Rokk, rapp og hagtölur - Iceland Airwaves 2016

Rokk, rapp og hagtölur - Iceland Airwaves 2016

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fór af stað í gær með látum þar sem m.a. rjóminn af íslensku rappsenunni steig á stokk í Silfurbergi í Hörpu. Hluti Greiningardeildar var í salnum í góðu stuði ásamt miklum fjölda íslenskra og erlendra tónlistarunnenda og óhætt að segja að bærinn hafi verið fullur af fólki. Á milli þess sem var dansað, twerkað og dabbað kviknuðu áleitnar spurningar: Hvaða áhrif hefur þetta fjölda ferðamanna? Hvernig ætli hótelnýtingin sé? Hvaða áhrif hefur allt þetta fólk á neyslu og landsframleiðsluna? Þetta kallar á greiningu!

Iceland Airwaves er nú haldin í 18. sinn en hún fór fyrst fram árið 1999 í flugskýli Icelandair við Reykjavíkurflugvöll. Eins og margt annað sem snertir íslenska ferðaþjónustu hefur Airwaves vaxið stór fiskur um hrygg undanfarin ár. Samtals er reiknað með um 9.000 gestum á hátíðina í ár, samanborið við 5.250 árið 2010 og 900 gesti árið 1999, og munu um 220 hljómsveitir koma fram víðsvegar um miðborg Reykjavíkur yfir þá fimm daga sem Airwaves stendur yfir (miðvikudagur til sunnudags). Tónleikastaðirnir í ár telja 14 talsins, en þeir eru talsvert fleiri þegar tekið er með utan-dagskrár (off-venue) tónleikastaði, sem eru stór partur af hátíðinni. Fleiri hátíðir hafa svo laðað til sín tónlistarunnendur síðustu ár og t.a.m. virðist Secret Solstice hátíðin 2016 hafa haslað sér völl og var „vinsælasta“ íslenska tónlistarhátíðin skv. Google Trends framan af þessu ári, enda um 15.000 manns sem sóttu hátíðina. 

Heimild: Google Trends

Af þeim 9.000 gestum sem sækja Airwaves hátíðina í ár má reikna með því að rúmlega 5.000 þeirra séu erlendir. Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTON) framkvæmdi könnun meðal gesta hátíðarinnar tímabilið 2010-2014 (einnig framkvæmd 2005) en samkvæmt henni fór hlutfall erlendra gesta á hátíðinni stigvaxandi allt til ársins 2014, þegar það lækkaði í 55,5%. Miðað við fréttir frá hátíðinni í fyrra hækkaði hlutfall erlendra ferðamanna hins vegar aftur 2015, upp í rúmlega 60%. Miðað við spá okkar um fjölgun ferðamanna 2016 má reikna með því að Airwaves ferðamenn muni standa undir 4,6% af heildar ferðamönnum í nóvember á þessu ári, samanborið við 6,7% árið áður og 8,3% árið þar áður. Lækkun hlutfallsins skýrist einfaldlega af þeirri þróun að fjöldi tónleikagesta hefur haldist í kringum 9.000 undanfarin þrjú ár (að 2016 meðtöldu) á meðan að ferðamönnum til landsins yfir tónleikamánuðinn hefur fjölgað gífurlega á sama tíma. 

Heimild: Ferðamálastofa, ÚTON *Árin 2010 og 2011 fór hátíðin fram í október

Eitt það fyrsta sem kennt er í hagfræði er lögmálið um framboð og eftirspurn. Þegar eftirspurn eykst þá hækkar verð á tiltekinni vöru og/eða þjónustu, að öðru óbreyttu. Algengur mælikvarði sem notast er við í hótelgeiranum til að kanna verðsveiflur og eftirspurn kallast RevPar (e. revenue per available room), en hann sýnir tekjur sem herbergi gefur af sér yfir tiltekið tímabil. Nokkuð skemmtileg mynd birtist þegar vikulegt RevPar skráðra Airbnb herbergja í Reykjavík er skoðað frá ágúst 2015 til ágúst 2016. Herbergistekjur eru hæstar yfir jólavikuna en eru annars að jafnaði hæstar yfir sumartímann. Eftir að líða tekur á haustið fara tekjurnar lækkandi, en rjúka svo upp á meðan Iceland Airwaves hátíðin stendur yfir og skila að jafnaði $750 þá helgi. Það er því ljóst að Airbnb leigjendur sjá sér tækifæri í að hækka leiguna í Airwaves vikunni. Þegar horft er til RevPAR hjá hótelum þá hækkaði mælikvarðinn um 46% í nóvember milli áranna 2011 og 2012, sama ár og hátíðin var færð úr október yfir í nóvember. Sömu sögu er að segja um nýtingarhlutfall hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu, en það hækkaði um 15,4 prósentustig á milli nóvember 2011 og 2012. Það virðist því sem aukin eftirspurn eftir hótelherbergjum í kjölfar þess að Airwaves var flutt yfir í nóvember hafi stórlega aukið tekjur og leitt til betri nýtingar á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu þann mánuðinn. 

Heimild: AIRDNA

Í könnun ÚTON kemur fram að bein velta Airwaves ferðamanna árið 2014 hafi verið rúmlega 1.687 m.kr. á verðlagi október 2016, sem var þá 437 m.kr. aukning frá árinu áður. Að meðtöldum margföldunaráhrifum er talið að heildartekjurnar hafi numið allt að þremur milljörðum króna það árið. Meðalneysla erlendra ferðamanna á hátíðinni 2014 var 28.355 kr. á hverja gistinótt (án flugs, gistingar og tónleikamiða) og 210.828 kr. yfir heildardvölina (verðlag okt. 2016), en hátíðagestir eyddu að jafnaði um 7,44 gistinóttum á landinu það árið, samanborið við um 6,6 nætur árin þrjú þar á undan. Taka þarf fram að útgjöld utan höfuðborgarsvæðisins er ekki meðtalinn i þeim tölum. Ef miðað er við að neysla erlendra ferðamanna á hátíðinni í ár verði sambærileg og 2014 þá má reikna með því að erlendir Airwaves ferðamenn muni standa undir 1,2% af þjónustuútflutningi Íslands á fjórða fjórðungi 2016 og 0,3% af heildarþjónustuútflutningi ársins 2016. Miðað við spár okkar um framlag þjónustuútflutnings til landsframleiðslu, sem m.a. birt var í ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar, þá má afar gróflega reikna með að því að erlendir Airwaves gestir muni því standa undir 0,032% af landsframleiðslu ársins 2016. Hafa þarf í huga að gera ráð fyrir því að neysla á mann verði sú sama og 2014 er mjög hæpin forsenda þar sem gengi krónunnar hefur styrkst mikið síðan nóvember 2014.

Iceland Airwaves glæðir höfuðborgina því ekki aðeins auknu lífi og veitir íslensku tónlistarfólki tækifæra til að koma sér á framfæri, heldur færir Íslendingum einnig þó nokkrar gjaldeyristekjur.