Enn versnar rekstrarafkoma sveitarfélaga

Enn versnar rekstrarafkoma sveitarfélaga

Greiningardeild Arion banka birtir nú fimmta árið í röð samantekt sem snýr að afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins. Úrtak okkar nær yfir 27 stærstu sveitarfélögin, sem öll eiga það sameiginlegt að telja 1.500 íbúa eða fleiri, og er samanlagður íbúafjöldi þeirra rúmlega 308.000 eða um 93% landsmanna. Í greiningu okkar er miðað við A- og B-hluta sveitarfélaganna, þ.e. sveitarsjóð ásamt fyrirtækjum, stofnunum og öðrum rekstrareiningum sveitarfélagsins. Þess til dæmis má nefna að Orkuveita Reykjavíkur er meðtalin í reikningum Reykjavíkurborgar enda bera sveitarfélögin ábyrgð á skuldbindingum B-hluta félaga sinna.

Þó svo að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé mismunandi eins og þau eru mörg þá má almennt segja að reksturinn hafi harðnað á milli ára þrátt fyrir síbatnandi skuldastöðu. Launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga hefur reynst sveitarfélögunum erfiður biti að kyngja þar sem útsvarshlutfall er í mörgum tilfellum í lögbundnu hámarki og geta til að auka tekjur takmarkaðar. Þá virðist einnig sem fjárfestingar þeirra þurfi að sitja á hakanum meðan tekist er á við önnur viðfangsefni í rekstrinum.

Framlegð lækkar annað árið í röð

Árið 2014 lækkaði EBITDA framlegð sveitarfélaganna í fyrsta sinn frá því að við byrjuðum að birta samantektina. Þessi þróun hélt áfram á síðasta ári og lækkaði EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum um 4,3 prósentustig að vegnu meðaltali (þ.e. að teknu tilliti til stærðar þeirra) og 1,8 prósentustig að hreinu meðaltali. EBITDA framlegð er því komin undir 15% að vegnu meðaltali, eftir að hafa farið hæst í 23% árið 2013, og mælast 19 af 27 sveitarfélögum með framlegð undir 15%. Tekjur jukust nokkuð á nýliðnu rekstrarári og var raunvöxtur tekna að meðaltali 6,3% eða um 4,3 prósentustiga aukning á milli ára. Hins vegar jukust gjöld ívið meira eða um 11,4% að raungildi. Síðastliðin tvö ár hafa því rekstrartekjur aukist um 8,5% að raungildi á meðan að gjöld hafa aukist um 22,7%. Líkt og við tókum fram í markaðspunkti fyrir rúmu ári síðan þá voru sveitarfélögin sett í nokkuð erfiða stöðu í kjölfar kjarasamninga, flest hver með útsvar í botni og með takmarkaða möguleika til að bregðast við þessum kostnaðarþrýstingi, og er það að koma niður á EBITDA framlegðinni.

Heilt yfir skiluðu sveitarfélögin hagnaði á árinu að hreinu meðaltali en þegar horft er til vegins meðaltals var um taprekstur að ræða. Hækkanir á lífeyrisskuldbindingum Reykjavíkurborgar vega þar þungt en um 5 ma. kr. hallarekstur var á árinu. Af þeim 27 sveitarfélögum í okkar úttekt skiluðu 10 tapi á rekstrarárinu samanborið við 4 árið áður. Rétt er þó að hafa í huga að það er vitaskuld ekki markmið sveitarfélaga að hámarka hagnað en hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) þarf þó að vera nægilega hár svo hægt sé að mæta fjárfestingum og fjármagnskostnaði. 

Heimildir: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 27 stærstu sveitarfélaga landsins

Skuldastaðan heldur áfram að batna

Undafarin ár höfum við lagt töluverða áherslu á skuldastöðu sveitarfélaganna en samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 ber sveitarfélögum að halda heildarskuldum og skuldbindingum undir 150% af reglulegum tekjum. Við útreikning á hinu svokallaða skuldaviðmiði hafa sveitarfélögin heimild til að draga frá leiguskuldbindingu frá ríkissjóði, lífeyrisskuldbindingar sem koma til greiðslu eftir 15 ár og síðar og hreint veltufé, sé það jákvætt. Auk þess geta sveitarfélögin undanskilið skuldir og skuldbindingar sem hljótast af eignarhlutum þess í veitu- og/eða orkufyrirtækjum séu þær umfram 30% af heildarskuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins.

