Uppboð aflaheimilda og fjárhagslegur styrkur

Uppboð aflaheimilda og fjárhagslegur styrkur

Fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga, sem í daglegu tali kallast kvótakerfið eða aflamarkskerfið, hefur gefið góða raun að því leyti að það hefur stuðlað að verndun fiskistofna, dregið úr offjárfestingu og aukið verðmætasköpun í greininni. Engu að síður hefur kerfið lengi verið umdeilt af ýmsum ástæðum, t.d. ótryggrar atvinnu í mörgum byggðum landsins og óréttlátrar úthlutunar aflaheimilda og vegna þess að mörgum finnst að ríkissjóður eigi meira tilkall til afraksturs sameiginlegrar auðlindar hafsins. Eitt úrræðið sem hefur verið nefnt til að koma til móts við þau sjónarmið er að koma á uppboði á litlu hlutfalli aflaheimilda á hverju ári. Þannig opnist tækifæri til nýliðunar, allir sitji við sama borð og auknar tekjur skili sér í ríkiskassann.

Nýlega stóðu Arion banki og SFS fyrir fundi um úthlutun aflaheimilda. Í tilefni að því veltum við því fyrir okkur hvaða þýðingu uppboð hluta aflaheimilda á hverju ári myndi hafa í núverandi kvótakerfi, með hliðsjón af fjárhagslegum styrk fyrirtækja. Þar sem málefnið er nokkuð flókið og sjónarmiðin eru mörg horfum við á hvernig uppboð nær tveimur markmiðum, sem ætla má að margir séu sammála um að nauðsynlegt sé að uppfylla:

1. Að auðlindarenta af fiskveiðum skili sér til ríkisins
2. Að rekstrargrundvöllur sjávarútvegs sé tryggður um land allt

Útfærslan við uppboð aflaheimilda getur verið misjöfn en til einföldunar skulum við hugsa sem svo að á hverju ári sé föst prósenta (ca. 5-10%) allra aflaheimilda sé boðin upp. Sú skerðing myndi ekki eingöngu eiga sér stað einu sinni heldur myndi þessi prósenta alltaf vera tekin af öllum aflaheimildum, svo að á endanum fær sá sem aldrei kaupir aflaheimildir á uppboði litlar sem engar aflaheimildir.

Auðlindarenta er ekki eina rentan

Með því að takmarka aðgang að auðlindum hafsins skapast aukin verðmæti með nýtingu þeirra sem yfirleitt er kallað auðlindarenta. Mjög erfitt er að meta nákvæmlega hversu mikil sú renta er, en þó má sjá birtingarmynd hennar í því að afkoma sjávarútvegs í heild er að jafnaði nokkuð betri en í öðrum atvinnugreinum. Líkt og sést hér að neðan hefur hagnaður fyrir skatta í hlutfalli við tekjur hefur verið að jafnaði 4 prósentum meiri í sjávarútvegi heldur en í öðrum atvinnugreinum 2002-2014. Þessi nálgun er vissulega annmörkum háð en sambærileg niðurstaða fæst ef horft er t.d. til arðsemi eigin fjár.


Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka. *Meðaltal 2004-2014

 

Eðli máls samkvæmt munu allar atvinnugreinar aldrei skila meðaltalsarðsemi og það getur aldrei verið skynsamlegt markmið að skattleggja það sem er umfram meðaltal. Þá eru ýmsar aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem eru arðbærari en gengur og gerist. Það endurspeglar að það er ýmislegt annað en notkun náttúrauðlinda sem skapar rentu. Staðsetning fyrirtækja, uppbygging þeirra, þekking starfsfólks, sérstök tækni, einkaleyfi o.fl. eru allt þættir sem geta skapað rentu. Slík renta er gjarnan nefnd „innri jaðar renta“ og er einnig til staðar í mismiklum mæli hjá sjávarútvegsfyrirtækjum enda eru þau jafn ólík og þau eru mörg.

