Vísitala neysluverðs óbreytt milli mánaða í október

Vísitala neysluverðs óbreytt milli mánaða í október

Vísitala neysluverðs (VNV) er óbreytt milli mánaða í október skv. nýbirtri mælingu Hagstofunnar og mælist ársverðbólgan í 1,8%. Án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun sem nemur -0,9% og er það því hækkun húsnæðisverðs sem drífur verðbólguna áfram. Þá hefur kjarnavísitala 1 hækkað um 2,1% síðustu 12 mánuði en hún leiðréttir fyrir sveiflukenndum undirliðum. Spár greiningaraðila lágu á bilinu 0,1% til 0,2% og er því mælingin nokkuð undir væntingum. Helst kemur á óvart veruleg lækkun matvælaverðs (-0,15% áhrif á VNV) og einnig lækkaði póstur og sími umfram okkar spá (-0,09% áhrif á VNV). Aðrir liðir lækkuðu minna. Á móti fyrrnefndum lækkunum vegur hækkun húsnæðisliðarins (+0,2% áhrif á VNV) sem skýrist nánast alfarið af hækkun húsnæðisverðs. Einnig hækkaði ferðaliðurinn (+0,04% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta (+0,03% áhrif á VNV).

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Við spáum því að verðlag lækki um -0,1% í nóvember en hækki um 0,2% í desember. Þá spáum við 0,7% lækkun í janúar á næsta ári og gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,7% í byrjun næsta árs.

Matvælaverð lækkar umfram spár

Segja má að lækkun matvælaverðs um rúmlega 1% hafi komið flestum á óvart en við spáðum óbreyttu verðlagi. Matvælaverð hefur því nánast staðið í stað síðustu 12 mánuði, þrátt fyrir ríflegar launahækkanir. Draga má þá ályktun að svigrúm verði fyrir enn frekari lækkanir ef styrking krónunnar heldur áfram næstu mánuði. Síðastliðinn mánuð hefur krónan styrkst um 2,7% gagnvart evru og Seðlabankinn hefur keypt um 39 ma.kr. af gjaldeyri með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Það er því fátt sem bendir til þess að útflæði á gjaldeyrismarkaði sé að valda þrýstingi á krónuna til veikingar um þessar mundir.

Póstur og sími lækkar

Annar liður sem kemur nokkuð á óvart er lækkun á pósti og síma (-0,09% áhrif á VNV) og stendur þar lækkun á verði símaþjónustu upp úr. Hafa þarf í huga að verð á farsímaþjónustu hefur lækkað um 35% síðustu 12 mánuði. Þar er ekki um gjaldskrárlækkanir að ræða heldur er verð mælt á hverja gagnaeiningu og það sem ræður hér för er aukið gagnamagn. Ekki er útlit fyrir að tækniþróun á næstu misserum dragi úr gagnamagni og því gerum við ráð fyrir að lækkun á verði símaþjónustu haldi áfram, að minnsta kosti um sinn.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Húsnæðisverð hækkar - aukin ásókn í sérbýli?

Húsnæðisliðurinn hækkaði milli mánaða í október (+0,20% áhrif á VNV) og skýrist það aðallega af reiknaðri húsaleigu (+0,21% áhrif á VNV) eða hækkandi fasteignaverði. Hækkun húsnæðisverðs það sem af er ári nemur rúmlega 11% en undanfarin ár hefur hækkunin verið á bilinu 3% til 8% fyrstu 10 mánuði ársins. Það er því nokkuð stökk í verðhækkunum að undanförnu. Ef horft er framhjá villu Hagstofunnar við mælingu á reiknaðri húsaleigu, eru annars vegar miklar verðhækkanir á fjölbýli innan höfuðborgarsvæðisins (12% síðastliðið ár) en sömuleiðis hækkar verð á sérbýli nokkuð meira nú en sést hefur undanfarin ár (12% síðastliðið ár). Það er því líklegt að aukið veðrými heimila og lækkandi skuldsetning ásamt auknum kaupmætti ýti undir aukna kaupgetu og vaxandi eftirspurn eftir stærra húsnæði. Ef litið er á gögn Þjóðskrár um húsnæðisverð á þriðja ársfjórðungi 2016 má sjá að sérbýli í hverfum utan miðbæjarkjarnans hafa hækkað einna mest og eru þar svæði eins og Breiðholt, Seltjarnarnes og húsnæði norðan Kópavogslækjar, en öll þessi hverfi hafa hækkað á bilinu 18% til 27% undanfarið ár. Að raunvirði er því um verulega verðhækkun að ræða.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Eignamarkaðir drífa áfram verðbólguna

Það er umhugsunarvert að verðlag án húsnæðisverðs hefur lækkað um tæplega 1% síðastliðið ár en á sama tíma hefur húsnæðisverð í eftirsóttum hverfum hækkað um tugi prósentustiga. Að raunvirði er því verulega hröð eignamyndun að eiga sér stað á hjá íbúðareigendum. Hækkun húsnæðisverðs má að miklu leyti rekja til of lítils framboðs á sama tíma og kaupmáttur almennings hefur aukist hressilega. Framboð á húsnæði er líklegt til að færast til betri vegar nú þegar að fasteignaverð er víða komið upp fyrir byggingarkostnað, íbúðafjárfesting hefur tekið við sér og borgin boðar metár í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Hvernig fasteignaverð þróast veltur því að miklu leyti á vexti íbúðafjárfestingar á næstu misserum.

Á sama tíma og merki eru um aukna spennu á fasteignamarkaði lækkar almennt verðlag og skýrist það að miklu leyti af styrkingu krónunnar. Gott dæmi um slíka þróun er nýleg lækkun á matvælaverði. Styrkingu krónunnar má rekja til mikils ójafnvægis í gjaldeyrisflæði til og frá landinu og leiðir það til almennrar verðhjöðnunar, án húsnæðisverðs. Þá er raungengi krónunnar nú um 20% sterkara en langtímameðaltal. Ef tryggja á stöðugleika til lengri tíma litið er mikilvægt annars vegar að tryggja fjármagnsútflæði til að vega á móti gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamannastraumsins, hægja á styrkingu krónunnar og koma þannig í veg fyrir ofris gjaldmiðilsins. Hins vegar er kominn tími til að ráðast í aðgerðir sem geta aukið framboð af litlum íbúðum sem henta yngra fólki og reyna til lengri tíma litið að draga úr spennu á fasteignamarkaði.

Verðbólguþróun næstu mánuði:
Nóvember -0,1%: Ferðaliðurinn lækkar en húsnæðisliðurinn hækkar.
Desember +0,2%: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækkar.
Desember -0,7%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka