Varfærinn Seðlabanki heldur vöxtum óbreyttum

Varfærinn Seðlabanki heldur vöxtum óbreyttum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum, sem er í samræmi við spár. Tónn nefndarinnar að þessu sinni er nokkuð hlutlaus og almennt varfærinn þótt lesa megi milli línanna að slakari peningastefna sé ekki í kortunum. Á hinn bóginn gætu lægri verðbólguvæntingar og áframhaldandi lítil verðbólga leitt til þess að vextir lækki á næstunni án þess að aðhaldið sem slíkt breytist mikið. Við teljum að Seðlabankinn sé enn og aftur að ofspá verðbólgu svo að frekari vaxtalækkun gæti verið í farvatninu á næstunni af því gefnu að spá okkar rætist og verðbólguvæntingar haldast við og undir markmiði. Hvernig til tekst með losun fjármagnshafta mun þó ráða miklu um vaxtaþróun næstu mánuði og hvernig gjaldeyrisinngripum Seðlabankans verður háttað. 

Varfærið hlutlaust aðhald

Líkt og við höfðum bent á gefa nýjustu hagtölur í skyn meiri vöxt efnahagsumsvifa en Seðlabankinn hefur spáð og tilgreinir peningastefnunefndin það sérstaklega í yfirlýsingu sinni: „Sem fyrr er gert ráð fyrir miklum hagvexti á þessu og næsta ári og benda nýjustu vísbendingar til þess að vöxturinn sé jafnvel kröftugri en áður hafði verið gert ráð fyrir.“ Af þeim sökum er því ekki líklegt á aðhaldsstigið, eða raunvextir, lækki á næstunni. Í yfirlýsingunni er sagt að „Verðbólguhorfur hafa þó líklega lítið breyst frá þeirri spá sem bankinn birti í ágúst“. Þetta er sagt þó að gengi krónunnar hafi styrkst um 3% í millitíðinni en við skiljum sem svo að leiðrétting Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs vegi þar upp á móti.

Bæði í yfirlýsingunni og á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina mátti greina að nefndin vill stíga mjög varfærin skref samhliða losun fjármagnshafta. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að „Líkur á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og óvissa í tengslum við losun fjármagnshafta kalla á varfærni við ákvörðun vaxta.“ Aðhaldsstigið, og þ.a.l. vaxtastigið, muni því ráðast af miklu leyti af því hvernig til tekst við losun haftanna. Að líkindum er einungis nokkurra daga bið eftir því að lög um losun hafta verði samþykkt á Alþingi og munu áhrifin ekki koma fram að fullu fyrr en við áramót. Á kynningarfundinum í morgun var imprað betur á þessu og t.d. gaf seðlabankastjóri í skyn að nýleg lækkun langtímaverðbólguvæntinga muni þurfa að standast verðbólgu- og gengisáföll í framtíðinni til að hægt sé að líta á hana sem varanlega breytingu.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Engin breyting á forðastefnunni en hvað verður í nóvember?

Líkt og við höfðum spáð var ekki gerð breyting á stefnu Seðlabankans í gjaldeyriskaupum þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að gjaldeyrisforðinn sé orðinn stærri en hann þurfi að vera. Gjaldeyrisforðinn nálgast 800 milljarða króna og óskuldsetti forðinn nemur 519 milljörðum króna sem er meira en sem nemur öllu peningamagni í umferð (M1).

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Áætlun fyrir september

Ástæðan fyrir því að inngripastefnan var ekki endurskoðuð er sú að peningastefnunefndin vill fyrst sjá hvaða afleiðingar losun hafta hefur í för með sér og telur seðlabankastjóri líklegra en ekki að draga muni til tíðinda í nóvember. Þó benti hann einnig á að þetta skref losunar hafta ljúki við áramót og að þá verði staðan endurskoðuð.

Við teljum meiri líkur en minni á að vel takist til við haftalosunina þannig að ekki verði stórkostlegt útflæði fjármagns. Ef það reynist rétt, og styrkingarþrýstingur varir áfram, gæti pressan á Seðlabankann að hægja að gjaldeyriskaupum aukist eftir áramót. Því þó að það sé ljóst að Seðlabankinn vilji bæði hafa stóran forða og koma í veg fyrir ofris krónunnar, hefur aukinn forðaeign umfram ákveðin mörk, t.d. vel yfir forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, takmarkaðan tilgang. Einnig er óæskilegt að taka verðmyndum krónunnar algjörlega úr sambandi.

Sterkar vísbendingar um litla verðbólgu fram á næsta ár

Að okkar mati eru ýmsar vísbendingar sem benda til þess að verðbólga verði undir spá Seðlabankans og haldist jafnvel undir verðbólgumarkmiði til loka næsta árs. Í fyrsta lagi er útlit fyrir að verð á fötum og skóm muni halda áfram að lækka líkt og undanfarin misseri og því til rökstuðnings má benda á að Lindex tilkynnti nýlega 8% verðlækkun. Einnig þarf að hafa í huga að H&M mun að öllum líkindum opna í Smáralind á næsta ári og getur sú aukna samkeppni haldið aftur af verðhækkunum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Costco opni á næsta ári og getur það haft áhrif til lækkunar á ýmsar sérvörur. Óljóst er hve mikil áhrifin verða en gera má ráð fyrir að þrýstingur verði til lækkunar á vörum eins og búsáhöldum, raftækjum, símum, skartgripum og jafnvel dekkjum svo eitthvað sé nefnt. Í þriðja lagi getur samningur um gagnkvæma niðurfellingu tolla milli Íslands og ESB á yfir 340 tollskrárnúmerum haft áhrif á matvöruverð til lækkunar þar sem um er að ræða tolla á unnar landbúnaðarvörur. Í fjórða lagi mun Orkuveita Reykjavíkur lækka gjaldskrá fyrir rafmagnsdreifingu og kalt vatn um áramótin. Síðast en ekki síst er útlit fyrir að krónan eigi inni enn meiri styrkingu en verðbólguspár Seðlabankans gera ráð fyrir óbreyttu gengi.

Að okkar mati eru því allar líkur á að verðbólga verði nokkuð undir spám Seðlabankans og verði, eins og áður segir, nær verðbólgumarkmiði við árslok. Ef peningastefnunefnd væri sammála þessu mati myndu horfur um vaxtaþróun breytast umtalsvert næstu mánuði. Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundinum í morgun að það sé til skoðunar að birta spár þar sem gengi krónunnar er spábreyta á næstunni. Það verður fróðlegt að sjá hvernig sú sviðsmynd mun líta út og hvort það breyti verðbólguspám Seðlabankans.

 

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka.