt, verðbólga fer vaxandi og atvinnulausum einstaklingum hefur fjölgað úr 7 milljónum í 11 milljónir á aðeins tveimur árum. Brasilíska hlutabréfavísitalan BOVESPA lækkaði einnig mikið á árinu 2015, en jákvæð teikn eru hins vegar á lofti þar sem vísitalan hefur hækkað gífurlega það sem af er ári.

Myndin hér að neðan sýnir gengi hlutabréfavísitalna í landi mótshaldarans allt frá 1984. Líkt og sjá má þá hækkar oftar en ekki viðkomandi vísitala á meðan á leikunum stendur, eða í 75% tilvika. Séu leikarnir í St. Louis 1904 og Los Angeles 1932 teknir inn í myndina hækkar hlutfallið upp í 80%. Lækkun áströlsku vísitölunnar var einnig töluvert minni en lækkanir Dow Jones, S&P 500 og FTSE 100 þegar leikarnir voru haldnir í Sydney árið 2000. Eina undantekningin virðist vera Shanghai vísitalan í Kína sem lækkaði um rúm 7% á meðan leikarnir í Beijing stóðu yfir árið 2008. Lækkun hlutabréfavísitalna meðan á leikunum stóð var þó léttvæg m.v. fjármálakreppuna sem skall á aðeins mánuði eftir að slökkt var á Ólympíueldinum. Þá hefur Dow Jones vísitalan hækkað öll þau ár sem leikarnir hafa verið haldnir í Bandaríkjunum, og það umtalsvert. Það verður því áhugavert að sjá framgang brasilíska hlutabréfamarkaðarins á meðan á leikum stendur í Rio og hvort Ólympíuvísirinn standi uppi sem sigurvegari.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka, olympic.org og Bloomberg