Líklegt er að uppboðsleiðin leiði til þess að ríkið fái auknar tekjur af nýtingu auðlindarinnar, að minnsta kosti til skemmri tíma. Það ræðst þó að miklu leyti af því hvernig uppboðið er hannað og það gæti reynst kostnaðarsamt á beinan sem óbeinan hátt. Kaupendur gætu greitt hærra verð en þeir hafa ráð á og ríkið sæti uppi með lakari sjávarútvegsfyrirtæki og ofmat á virði kvótans. Þetta er kallað „bölvun sigurvegarans“ (e. winners curse) sem hætta er á að eigi sér stað þar sem raunverulegt virði aflaheimilda er aldrei vitað fyrr en eftir á. Engu að síður má ætla að uppboð aflaheimilda nái markmiðinu um aukna auðlindarentu til ríkisins en þegar hér er komið er tvísýnna hvort markmiðið um tryggan rekstrargrundvöll náist.

Gríðarlegur breytileiki á fjárhagslegri stöðu sjávarútvegsfyrirtækja

Þar sem sjávarútvegsfyrirtæki er jafn ólík og stjörnurnar á himninum kemur kannski ekki á óvart að fyrir utan fjölbreytta stærð er fjárhagsleg staða þeirra æði misjöfn eins og sést á myndinni hér að neðan. Sum skulda lítið og eiga mikið eigið fé, önnur skulda mikið og hafa neikvætt eigið fé og svo allt þar á milli.

Þessi mismunandi fjárhagsstaða útgerða endurspeglar að líkindum þá staðreynd að þau eru misvel til þess fallin að skila hámarskarðsemi af auðlindinni, þó margt annað hafi einnig mikil áhrif. Ef það kæmi til uppboðs á hluta aflaheimilda má því ætla að þau sem betur standa séu reiðubúin að greiða hærra verð fyrir aflaheimildir. Ef við horfum á hversu mikið þau geta greitt miðað við möguleikann á aukinni skuldsetningu til kaupa á aflaheimildum er ljóst að leikurinn er mjög ójafn. Til einföldunar skulum við hugsa okkur að til þess að lánveitendur séu reiðubúnir að lána fyrirtækjum á samkeppnishæfum kjörum þurfi þau að reiða fram 20% eiginfjárframlag og megi ekki skulda meira en sem nemur áttföldum rekstrarhagnaði. Einungis 26 fyrirtæki, af þeim 88 fyrirtækjum sem fengu 92% aflaheimilda árið 2013, standast þessi viðmið. Það þýðir að 62 af þessum 88 fyrirtækjum yrðu ekki samkeppnishæf þegar kæmi að uppboði á hluta aflaheimilda.


Heimildir: Creditinfo, SFS, Greiningardeild Arion banka. *Skuldir 2013, EBITDA að meðaltali 2011-2013

Uppboð þýðir að óbreyttu hraðari samþjöppun aflaheimilda

En hafa þessi 26 fyrirtæki í raun burði til að taka yfir öll hin eða kaupa af þeim aflaheimildir? Ef við gerum ráð fyrir að þau skuldsettu sig öll miðað við 20% eiginfjárhlutfall og 8x skuldir/EBITDA þá hefðu þau samtals svigrúm til þess að skuldsetja sig um rúmlega 210 ma.kr. En hvert er virði (EV) hinna 62 fyrirtækjanna? Ef við gerum ráð fyrir því að það sé ellefufaldur rekstrarhagnaður (EBITDA), eins og í tilfelli HB Granda, er samanlagt virði þeirra 168 ma.kr, eða 42 ma.kr. minna en sem nemur skuldsetningarsvigrúmi hinna. Þannig er fræðilega mögulegt að svarið við spurningunni sé já – þessi 26 fyrirtæki geta tekið yfir hin 62.

Rétt er að hafa í huga að aukin samþjöppun myndi taka tíma, enda er útlánageta til sjávarútvegs á hverju ári takmörkuð og reikna má með að lítið hlutfall aflaheimilda fari í uppboð á hverju ári. Þó má vera ljóst út frá gríðarlegum breytileika fjárhagslegrar stöðu útgerða landsins að gjaldtaka, og sérstaklega uppboð sem færir núverandi aflaheimildir frá útgerðum á hverju ári, mun hraða verulega samþjöppun aflaheimilda á færri útgerðir á færri stöðum á landinu.

