Verðbólga yfir spám en undir markmiði

Verðbólga yfir spám en undir markmiði

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkar um 0,34% milli mánaða í ágúst. Ársverðbólgan stendur því í 0,9% og fer undir neðri fráviksmörk frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans í fyrsta sinn frá því í febrúar í fyrra. Seðlabankinn mun í kjölfarið skila greinargerð til ríkisstjórnarinnar þar sem farið er yfir ástæður þess að verðbólga mælist undir fráviksmörkum. Án húsnæðisliðarins hefur verðlag lækkað um 0,9% síðastliðið ár og mælist því verðhjöðnun annan mánuðinn í röð. Á hinn bóginn hefur kjarnavísitala 1 hækkað um 1,2% síðustu 12 mánuði en þó dregur úr árshækkuninni, sem mældist 1,3% í júlí.

Hækkun verðlags var yfir spám greiningaraðila en gert var ráð fyrir 0,1% til 0,2% hækkun og spáðum við 0,2% hækkun. Skýringin liggur einna helst í enn frekari hækkun húsnæðisverðs (+0,23% áhrif á VNV), þrátt fyrir látlausar hækkanir undanfarið, og hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (+0,1% áhrif) en lækkun í júlí mánuði gengur þar með til baka. Einnig hækka aðrar vörur og þjónusta (+0,09% áhrif) en á móti vegur að póstur og sími lækkar (-0,07% áhrif), bílar lækka í verði (-0,13% áhrif) og bensín sömuleiðis (-0,15% áhrif).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði breytist lítillega en við spáum að verðlag standi í stað í september en hækki um 0,3% í október og lækki svo um -0,1% í nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,9% í nóvember.

Húsnæðisverð er hástökkvari mánaðarins

Það telst varla til tíðinda að húsnæðisverð hækki, enn einn mánuðinn. Í þetta skipti hækkaði húsnæðisverð um land allt um 1,55% (+0,23% áhrif á VNV). Það athyglisverða við mælingu mánaðarins er sérstaklega mikil hækkun á verði sérbýlis og fjölbýlis innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem fjölbýli hækkar um eða yfir eitt prósent og annar mánuðurinn í röð sem sérbýli hækkar yfir eitt prósent. Árshækkun á fjölbýli mælist því 11% samkvæmt gögnum Hagstofunnar og árshækkun á sérbýli fer úr 3,7% í 8,1%. Húsnæðisverð er því hástökkvari mánaðarins og hefur húsnæðisliðurinn samtals +0,28% áhrif til hækkunar á VNV.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Útsöluáhrif ganga til baka

Föt og skór hækka milli mánaða (+0,25% áhrif á VNV) líkt og oft áður á þessum árstíma og skýrist það af því að útsöluáhrif eru að ganga til baka. Einnig má sjá hverfandi útsöluáhrif í fleiri undirliðum. Í fyrsta lagi eru húsgögn og heimilisbúnaður að hækka (+0,1% áhrif) en hækkunin skýrist þó að verulegu leyti af útsölum í júlí sem ganga nú til baka. Ef eitthvað er þá hefur verð á húsgögnum lækkað frá áramótum og hafa húsgögn í raun lækkað frá og með haustinu 2013 þegar gengisstyrking krónunnar fór á flug. Í öðru lagi er hækkun á annarri vöru og þjónustu (+0,09% áhrif) en það skýrist nánast að öllu leyti af hækkun á hreinlætis- og snyrtivörum og eru þar einnig útsöluáhrif frá því í júlí að ganga til baka. Hækkanirnar skýrast því að mestu leyti af hverfandi útsöluáhrifum frekar en undirliggjandi verðbólguþrýstingi.

Matarkarfan hækkar umfram okkar spá (0,06% áhrif), þrátt fyrir umtalsverða hækkun í júlí eftir hækkun á mjólkurvörum vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara, og þrátt fyrir áframhaldandi gengisstyrkingu krónunnar. Aðrir liðir hækka minna en þá einna helst menntun (+0,03% áhrif) og hótel og veitingastaðir (+0,03% áhrif).

Bensín, bílar og flugfargjöld til útlanda lækka

Bílar lækka í verði í mánuðinum um 2,2% (-0,13% áhrif á VNV) líkt og við spáðum og hafa nú fleiri bílaumboð bæst í hópinn sem ætla að lækka verð á innfluttum bílum, eftir að mælingaviku lauk. Einnig lækkar bensín hressilega (-0,15% áhrif) og flugfargjöld til útlanda sömuleiðis (-0,07% áhrif). Samtals hefur ferðaliðurinn -0,37% áhrif til lækkunar á VNV. Aðrir liðir breytast minna en þó er vert að nefna að verð á símaþjónustu lækkar enn og aftur og þá sérstaklega farsímaþjónusta og internettengingar (póstur og sími samtals -0,07% áhrif).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Þegar Íslendingar sigruðust á verðbólgudrauginum?

Miðað við 5 ára og 10 ára verðbólguálag á skuldabréfamarkaði mætti ætla að Íslendingar hefðu endanlega kveðið verðbólgudrauginn í kút, en 5 ára álagið stendur nú í 2,4% og 10 ára álagið í 2,6%. Væntingar um verðbólgu að meðaltali næsta áratuginn hafa því sjaldan ef nokkurn tímann verið lægri enda er erfitt að finna dæmi um það í hagsögunni þar sem verðbólga hefur mælst að meðaltali nálægt verðbólgumarkmiði yfir 10 ára skeið. Stýrivaxtalækkun Seðlabankans hefur því haft jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar ef litið er á skuldabréfamarkaðinn. Áfram gerum við ráð fyrir lítilli verðbólgu næstu mánuði en ýmsar vísbendingar eru um frekari verðlækkanir og að áhrif af gengisstyrkingu krónunnar sé ekki að fullu komin fram. Á næstu misserum verður áhugavert að fylgjast með þróun á vinnumarkaði því skortur á vinnuafli í ýmsum geirum bendir til töluverðrar spennu á vinnumarkaði og vaxandi líkur á launaskriði sem gæti ýtt undir kostnaðardrifna verðbólgu. Það væri nýtt á nálinni ef atvinnuleysi heldur áfram að lækka en verðbólga helst engu að síður lítil. Við gerum þó ráð fyrir að verðbólga haldist undir eða við verðbólgumarkmið vel inn á næsta ár og jafnvel lengur ef hrávöruverð helst lágt og gengi krónunnar styrkist áfram.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka.

Spá um breytingu á vísitölu neysluverðs næstu mánuði:
September 0,0%: Föt og skór hækka þegar útsölurnar ganga til baka en flugfargjöld lækka.
Október +0,3%: Hækkun verður á flestum liðum, þar á meðal ferðaliðnum, en helst hækkar húsnæðisliðurinn.
Nóvember -0,1%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.