Þar sem aðeins hluti af sveitarfélögunum í okkar úrtaki hefur birt hið opinbera skuldaviðmið undanfarin eða greint misvel frá frádráttarbæru liðunum í ársreikningum sínum höfum við nálgast skuldaviðmiðið með því að kanna heildarskuldir og skuldbindingar að frádregnum veltufjármunum sem hlutfall af rekstratekjum. Við höfum í gegnum tíðina bent á að það skjóti skökku við að sveitarfélögin birti ekki sitt opinbera skuldaviðmið, en nú virðist hinsvegar hafa orðið breyting þar á, þar sem 25 af 27 sveitarfélögum í úrtaki okkar birtu skuldaviðmiðið í ársreikningum sínum á síðastliðnu ári. Á myndinni að neðan má sjá hvernig skuldaviðmiðið hefur þróast frá 2014 til 2015.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 27 stærstu sveitarfélaga landsins
(Greiningardeild hefur áætlað skuldaviðmið þeirra tveggja sveitarfélaga sem ekki voru gefin upp í ársreikningi)

Samkvæmt hinu opinbera viðmiði stendur skuldastaða sveitarfélaganna nú að vegnu meðaltali í 117,8% samanborið við 120,6% árið áður og færast þrjú sveitarfélög undir veikleikaviðmiðið. Þá lækkar skuldaviðmið hjá öllum nema tveimur sveitarfélögum og hjá öllum skuldsettustu sveitarfélögunum, sem er afar jákvæð þróun. Það skuldahlutfall sem við höfum reiknað undanfarin ár, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar að frádregnum veltufjármunum sem hlutfall af veltu, lækkar einnig úr 162% niður í 153% að vegnu meðaltali. Miðað við gang fyrri ára þá reiknum við með því að það hlutfall verði komið undir 150% múrinn á næsta ári. Veltufjárhlutfall sveitarfélaganna hækkar einnig, eða að hreinu meðaltali úr 0,8 í 1,0 á milli ára sem er jákvætt. Það gefur vísbendingu um að sveitarfélögin ættu að vera betur í stakk búin að mæta skuldbindingum sínum næstu 12 mánuðina en þau voru fyrir ári síðan. Þá halda heildarskuldir sem hlutfall af rekstrartekjum áfram að lækka, nettó vaxtaberandi skuldir pr. íbúa sömuleiðis ásamt því að gengistryggð lán hafa nánast algjörlega verið greidd upp eða endurfjármögnuð.

Fjárfesting dregst saman og launakostnaður eykst

Það vekur nokkra athygli hvað fjárfesting dregst mikið saman á milli ára. Fyrir tveimur árum veltum því fyrir okkur hvort aukin efnahagsumsvif myndu ekki kynda undir fjárfestingu meðal sveitarfélaganna og sú varð raunin árið 2014 þar sem við sáum meðal fjárfestingu á íbúa vaxa um 20,5% milli ára. Sú þróun snerist hins vegar við á árinu 2015 og stöðvaðist vöxtur fjárfestingar algjörlega þar sem 16 af 27 sveitarfélögum drógu fjárfestingar saman á milli ára. Það má fastlega reikna með því að launahækkanir undanfarinna ára hafi átt sinn þátt í þessari þróun síðastliðið ár, en laun og launatengd gjöld pr. íbúa jukust að vegnu meðaltali um 17,0% á milli ára og hafa aukist um 30,1% á föstu verðlagi s.l. tvö ár. Undangengin fimm ár hefur fjárfesting í varanlegum rekstrafjármunum numið um 11% af tekjum sveitarfélaganna, en sé það sett í samhengi við 15% langtímameðaltal fjárfestingar af veltu má sjá að uppsöfnuð fjárfestingarþörf fer hækkandi. Fjárfestingar sveitarfélaganna sátu á hakanum meðan þau tókust á við skuldavanda sinn og þær virðast ætla halda áfram að sitja á hakanum meðan þrýstingurinn á kostnaðarliði er sem mestur.

 

 Heimildir: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 27 stærstu sveitarfélaga landsins

Veikleikamerkjum fjölgar

Að lokum ber að nefna veikleikamerkin, en Greiningardeild hefur skilgreint 18 veikleikamerki sem snúa að fjárhagslegum og lýðfræðilegum þáttum sveitarfélaganna. Taka skal fram að veikleikamerkin eru alfarið mat Greiningardeildar Arion banka. Dæmi um veikleikamerki er ef íbúum fækkar milli ára, ef skuldahlutfall er yfir 150% og ef EBITDA framlegð er undir 15%.Það er áhyggjuefni að sjá að veikleikamerkjunum fjölgar annað árið í röð og eru nú 187 talsins. Þar af eru 11 sveitarfélög þar sem veikleikamerkjum fjölgar, á meðan að 10 sveitarfélög standa í stað og hjá sex sveitarfélögum fækkar veikleikamerkjum milli ára.

Heimildir: Greiningardeild Arion banka og ársreikningar 27 stærstu sveitarfélaga landsins

Senn styttist í að þrjú stærstu sveitarfélögin birti árshlutauppgjör sín og mun verða afar forvitnilegt að sjá hvort þróun undangenginna tveggja ára haldi áfram eða hvort viðsnúningur verði í rekstrarafkomu. Rétt er þó að hafa í huga að sveitarfélögin eru í mun betri stöðu í dag en fyrir nokkrum árum til að mæta slíkum hækkunum á kostnaðarliðum sínum.