Hvernig myndi virka að setja skorður til að halda góðri dreifingu aflaheimilda?

Í sjálfu sér eru ágæt rök fyrir því að ná fram hraðari samþjöppun aflaheimilda, einkum út frá hagræðissjónarmiðum, sem er í ágætu samræmi við markmið um auðlindarentu til ríkisins og tryggan rekstrargrundvöll. Á hinn bóginn gengur hún í bága við hinn markmið um sjávarútveg „um allt land“.

Til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun og tryggja rekstur sjávarútvegs um allt land má e.t.v. skipta uppboðunum eftir landssvæðum. Það er þó einfalt að sjá að það er líklega ófullnægjandi. Ef við skoðum t.d. Vesturland var eigið fé að jafnaði neikvætt þar árið 2013, en á hinn bóginn er það mjög breytilegt sem birtist í háu staðalfráviki. Það má því ætla að mjög fáar útgerðir myndu standa öðrum mun framar ef það kæmi til uppboða og þar af leiðandi sanka að sér aflaheimildum.

 

Heimildir: Creditinfo, SFS, Greiningardeild Arion banka.

Ef skipting eftir landssvæðum er ekki nægileg er einnig hægt að skipta fyrirtækjum eftir stærð í „uppboðspotta“ þar sem þau stærstu eru að jafnaði betur sett fjárhagslega. Það er þó alls ekki algilt því meira en helmingur þeirra 26 fyrirtækja sem standast eiginfjár- og skuldaviðmið fékk úthlutað innan við 1% aflaheimilda viðmiðunarárið 2013. Aftur á móti voru fjölmörg fremur stór fyrirtæki sem stóðust ekki viðmiðin, þar af fimm fyrirtæki sem fengu úthlutað 2% aflaheimilda eða meira árið 2013. Þar af leiðandi myndi að samþjöppun að líkindum eiga sér stað hvort sem uppboðum væri skipt upp eftir stærð útgerða eða ekki.

 

Heimildir: Creditinfo, SFS, Greiningardeild Arion banka.

Gæta þarf þess að uppboðsleið og aðrar ráðstafanir rýri ekki verðmætasköpun í sjávarútvegi

Það er í besta falli óvíst að það að skipta uppboðum upp eftir landssvæðum og stærðum útgerða dugi til þess að halda aftur af samþjöppun aflaheimilda, jafnvel þó að hvoru tveggja væri blandað saman. Freistandi er að draga þá ályktun að þá þurfi að gera frekari takmarkanir og skipta aflaheimildum í misjafna uppboðspotta. Það er þó takmörkunum háð hversu langt það getur gengið því ef örfáar útgerðir eru í samkeppni um hvern uppboðspott aukast líkur á samráði og óeðlilegri verðmyndum aflaheimilda. Einnig má leiða líkur að því að erfitt gæti reynst að mynda sátt um hversu miklar aflaheimildir t.d. ákveðnir landshlutar skuli fá í slíkum uppboðum, sem væri ætíð á kostnað annarra landshluta.
Það er því ljóst að uppboðsleið hefur bæði kosti og galla – hún hraðar að vissu leyti hagræðingu og færir auðlindarentu til ríkisins en á hinn bóginn gæti hún raskað verðmætasköpun og fjárfestingum í sjávarútvegi og/eða leitt til óæskilegrar samþjöppunar. Hvernig uppboðsleiðin væri nákvæmlega útfærð ræður miklu um bæði kosti og galla hennar. Hvað sem því líður er mikilvægast að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu rýri ekki þau miklu verðmæti sem sjávarútvegurinn skapar fyrir þjóðarbúið heldur að þær styðji frekar við áframhaldandi verðmætasköpun. Ábati þjóðarbúsins af sjávarútvegi er ekki fasti og það að koma fisknum á land er ekki nema brot af sögunni.