Spáum 0,2% hækkun verðlags í ágúst

Spáum 0,2% hækkun verðlags í ágúst

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra hækkaði verðlag um 0,53% og lækkar því ársverðbólgan í ágúst úr 1,1% í 0,8% gangi spáin eftir. Verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö og hálft ár og gangi spáin eftir fer verðbólgan undir neðri fráviksmörk Seðlabankans. Útlit er fyrir litla verðbólgu næstu mánuði og að hún haldist undir verðbólgumarkmiði vel inn á næsta ár. Hagstofan birtir VNV föstudaginn 26. ágúst nk.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði heldur áfram að lækka en við spáum að verðlag hækki um 0,1% í september, 0,2% í október en verði óbreytt í nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,8% í nóvember.

Sumarútsölur ganga til baka

Í júlí sl. gengu hinar árlegu sumarútsölur í garð og lækkuðu föt og skór um tæplega 12% sem hafði 0,51% áhrif til lækkunar á VNV. Við gerum ráð fyrir að útsöluáhrifin gangi að til baka í ágúst og september. Í ágúst spáum við 6% hækkun á fötum og skóm (+0,22% áhrif á VNV). Það sama á ekki við um húsgögn og heimilisbúnað en við gerum ráð fyrir að liðurinn haldi áfram að lækka í verði og hafi -0,02% áhrif á VNV.

Ekkert lát á hækkun húsnæðisverðs

Gera má ráð fyrir að fasteignaverð haldi áfram að hækka líkt og undanfarna mánuði. Við spáum að húsnæðisverð um land allt hækki um 0,8% (+0,12% áhrif á VNV) milli mánaða. Gangi spáin eftir nemur árshækkunin 8,7% og er á svipuðu róli og undanfarin ár. Sjá má á myndinni að neðan að húsnæðisverð hefur hækkað nánast samfellt undanfarin ár og hefur hækkun fjölbýlis leitt þá hækkun. Þá gerum við ráð fyrir að leigukostnaður hækki einnig (+0,02% áhrif á VNV) og hefur því húsnæðisliðurinn samtals +0,14% áhrif á VNV til hækkunar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bensín og bílar lækka í verði en flugfargjöld hækka

Við gerum ráð fyrir að ferðaliðurinn lækki eins og gjarnan gerist á þessum tíma ársins (-0,21% áhrif á VNV). Vegur þar þyngst lækkun eldsneytisverðs en könnun okkar bendir til þess að bensín lækki um 4,1% og díselolía um 2,7% (-0,13% áhrif á VNV). Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað frá því í byrjun júlí og hefur gengi krónunnar styrkst um rúm 5% frá því í byrjun sumars. Þá vekur athygli okkar að hjá sumum bílasölum lækka bílar í verði um 3% til 7%. Lækkunin á einungis við um nýja bíla og hjá sumum umboðum er ekki um beina lækkun að ræða heldur eru aukahlutir látnir fylgja með í kaupbæti. Að meðaltali gerum við ráð fyrir að verðlækkunin verði tæplega 2% milli mánaða (-0,11% áhrif á VNV). Myndin að neðan sýnir að verð á bílum fylgir gjarnan gengisþróuninni. Bílar hækkuðu í verði í ársbyrjun 2013 þegar snörp veiking krónunnar átti sér stað en lækkuðu svo aftur sama ár vegna gengisstyrkingar. Gangi spá okkar eftir verður verð á bílum á svipuðu róli og á fyrri hluta ársins 2011.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Flugfargjöld til útlanda hækka lítillega (+0,03% áhrif á VNV) samkvæmt okkar könnun. Það er nokkuð óvenjulegt fyrir þennan árstíma en flugfargjöld hafa í gegnum tíðina frekar lækkað í verði í ágúst. Við spáum því að flugfargjöld innanlands standi í stað.

Póstur og sími lækkar áfram

Verð á símaþjónustu hefur farið hríðlækkandi undanfarin misseri og þá sérstaklega hefur verð á farsímaþjónustu lækkað eða um 27% síðustu 12 mánuði. Einnig hefur verð á internettengingum lækkað eða um 15% síðastliðið ár en á móti hefur verð á heimilissímaþjónustu hækkað um 2% á sama tíma líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Nokkur viðsnúningur varð í verðþróuninni í apríl 2015 en þá tók Hagstofan upp nýja aðferð til að mæla verð. Sú aðferð byggir á gögnum um viðskipti einstaklinga og er vísitala reiknuð út frá bæði verði og magni. Fyrri aðferðin byggði hins vegar einungis á gjaldskrám og tók þá ekki tillit til magns. Aukið gagnamagn getur því haft þau áhrif að verð á hverja gagnaeiningu lækkar. Við áætlum að sú þróun haldi áfram, sérstaklega í farsímaþjónustunni, og að póstur og sími hafi -0,03% áhrif til lækkunar á VNV.

Heimild: Hagstofa Íslands.

Aðrir liðir hækka lítillega milli mánaða og vegur þar þyngst hótel og veitingastaðir (+0,04% áhrif á VNV) og matur og drykkjarvörur (+0,03% áhrif á VNV).

Verðbólguvæntingar komnar undir verðbólgumarkmið og lítil verðbólga í kortunum

Lítil verðbólga er í kortunum um þessar mundir og er þar helst að þakka gengisstyrkingu krónunnar yfir sumarmánuðina og því gjaldeyrisinnstreymi sem fylgir ferðamannastraumnum yfir sólríkasta árstímann. Gengisstyrkingin virðist hafa haft afgerandi áhrif á viðhorf stjórnenda ýmissa fyrirtækja ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið en þar kemur fram að gengisstyrkingin hafi vegið verulega á móti þeirri hækkunarþörf sem myndaðist í kjölfar kjarasamninga. Ef sú er raunin hefur það umtalsverð áhrif til batnaðar á verðbólguhorfur næstu misseri og gæti raunin orðið sú að lítill sem enginn verðbólgukúfur fylgi í kjölfar kjarasamninganna líkt og oft hefur gerst áður. Vaxandi eftirspurn gæti skapað verðbólguþrýsting til lengri tíma litið en líkur á kostnaðardrifinni verðbólgu á næstunni vegna launahækkana fara dvínandi. Einnig má sjá breytt viðhorf fjárfesta á skuldabréfamarkaði en verðbólguálag, eða munur á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra, skuldabréfa með sama líftíma hefur farið dalandi og er nú 5 ára og 10 ára verðbólguálag nálægt verðbólgumarkmiði. Þá er ekki tekið tillit til áhættuálags fjárfesta, enda er erfitt að mæla slíkt álag, en ef tekið er tillit til þess er líklegt að verðbólguvæntingar fjárfesta séu undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og nær 2%.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

September +0,1%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en flugfargjöld lækka.
Október +0,2%: Hækkun verður á flestum liðum en helst hækkar húsnæðisliðurinn.
Nóvember 0%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar og verðlag stendur í stað.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka