Breyttar forsendur - spáum óbreyttum vöxtum

Breyttar forsendur - spáum óbreyttum vöxtum

Þann 5. október næstkomandi verður tilkynnt um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og spáum við óbreyttum stýrivöxtum. Þar til í morgun töldum við að þróun verðbólguvæntinga gæfi tilefni til lækkunar vaxta til lengri tíma. Hækkun verðlags í september sem kynnt var í morgun var hins vegar yfir væntingum. Það skýrist að mestu leyti af leiðréttingu á húsnæðislið sem hefur verið vanmetinn megnið af þessu ári, og þar með vísitala neysluverðs. Leiðrétt vísitala neysluverðs sýnir að verðlag hefur ekki farið undir neðri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í ár – sem hefði sparað bankanum bréfaskrif til ríkisstjórnarinnar fyrr í þessum mánuði. Í morgun hafa svo verðbólguvæntingar á markaði hækkað nokkuð skarpt. Við teljum að peningastefnunefnd muni ennfremur vísa í nýlegar hagtölur um þróun innlendrar eftirspurnar sem tæpast gefa tilefni til lækkunar vaxta og því spáum við að nefndin muni halda vöxtum óbreyttum. Því er þó ekki að neita að verðbólguhorfur eru betri nú en gert var ráð fyrir í síðustu Peningamálum. Það helgast aðallega af um 3% styrkingu krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun og mun því verð á innfluttum vörum að líkindum halda áfram að lækka. Við reiknum með að nefndin muni stíga varfærin skref í boðaðri breytingu á gjaldeyrisinngripum Seðlabankans.

Verðbólguvæntingar hafa hækkað á ný

Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hefur það helst gerst að verðbólguálag hefur haldið áfram að lækka á skuldabréfamarkaði. Mælist nú álagið þegar þetta er ritað til 5 ára um 2,4% og til 10 ára um 2,6% sem er lágt í sögulegu samhengi. Fjárfestar gera því ráð fyrir að verðbólgan verði að meðaltali 2,5% næstu 5 árin sem er vísbending um aukna kjölfestu verðbólguvæntinga. Frá sjónarhorni peningastefnunefndar gætu verðbólguvæntingar þurft að haldast stöðugar á þessu bili yfir lengri tíma áður en dregin verður marktæk ályktun um aukna kjölfestu þeirra enda eru gjarnan sveiflur í verðbólguálagi líkt og sést glöggt á mörkuðum nú í morgun. Engu að síður ef verðbólguvæntingar haldast óbreyttar um nokkurt skeið og lægri væntingar endurspeglast í næstu könnun markaðsaðila má áætla að það vegi þungt sem rök fyrir frekari lækkun vaxta á næstu mánuðum.

Heimildir: Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Hvenær verða gjaldeyrisinngrip Seðlabankans endurskoðuð? Og hvernig?

Fyrir síðustu vaxtaákvörðun spáðum við því að peningastefnunefnd myndi tilkynna um breytta gjaldeyrisinngripastefnu. Það gekk ekki eftir en í fundargerð nefndarinnar kemur fram að það mál yrði tekið fyrir samhliða vaxtaákvörðun í næstu viku eða á sérstökum fundi. Af fundargerðinni má dæma að þar vegist á tveir kraftar og því er erfitt að leggja mat á hvort ný gjaldeyrisinngripastefna muni fela í sér minni gjaldeyriskaup og að líkindum meiri styrkingu krónunnar. Annars vegar kom fram í fundargerðinni að það sé „ekki æskilegt að taka verðmyndun krónu á markaði algjörlega úr sambandi“ og hins vegar að „tímabundið ofris krónunnar í aðdraganda losunar hafta væri ekki æskilegt“. Að okkar mati er líklegast að Seðlabankinn sýni áfram varfærni og að verulegar breytingar á gjaldeyrisinngripum verði ekki í fyrsta lagi fyrr en eftir áramót þegar væntanleg lög um losun fjármagnshafta öðlast fullt gildi.

