Vísitala neysluverðs stendur í stað september

Vísitala neysluverðs stendur í stað september

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) standi í stað milli mánaða en Hagstofan birtir mælingu á VNV fimmtudaginn 29. september nk. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka úr 0,9% í 1,4% en sú mikla hækkun skýrist af því að á sama tíma í fyrra lækkaði verðlag um 0,4% og dettur sú mæling nú úr árstaktinum. Lítill verðbólguþrýstingur er í kortunum næstu mánuði en við spáum 1,6% verðbólgu í lok árs og eru þá tæplega þrjú ár liðin frá því að verðbólgan fór undir markmið Seðlabankans. Verðlagning á skuldabréfamarkaði endurspeglar sömuleiðis litlar verðbólguvæntingar og almennt virðist verðlagning gera ráð fyrir framhald verði á styrkingu krónunnar og lítilli verðbólgu vel inn á næsta ár.

Helstu hækkanir að þessu sinni eru föt og skór (+0,17% áhrif á VNV) vegna útsöluáhrifa sem ganga til baka, hækkun húsnæðisverðs (reiknuð húsaleiga hefur +0,10% áhrif á VNV) og tómstundir og menning (+0,06% áhrif á VNV). Á móti koma lækkanir eins og lækkun flugfargjalda til útlanda (-0,17% áhrif), póstur og sími (-0,06% áhrif), hótel og veitingastaðir (-0,04% áhrif) og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,03% áhrif). Aðrir liðir hafa minni áhrif.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði færist niður á við en við spáum að verðlag hækki um 0,2% í október, lækki svo um -0,2% í nóvember og hækki um 0,2% í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,6% í desember.

Ekkert lát á hækkun húsnæðisverðs

Við spáum við 0,7% hækkun húsnæðisverðs milli mánaða (reiknuð húsaleiga hefur +0,10% áhrif á VNV). Þróun húsnæðisverðs það sem af er ári er ekki svo ólík undanförnum árum líkt og sjá má á vinstri myndinni að neðan en árstakturinn hefur gjarnan legið á bilinu 6% til 9% undanfarin ár. Það er þó athyglisvert að lítil verðbólga hefur mælst undanfarin þrjú ár og er því um verulega raunhækkun húsnæðisverðs að ræða. Við spáum minni breytingum á greiddri húsaleigu (+0,01% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Föt og skór hækka ásamt tómstundum og menningu

Við spáum því að föt og skór hækki milli mánaða (+0,17% áhrif á VNV) og ganga þá útsöluáhrifin til baka að fullu. Einnig hækka tómstundir og menning (+0,06% áhrif á VNV) en sá undirliður hækkar gjarnan í september. Aðrir liðir hækka umtalsvert minna eins og bensín (+0,01% áhrif á VNV) og menntun (+0,01% áhrif á VNV).

Ferðaliðurinn lækkar ásamt hótelum og veitingastöðum

Verðmælingar benda til þess að flugfargjöld til útlanda lækki milli mánaða (-0,17% áhrif á VNV) og er það í takt við verðþróun undanfarinna ára. Aftur á móti hafa flugfargjöldin hækkað minna yfir sumartímann í ár en oft áður og einnig lækkuðu flugfargjöldin í ágúst. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að flugfargjöld gætu lækkað minna en verðmælingar okkar benda til. Bensín hækkar lítillega (+0,01% áhrif á VNV) og hefur því ferðaliðurinn í heild sinni -0,16% áhrif á VNV. Við spáum því að hótel og veitingastaðir lækki einnig (-0,04% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Póstur og sími og húsgögn lækka í verði

Við spáum því að póstur og sími lækki áfram líkt og undanfarna mánuði (-0,06% áhrif á VNV) en væntanlega fer að draga úr verðlækkunum á næstunni enda hefur liðurinn lækkað samfellt undanfarna 12 mánuði. Þá tilkynnti IKEA í lok ágúst að verð yrði lækkað á öllum vörum um 3,2% að meðaltali. Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður lækki í verði (-0,03% áhrif á VNV). Á sama tíma í fyrra lækkaði IKEA verð um 2,8% og hafði þá húsgagnaliðurinn -0,05% áhrif til lækkunar á VNV. Það er því mögulegt að við séum að vanmeta lækkunina en það veltur allt á því hve stór markaðshlutdeild IKEA er og hvað aðrar húsgagnaverslanir kjósa að gera.

Fasteignaverð í miðbænum dregur vagninn

Sá liður sem heldur uppi verðbólgu um þessar mundir er tvímælalaust húsnæðisverð. Fátt bendir til þess að það muni breytast á næstunni. Þegar litið er á þróun fasteignaverðs undanfarin ár má glögglega sjá hvernig hækkun á verði fjölbýlis í miðbænum hefur dregið vagninn og hækkað vel umfram önnur hverfi. Vinstri myndin að neðan sýnir að ferðmetraverð fjölbýlis í miðbænum mældist um 465 þúsund kr. á öðrum ársfjórðungi 2016. Á sama tíma mældist fermetraverð utan miðbæjarkjarnans um 328 þúsund kr. og er þá horft til verðs í öðrum hverfum en 101, 105 og 108 Reykjavík. Ljósbláa svæðið sýnir svo muninn á hæsta og lægsta fermetraverðinu á höfuðborgarsvæðinu og sést að bilið hefur breikkað undanfarinn áratug eða svo.

Þá hefur verð á fjölbýli einnig hækkað umfram verð á sérbýli undanfarin ár. Verð á sérbýli sem hlutfall af verði fjölbýlis er því nú að nálgast meðaltalið sem var á árunum 1990 til 2004 og kæmi ekki á óvart ef hlutfallið heldur áfram að lækka. Þó eru merki um að sérbýli í ýmsum úthverfum sé að hækka og hefur sérbýli á Seltjarnarnesi hækkað mest síðastliðið árið eða heil 18% en á eftir koma Kópavogur með 14% og Mosfellsbær 12%. Engu að síður má leiða má líkur að því að fjölgun ferðamanna og útleiga á íbúðum til þeirra hafi þau áhrif að fjölbýli nálægt miðbæjarkjarnanum verði áfram eftirsóknarverð og haldi áfram að hækka umfram önnur hverfi.

Heimildir: Þjóðskrá, Greiningardeild Arion banka.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Október +0,2%: Hækkun verður á flestum liðum, þar á meðal ferðaliðnum, en helst hækkar húsnæðisliðurinn.
Nóvember -0,2%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar.
Desember +0,2%: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.