Hagvöxtur 4,1% á H1: Betri getur tíðin ekki orðið - eða hvað?

Hagvöxtur 4,1% á H1: Betri getur tíðin ekki orðið - eða hvað?

Mikill kraftur virðist vera í hagkerfinu um þessar mundir en samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands jókst landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins (1H) um 4,1% samanborið við sama tíma í fyrra. Svo virðist sem þrótturinn í hagkerfinu sé enn meiri en við höfðum áætlað en allir undirliðir, að samneyslu undanskilinni, hafa farið fram úr væntingum okkar það sem af er ári, þá einkum og sér í lagi fjármunamyndun.

Líkt og undanfarin ár var hagvöxturinn drifinn áfram af einkaneyslu (7,7% vöxtur á 1H) og fjármunamyndun (29,5% vöxtur á 1H), en alls jukust þjóðarútgjöld um 9,4% á 1H. Mikið skrið hefur verið á fjárfestingu sem hefur vaxið skarpt að undanförnu. Sem fyrr var atvinnuvegafjárfesting dráttarklárinn í sterkum fjárfestingavexti, en atvinnuvegafjárfesting jókst um 37,3% á 1H. Íbúðafjárfesting hefur tekið hressilega við sér og jókst um 17,3% á 1H, sem teljast verður til gleðitíðinda eftir dapurt ár í fyrra samhliða vaxandi lýðfræðilegrar eftirspurnar. Fjárfesting hins opinbera jókst um 1,9% á 1H.

Útflutningstölur fyrir fyrri helming ársins voru nokkurn veginn í takt við okkar spá (5,3% vöxtur samanborið við 4,5% vöxt í spánni) en nokkru meira munar þegar kemur að innflutningi. Ört vaxandi eftirspurn í hagkerfinu endurspeglast í miklum innflutningsvexti en innflutningur jókst um 16,2% á 1H.

Samhliða því að birta nýjar hagvaxtartölur endurmat Hagstofan þjóðhagsreikninga ársins 2015. Samkvæmt endurmatinu var 4,2% hagvöxtur árið 2015 en ekki 4,0% líkt og bráðabirgðatölurnar gáfu til kynna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Déjà Vu: Annar „síðan 2008“ fjórðungurinn í röð

Fyrsti fjórðungur á þessu ári var sterkasti fjórðungur hagvaxtarlega séð síðan 2008. Þá var vöxtur einkaneyslu sá mesti á einum ársfjórðungi síðan 2008 og hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur ekki verið hærra síðan í lok árs 2008. Þrátt fyrir að hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi hafi ekki verið jafn mikill og á fyrsta fjórðungi, hirðir hann titilinn sem sterkasti fjórðungur síðan 2008 út frá þjóðarútgjöldum: Einkaneyslan jókst um 8,2%, fjárfesting um 31,2%, þjóðarútgjöld jukust um 9,7% og fjárfestingarhlutfallið var 22,6% - allt tölur sem ekki hafa sést síðan 2008.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Bæði innflutningur og útflutningur fóru nokkuð fram úr væntingum okkar, útflutningur jókst um 4,9% á öðrum ársfjórðungi en innflutningur um 16,7%. Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var þar af leiðandi neikvætt, þriðja fjórðunginn í röð. Þá drógust birgðir saman en munar þar mestu um samdrátt í birgðum sjávarafurða og stóriðju.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Gustur í seglin á síðari helming ársins?

Við höfum ekki ástæðu til að áætla seinni helmingur ársins verði síðri en sá fyrri, og ef eitthvað er jafnvel betri hagvaxtarlega séð. Uppfærð spá okkar frá því í júlí hljóðar upp á 4,9% hagvöxt árið 2016, en til að sú spá raungerist þarf hagkerfið að vaxa um 5,7% á síðari helming ársins. Það er vissulega mikill vöxtur en ekki langsóttur í ljósi eftirspurnar sem er í hagkerfinu. Þá áætlum við að útflutningur eigi inni nokkurn vöxt enda fellur stærsta ferðamannatímabilið inn á þriðja ársfjórðung en því til viðbótar verður met framboð af flugi til landsins á síðasta ársfjórðungi.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka