Taflið að snúast við hjá stærstu sveitarfélögum landsins?

Taflið að snúast við hjá stærstu sveitarfélögum landsins?

Fyrir tæpum mánuði síðan birtum við Markaðspunkt þar sem við bentum á að á síðasta ári hafi staða sveitarfélagana versnað þar sem framlegð lækkaði, fjárfesting dróst saman og veikleikamerkjum fjölgaði. Slæm rekstrarniðurstaða var að stórum þáttum orsök umtalsverðra launahækkana og endurmats á lífeyrisskuldbindingum. Þrátt fyrir slæmt rekstrarár náðu flest sveitarfélög af þeim 27 í okkar úrtaki hins vegar að lækka hjá sér skuldir, í takt við þróunina frá því 2012 er hið opinbera skuldaviðmið sveitarfélaga var fest í lög. Það mátti því lesa úr ársreikningum sveitarfélaganna 2015 að fjárfesting, sem var iðulega undir áætlunum, hafi verið látin sitja á hakanum á kostnað skuldaniðurgreiðslu. Við horfðum því til árshlutauppgjöra stærstu sveitarfélaganna með eftirvæntingu, myndi þeim takast að snúa við taflinu?

Nú þegar að þrjú stærstu sveitarfélög landsins; Reykjavík, Kópavogur, og Hafnarfjörður hafa öll birt árshlutauppgjör fyrir samstæðu sveitarfélaganna (A- og B-hluti) er ekki annað hægt að segja en að viðsnúningur hafi orðið á rekstrinum á fyrstu sex mánuðum ársins. Öll þrjú sveitarfélögin skiluðu betri afkomu en áætlanir gerðu ráð fyrir og hækkar EBITDA framlegð hjá öllum þremur yfir 15 prósent. Sérstaklega er viðsnúningurinn mikill hjá Hafnarfjarðarbæ en ef fram fer sem horfir stefnir einnig í verulegan viðsnúning hjá Reykjavíkurborg. Í árshlutauppgjöri Reykjarvíkurborgar 2015 mældist framlegðin 21% en í ársreikningi 2015 var ákveðið að gjaldfæra breytingar á lífeyrisskuldbindingu sem leiddi til töluvert verri rekstrarafkomu en árshlutauppgjörið hafði gefið til kynna. Hjá Kópavogsbæ liggur fyrir sambærileg breyting sem mun væntanlega hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar LSK (Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar) og þar með afkomu sveitarfélagsins. Hvort sú breyting verði færð til bóka 2016 eða seinna liggur hins vegar ekki enn fyrir.

Heimild: Árshlutauppgjör Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, Greiningardeild Arion banka

Jákvæðar fréttir eru að tekjuvöxtur er umfram áætlanir hjá öllum sveitarfélögunum og er tekjuvöxturinn í öllum tilfellum hærri en vöxtur gjalda, andstætt við þróun síðastliðinna tveggja ára þar sem gjöld uxu hraðar en tekjur. Vöxtur launa og launatengdra gjalda er sömuleiðis töluvert lægri en á fyrri helmingi árs 2015 og í takt við áætlanir. Á sama tíma hafa skuldir haldið áfram að lækka.

Heimild: Árshlutauppgjör Hafnarfjarðarbæjar, Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, Greiningardeild Arion banka
*Um er að ræða nálgun á nettó skuldir og nettó vaxtaberandi skuldir með eftirfarandi aðferð. Nettó skuldir = Heildarskuldir – veltufjármunir, Nettó vaxtaberandi skuldir = heildarskuldir – veltufjármunir – lífeyrisskuldbindingar

Hagstofan birti í gær tölur um fjármál hins opinbera á öðrum ársfjórðungi og má þar finna upplýsingar um fjárfestingu og rekstur sveitarfélaga landsins (A-hluta). Líkt og EBITDA framlegð sveitarfélaganna hér að ofan hækkar þá er hagnaður fyrir fjárfestingu sem hlutfall af veltu að taka við sér eftir lægð undanfarinna ára. Fjárfesting er hins vegar ennþá í lágmarki og hefur lækkað síðustu tvo fjórðunga þegar horft er til 12 mánaða hlaupandi meðaltals. Fjárfesting sem hlutfall af veltu hefur nú ekki farið upp fyrir 10% síðan ársbyrjun 2011. Þess má geta að fjárfesting sem hlutfall af veltu hefur verið um 14% að meðaltali frá árinu 1998. Tölur um landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi sem birtar voru á föstudaginn benda til að fjárfesting á Íslandi sé verulega að taka við sér (sjá Markaðspunkt) og verður því athyglisvert að fylgjast með því hvort sveitarfélögin muni fylgja þeirri þróun eftir á komandi fjórðungum.

Heimild: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Á heildina litið sýna árshlutauppgjör Hafnarfjarðar, Kópavogs og Reykjavíkur afkomubata á milli ára. Tekjur aukast umfram gjöld á sama tíma og skuldir halda áfram að lækka og veltufjárhlutföll hækka. Fjárfesting á landsvísu er þó enn nokkuð lág og á nokkuð í land til að komast upp í langtímameðaltal.