Vísitala neysluverðs hækkar um 0,48% milli mánaða í september

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,48% milli mánaða í september

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,48% milli mánaða í september. Mælingin er töluvert frá spám greiningaraðila, sem lágu á bilinu 0% til 0,3%, enda skýrist hækkunin að miklu leyti af reiknivillu Hagstofunnar. Mánaðartöf í útreikningum á reiknaðri húsaleigu hefur gert það að verkum að hækkun húsnæðisverðs hefur kerfisbundið verið vanmetin og er það nú leiðrétt í september mælingunni. Annars vegar hækkaði húsnæðisverð um 1,8% milli júlí og ágúst (+0,27% áhrif á VNV) og hins vegar var 1,5% hækkun milli september og ágúst (+0,24% áhrif á VNV). Samtals hafði húsnæðisverð því +0,51% áhrif til hækkunar á VNV í september.

Ársverðbólgan mælist nú 1,8% og er það nokkuð umfram það sem greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Einnig hefur kjarnavísitala hækkað um 2,2% síðustu 12 mánuði en kjarni málsins er, eins og oft áður, að án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun sem nemur -0,4% á ársgrunni. Það er því í raun ekki hefðbundnar dagvörur sem eru að hækka í verði, þvert á móti eru þær að lækka í verði.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Spá okkar fyrir næstu mánuði breytist lítið en við spáum að verðlag hækki um 0,2% í október, lækki svo um -0,2% í nóvember og hækki um 0,1% í desember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,9% í desember.

Vanmat á hækkun húsnæðisverðs undanfarið hálft ár

Eins og áður var nefnt er um að ræða verulegt vanmat á hækkun húsnæðisverðs það sem af er ári. Árshækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu er nú 14,3% en var 11% í síðasta mánuði. Það er mesta hækkun á fjölbýli sem hefur mælst síðan í ársbyrjun 2008. Árshækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 11,6% en um land allt hefur húsnæði hækkað um 12,9% síðustu 12 mánuði. Greiningardeild telur fátt benda til þess að verð á húsnæði muni lækka á næstu mánuðum og verður liðurinn því ráðandi þáttur í verðbólguþróun næstu mánuði og misseri. Húsnæðisliðurinn í heild hafði +0,56% áhrif til hækkunar á VNV en þar af voru áhrif af reiknaðri húsaleigu +0,51%.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Útsöluáhrifin gengin til baka

Föt og skór hækkuðu um 4,8% milli mánaða í september (+0,19% áhrif á VNV) og eru því útsölurnar í júlí nánast að fullu gengnar til baka. Þó er verð á fötum og skóm 0,5% lægra nú en fyrir útsölurnar og heldur því þróun fyrri ára áfram þar sem verð á fötum og skóm fer lækkandi eða stendur í stað.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Tómstundir og menning hækka en ferðaliðurinn lækkar

Undirliðurinn tómstundir og menning hækkar um 1% milli mánaða (+0,11% áhrif á VNV) og skýrist það helst af hækkun á hljómflutningstækjum, gæludýrum, leikhúsmiðum og ritföngum svo eitthvað sé nefnt. Að mörgu leyti eru þetta liðir sem lækkuðu í ágúst og eru því lækkanirnar að ganga til baka. Ferðaliðurinn lækkar á móti (-0,30% áhrif á VNV) og þar af vegur þyngst lækkun á verði flugfargjalda til útlanda (-0,20% áhrif á VNV) og lækkun á ökutækjum (-0,05% áhrif á VNV). Aðrir liðir breytast minna en eru þó flestir til lækkunar eins og matarkarfan (-0,03% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta (-0,02% áhrif á VNV).

Getur hækkun húsnæðisverðs verið vísbending um vaxandi verðbólgu?

Óhætt er að segja að nýbirt mæling Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs hafi komið á óvart og breytir það töluvert myndinni þegar horft er fram á við og reynt að meta hver verðbólguþróunin verður næstu mánuði. Í fyrsta lagi liggur nú fyrir að húsnæðisverð um land allt hefur hækkað um tæp 13% undanfarið ár og er það mesta hækkun sem hefur sést í rúm 8 ár. Takturinn á húsnæðismarkaði er því að víkja frá þróun síðustu ára þar sem árshækkunin hefur sveiflast í kringum 8%. Miðað við 1,8% ársverðbólgu er raunhækkunin tæplega 11% undanfarið ár og er það þróun sem stenst ekki til lengri tíma litið. Skortur á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu drífur áfram hækkun húsnæðisverðs og jafnframt veruleg hækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna. Í öðru lagi getur hækkun húsnæðisverðs haft ákveðið forspárgildi um verðbólgu í framtíðinni. Það stafar af því að eigið fé heimila eykst samhliða hækkun fasteignaverðs og eykur það veðrými til lántöku og skilar það sér gjarnan í aukinni neyslu að lokum. Að lokum má nefna að í síðustu fundargerð peningastefnunefndar var sérstaklega horft á hækkun raunvaxta vegna lækkandi verðbólgu og verðbólguvæntinga og því var ákveðið að lækka stýrivexti. Þær forsendur sem sú ákvörðun byggði á kunna að vera rangar og hefur því dregið verulega úr líkum á vaxtalækkun á næstunni.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Það má svo deila um það, þegar verðbólga er alfarið dregin áfram af húsnæðisliðnum og verðbólga án húsnæðis hefur lækkað um 0,4% síðastliðið ár, hvort hægt sé að berjast gegn framboðsskorti á húsnæði með vöxtum einum og sér sem stjórntæki. Er jafnvel líklegra að hærri vextir dragi úr fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og komi í veg fyrir aukið framboð af litlum íbúðum sem mesta eftirspurnin er eftir? Væntanlega er líklegra til árangurs að leggja áherslu á einföldun regluverks og reyna að tryggja að framboð á íbúðamarkaði nái að mæta eftirspurn á komandi árum.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Október +0,2%: Hækkun verður á flestum liðum, þar á meðal ferðaliðnum, en helst hækkar húsnæðisliðurinn.
Nóvember -0,2%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar.
Desember +0,1%: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.