Viðrar vel til vaxtalækkunar

Viðrar vel til vaxtalækkunar

Segja má að 50 punkta vaxtalækkun Seðlabankans hafi komið flestum á óvart og endurspeglast það á eignamörkuðum en nú rétt fyrir hádegi hafði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkað um 20 til 60 punkta og úrvalsvísitalan hækkað um tæp 2,6%. Verðbólguálag hefur á sama tíma einnig lækkað en 5 ára verðbólguálag stendur nú í 2,55% og 10 ára verðbólguálag í 2,78%. Það má því segja að vaxtalækkunin hafi haft jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar á markaði fyrst um sinn, enda var um talsverða stefnubreytingu peningastefnunefndar að ræða.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Flestir greiningaraðilar spáðu óbreyttum stýrivöxtum en síðustu daga hefur verið fjallað mikið um batnandi verðbólguhorfur og höfum við bent á hraða lækkun verðbólguvæntinga á skuldabréfamarkaði og aukna kjölfestu verðbólguvæntinga. Einnig höfum við bent á batnandi verðbólguhorfur s.s. lækkun á verði farsímaþjónustu og verði innfluttra bíla. Jafnframt bætist við 3,2% lækkun á vörum í IKEA, væntanlegar gjaldskrárlækkanir hjá Veitum, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar, um áramótin og á sama tíma verða tollar á aðrar vörur og þjónustu afnumdir að því gefnu að stefna stjórnvalda haldist óbreytt og hefur það 0,5% áhrif til lækkunar á verðlag. Það er því óhætt að segja að á undanförnum vikum hafi verðbólguhorfur batnað umtalsvert.

Þegar forsendur breytast þá skipti ég um skoðun, hvað gerir þú?

Svo virðist vera sem verðbólguvæntingar peningastefnunefndar hafi lækkað og náð aukinni kjölfestu, líkt og á við um væntingar á markaði, því í yfirlýsingu nefndarinnar segir: „Haldist gengi krónunnar óbreytt er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á næsta ár.“ En með réttu vísaði Seðlabankastjóri í ummæli sem höfð hafa verið eftir Keynes og eru eitthvað á þá leið: „Þegar forsendur breytast þá skipti ég um skoðun, hvað gerir þú?“. Þar má segja að Seðlabankistjóri hafi hitt naglann á höfuðið því umtalsverðar breytingar hafa orðið frá síðustu vaxtaákvörðun. Þar er efst í okkar huga batnandi verðbólguhorfur og lægri verðbólguvæntingar en við má bæta að hagvaxtahorfur á alþjóðavísu eru nú lakari í kjölfar „Brexit“ og styrking krónunnar heldur áfram þrátt fyrir umfangsmikil gjaldeyrisinngrip Seðlabankans líkt og sjá má á myndinni að neðan.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Verðbólguspá Seðlabankans lækkar um tæpt prósentustig fyrir næsta ár

Breyttar verðbólguhorfur endurspeglast í töluverðri lækkun á verðbólguspá Seðlabankans en á næsta ári er nú gert ráð fyrir 3,2% verðbólgu í stað 4,1%. Peningastefnunefndin leggur einnig áherslu á þær forsendubreytingar sem hafa orðið sem útskýra betri verðbólguhorfur en í yfirlýsingunni segir: „Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga, aðhaldssöm peningastefna og hækkun gengis krónunnar hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðlag.“ Að okkar mati hafa fyrirtæki í auknum mæli tekið þá stefnu að ýta ekki launahækkunum út í verðlag og virðist því sem launahækkanir hafi skapað minni verðbólguþrýsting en áður var gert ráð fyrir. Þó þarf að hafa í huga að það er að miklu leyti gengisstyrkingu krónunnar að þakka og bendir peningastefnunefndin á það í yfirlýsingu sinni: „Samkvæmt spánni mun [verðbólga] aukast þegar innflutningsverðlag hættir að lækka og áhrif gengishækkunar fjara út.“ Lykilspurningin er því líkt og oft áður hver þróun nafngengisins verður næstu árin?

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spá sterkari hagvexti í ár og vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli

Seðlabankinn spáir sterkari hagvexti á þessu ári eða 4,9% í stað 4,5% og má rekja hækkunina til endurmats á einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu en á móti vegur óhagstæð þróun utanríkisviðskipta. Þá vakti athygli okkar að samkvæmt skoðanakönnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins hafði hlutfall fyrirtækja sem taldi vera skort á vinnuafli hækkað um 11 prósentur milli kannana. Um 42% fyrirtækja taldi vera skort á starfsfólki og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan í árslok 2007. Vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli má helst merkja í byggingageiranum og eru engin merki um að breyting verði á þeirri þróun því enn er skortur á íbúðarhúsnæði og íbúðarfjárfesting er enn undir langtímameðaltali.

Þá er einnig talsverður skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu en við höfum áður bent á að flytja þurfi inn allt að 5000 manns fram til ársins 2018 til að sinna nýjum störfum. Það má því gera ráð fyrir nokkurri spennu á vinnumarkaði en Seðlabankinn spáir að framleiðsluspenna í hagkerfinu nái hámarki snemma á næsta ári en fari svo dalandi samhliða hækkandi atvinnuleysi. Þrátt fyrir vaxandi eftirspurn á vinnumarkaði liggur nú fyrir að hægt sé að halda verðbólgu niðri með lægra raunvaxtastigi en áður var búist við. Seðlabankinn útilokar ekki frekari lækkanir en tekur þó fram að einnig gætu vextir hækkað ef forsendur breytast. Þróun á vinnumarkaði, gengisþróun krónunnar og aðhald í ríkisfjármálum mun ráða miklu um það hvort verðbólguþrýstingur aukist á næstu misserum en um stundarsakir fara verðbólguhorfur batnandi og er útlit fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans vel inn á næsta ár.