Spáum 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í október

Spáum 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í október

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% milli mánaða í október og að ársverðbólga hækki úr 1,8% í 1,9%. Ástæða þess að ársverðbólgan hefur hækkað að undanförnu er sú að fyrir um ári síðan áttu sér stað miklar lækkanir á bensínverði og flugfargjöldum til útlanda en þær mælingar detta nú úr árstakti verðbólgunnar og hækkar hún því í kjölfarið. Á næstu mánuðum gerum við ráð fyrir að verðbólgan breytist lítið og spáum því að hún mælist 1,8% í janúar á næsta ári. Það veltur þó á ýmsum atriðum eins og hvort afnám tolla mun raungerast og hvort lækkun verður á gjaldskrám orkufyrirtækja. Lækkunin gæti því orðið meiri en sömuleiðis gæti hækkun eldsneytisverðs á alþjóðavísu og hækkun húsnæðisverðs skapað aukinn verðbólguþrýsting.Helstu hækkanir milli mánaða eru húsnæðisliðurinn (+0,15% áhrif á VNV) eins og venjulega, en einnig hækka flugfargjöld til útlanda (+0,10% áhrif á VNV) og bensín (+0,02% áhrif á VNV). Aðrir liðir hækka minna, en helsta lækkunin er á fötum og skóm og kemur til vegna verðlækkunar í Lindex sem er að meðaltali 8%. Einnig eru vísbendingar um verðlækkanir í öðrum fatabúðum og er það styrking á gengi krónunnar sem liggur þar að baki.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spá okkar fyrir næstu mánuði breytist lítið en við spáum að verðlag lækki svo um 0,2% í nóvember en hækki um 0,1% í desember. Þá spáum við 0,6% lækkun í janúar á næsta ári og gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,8% í byrjun næsta árs.

Frekari hækkun húsnæðisverðs framundan

Við spáum að húsnæðisverð hækki um tæplega 0,9% milli mánaða í október (+0,13% áhrif á VNV) og að greidd húsaleiga hækki einnig (+0,02% áhrif á VNV). Þótt halda mætti að húsnæðismarkaðurinn myndi róast þegar líður á haustið eru engar vísbendingar um að svo sé. Hrein ný útlán til heimila hafa verið að aukast undanfarna mánuði bæði hjá innlánsstofnunum og lífeyrissjóðum og eignum á sölu hefur farið fækkandi og er það í takt við aukinn veltuhraða á fasteignamarkaðinum. Þar að auki er helst sótt í verðtryggð lán frekar en óverðtryggð líkt og áður og felur það í sér meiri kaupgetu fyrir sömu lánsfjárhæð og er því til þess fallið að ýta undir frekari hækkun húsnæðisverðs. Á sama tíma batnar fjárhagslega staða heimila milli ára en hrein eign einstaklinga með íbúðaskuldir jókst um 20% milli ára í fyrra eins og fram kemur í nýútgefnum Fjármálastöðugleika Seðlabankans. Við gerum því ráð fyrir að húsnæðisverð hækki enn frekar á næstu mánuðum.

Heimildir: Seðlabanki Íslands.

Spáum að föt og skór lækki milli mánaða

Undanfarin misseri hafa föt og skór almennt verið að lækka í verði og skýrist það einkum af styrkingu krónunnar og afnámi tolla á föt og skó síðustu áramót. Eins og áður var nefnt hefur Lindex lækkað verð á fötum um að meðaltali 8% og er okkar mat að föt og skór lækki um 2% milli mánaða (-0,09% áhrif á VNV). Ekki er ólíklegt að fatnaður lækki enn frekar í verði á næstu misserum ef gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast. Einnig þarf að hafa í huga að til stendur að opna H&M í Smáralind á seinni hluta næsta árs sem getur ýtt undir verðsamkeppni. Í það minnsta er fátt sem bendir til þess að verðhækkanir séu handan við hornið jafnvel þótt miklar launahækkanir hafi átt sér stað í ár í kjölfar kjarasamninga.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Spáum að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði á næsta ári

Margir þættir benda til þess að verðbólga verði áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næsta ári. Þó eru vissulega áhættuþættir sem til lengri tíma geta ýtt undir verðbólguþrýsting. Ekki er útilokað að gengi krónunnar veikist í kjölfar losunar fjármagnshafta. Einnig hefur eldsneytisverð á alþjóðamörkuðum verið að hækka undanfarna mánuði og vísbendingar um að OPEC nái samstöðu um að takmarka olíuframboð. Þá er umtalsverð spenna á vinnumarkaði og í Fjármálastöðugleika var í lögð áhersla á vaxandi spennu á húsnæðismarkaði og að raunverð á húsnæði væri orðið sögulega hátt. Allt eru þetta þættir sem undir venjulegum kringumstæðum gæfu til kynna aukinn verðbólguþrýsting.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Það sem er óvenjulegt við þróunina undanfarin misseri er að gjaldeyristekjur þjóðarbúsins hafa vaxið gríðarlega hratt með tilheyrandi þrýstingi á gengi krónunnar og teljum við líklegt að sá þrýstingur haldi áfram þrátt fyrir losun fjármagnshafta og aukið fjármagnsútflæði. Mögulegt er að það hægi á gengisstyrkingu eða að nafngengið standi jafnvel í stað en við teljum minni líkur á veikingu krónunnar.

Annað sem er óvenjulegt er að sparnaður hefur almennt verið að aukast. Líkt og bent var á í síðustu Peningamálum hefur tekjuvöxtur verið mikill en honum hefur að hluta til verið beint í innlendan sparnað. Þrátt fyrir sterkan vöxt einkaneyslu hafa ráðstöfunartekjur vaxið hraðar og sparnaður heimila því aukist. Ef um er að ræða breytta sparnaðarhneigð Íslendinga hefur það vissulega áhrif á þróun innlendrar eftirspurnar. Að lokum eru ýmsir einskiptisliðir sem geta haft áhrif til lækkunar á VNV. Má þar nefna seinni hálfleik í afnámi tolla um næstu áramót í samræmi við fjárlög 2016 og lækkanir á gjaldskrám Orkuveitu Reykjavíkur. Þá getur samningur við ESB um niðurfellingu tolla á landbúnaðarvörum, sem mun taka gildi í fyrsta lagi um mitt næsta ár, einnig haft áhrif til lækkunar á matvörur. Það eru því margar vísbendingar að á næsta ári verði lítill verðbólguþrýstingur og spáum við að verðbólga að meðaltali verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Nóvember -0,2%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar.
Desember +0,1%: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar.
Desember -0,6%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.