Eru vextir enn of háir?

Ef við skoðum þróun nafnvaxta og raunvaxta má sjá hvernig raunvextir miðað við núverandi verðbólgu höfðu hækkað hratt fram að síðustu vaxtaákvörðun í ágúst. Að sama skapi höfðu raunvextir miðað við 5 ára verðbólguálag á markaði hækkað. Helsta skýring peningastefnunefndarinnar á vaxtalækkun í ágúst var þessi breyting á forsendum sem fól í sér aukið aðhald peningastefnunnar. En hvernig hafa raunvextir þróast frá því í ágúst? Vissulega hafa raunvextir lækkað ef miðað er við liðna endurskoðaða verðbólgu, líkt og sjá má á myndinni að neðan og að því leytinu til er aðhald peningastefnunnar minna en það var fyrir síðustu vaxtalækkun. Raunvextir m.v. 5 ára verðbólguálag á markaði hafa hins vegar lítið breyst frá síðustu ákvörðun. Líklegt er að peningastefnunefnd horfi grannt til þróunar verðbólguvæntinga á markaði fram að ákvörðun sinni á þriðjudag.

Heimildir: Hagstofan, Seðlabanki Íslands, Kodiak, Greiningardeild Arion banka

Gallinn við þennan mælikvarða er að miðlun peningastefnunnar tekur ekki 5 ár heldur 12 til 18 mánuði og vantar stutt verðtryggt ríkisbréf til að geta mælt skammtíma verðbólguálag á markaði. Það væri því nær að horfa á verðbólguspánna úr síðustu Peningamálum en samkvæmt henni yrði verðbólgan 3,6% á síðasta ársfjórðungi 2017 og því ekki tilefni til að lækka vexti þegar verðbólga hefur hækkað og farið vel yfir verðbólgumarkmið. Við erum aftur á móti ósammála verðbólguspá Seðlabankans og teljum að verðbólgan verði nær verðbólgumarkmiði í árslok 2017.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Vaxandi spenna í hagkerfinu dregur úr líkum á vaxtalækkunum

Það sem helst gæti sett strik í reikninginn er kraftmikil innlend eftirspurn og vaxandi spenna á vinnumarkaði. Hagstofan birti tölur um landsframleiðslu 9. september. Þær gáfu til kynna örari vöxt þjóðarútgjalda en við teljum að Seðlabankinn hafi reiknað með. Ef Seðlabankinn treystir á tölur Hagstofunnar eigum við ekki von á að peningastefnunefnd túlki 29,5% vöxt fjárfestingar og 7,7% vöxt einkaneyslu milli ára á fyrri árshelmingi þannig að tilefni sé fyrir aukinn peningalegan slaka. Sama má segja um þróun kortaveltu einstaklinga í ágúst sem jókst um 13,2% milli ára.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka mældist 84,5% í ágúst sl.og er það mesta þátttaka sem hefur mælst síðan í október árið 2006. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi mældist á sama tíma 3,1% en í ágúst í fyrra var það 3,9%.
Í nýútkominni ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar er bent á að ef fjölgun ferðamanna heldur áfram muni þúsundir starfa halda áfram að skapast í greininni á næstu árum. Að viðbættri vinnuaflseftirspurn í öðrum atvinnugreinum gætu því verið að skapast aðstæður sem koma af stað launaskriði. Á næstu misserum er því mikilvægt að flutt verði inn erlent vinnuafl til að draga úr spennu á vinnumarkaðinum og minnka líkur á launaskriði og þeim verðbólguþrýstingi sem gæti fylgt í kjölfarið. Gangi það eftir er fátt sem bendir til annars en að verðbólga verði undir eða við verðbólgumarkmið Seðlabankans vel inn á næsta ár og jafnvel til ársloka 2017.

Heimild: Hagstofa Íslands