Skref í átt að losun fjármagnshafta

Skref í átt að losun fjármagnshafta

Með staðfestingu laga um gjaldeyrismál þann 11. október stigu stjórnvöld fyrsta skref í átt að losun fjármagnshafta. Hafa þarf í huga að hér er um að ræða lagabreytingu sem afnemur ekki fjármagnshöft en felur þó í sér viðamikla slökun á þeim takmörkunum sem hafa verið við lýði á fjármagnsflutningum milli landa. Almenningur hefur nú fengið heimild til að fjárfesta í erlendum fjármálagerningum fyrir 30 m.kr. og verður sú heimild víkkuð í 100 m.kr. um áramótin. Einnig er opnað á fjárfestingu einstaklinga í fasteignum erlendis.

Okkur sýnist höftin þar með vera orðin það rúm að þau hafa lítil áhrif á beinan sparnað vel flestra landsmanna. Óbeinu áhrifin eru þó enn til staðar í gegnum hámark á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða. Mikilvæga breytingin er sú sem snýr að beinni erlendri fjárfestingu innlendra aðila og víkkun á heimildum sem almennt séð geta aukið tækifæri lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að vaxa á erlendri grundu. Mörg af okkar stærri útflutningsfyrirtækjum byrjuðu á sínum tíma sem lítil sprotafyrirtæki og er vöxtur á erlendum mörkuðum ein lykilforsenda þess að þau geti vaxið og dafnað. Það má því fagna því að fyrsta skref sé stigið í átt að losun hafta enda hefur þjóðarbúið sjaldnar staðið betur hvað það varðar ef horft er á sterka stöðu gjaldeyrisforðans, erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, afgang af viðskiptajöfnuði og þeirra aðgerða sem búið er að grípa til til þess að ryðja úr vegi þeim greiðslujafnaðarvanda sem ríkti vegna slitabúa gömlu bankanna og aflandskróna. Mögulegt er að það hefði mátt stíga þetta skref fyrr, en eins og segir í málshættinum „sígandi lukka er best“.

Hér er hlekkur á kynningu Arion banka um fyrstu skref í átt að losun fjármagnshafta: 

Skref í átt að losun fjármagnshafta.pdf