Haukar vinna - Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Haukar vinna - Spáum óbreyttum stýrivöxtum

Miðvikudaginn 16. nóvember verður tilkynnt um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Að okkar mati er afar tvísýnt um ákvörðun nefndarinnar. Vaxtahækkun er óhugsandi og valið mun standa á milli óbreyttra stýrivaxta og vaxtalækkunar upp á 25 eða 50 punkta. Við teljum að vaxtahaukar muni hafa vinninginn og spáum við óbreyttum stýrivöxtum.

Í röksemd teljum við að peningastefnunefnd muni vísa í ýmis merki um töluverða spennu í hagkerfinu og því þurfi að viðhalda aðhaldi peningastefnunnar. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur raunvaxtastig lítið breyst, hvort sem miðað er við 5 ára verðbólguálag eða núverandi verðbólgu, og því hafa þær forsendur ekki breyst svo neinu munar frá því í október. Í hagspá okkar gerum við ráð fyrir að Seðlabankinn haldi raunvaxtastigi nokkurn veginn óbreyttu næstu mánuðina eða vel inn á næsta ár líkt og sést á myndinni að neðan. Aftur á móti ef gengi krónunnar styrkist enn frekar á næstunni er líklegt að peningastefnunefnd breyti um kúrs og lækki vexti. Samhliða stýrivaxtaákvörðun gefur Seðlabankinn út Peningamál og reiknum við fastlega með að þar verði verðbólguspá færð niður til skemmri tíma til samræmis við styrkingu krónunnar. Hins vegar gæti verðbólguskot verið að finna í lengri tíma spá ef bankinn metur að krónan sé að ofrísa. Ástæða er til að gengi krónunnar fái mikla vigt í umfjöllun bankans. Í því sambandi er lykilatriði hvaða stefnu peningastefnunefnd mótar í gjaldeyrisinngripum og skýrist það vonandi á næsta vaxtaákvörðunarfundi.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka

Innlend eftirspurn á skriði

Síðasta vaxtaákvörðun var kynnt 5. október sl. og nefndin mun líklega skoða þróun hagvísa síðan þá. Þeir benda flestir til áframhaldandi þenslu. Nýjustu vinnumarkaðstölur sýna frekari spennu á vinnumarkaði hvort sem horft er á atvinnuleysi, sem mældist 2,6% á þriðja ársfjórðungi, eða aukna atvinnuþátttöku sem mældist 84,5%. Óljóst er hvort kjarasamningar verða teknir upp í febrúar næstkomandi en nýleg ákvörðun Kjararáðs er ekki til þess fallin að létta andrúmsloftið á vinnumarkaði.

Kortavelta í september jókst um 10% milli ára og væntingavísitala Gallup í október hækkaði um 9% milli mánaða og hefur ekki verið jafn há síðan vorið 2007. Tölur Samgöngustofu sína að nýskráningum bifreiða fjölgaði um 14% frá fyrra ári í október og þó lítillega hafi hægt á vexti kaupmáttar var árshækkun vísitölu kaupmáttar í september 8,5%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 12% á ársgrunni í september og vísitala dagvöru hækkaði um 9% í september. Þá á eftir að koma í ljós hvort jólaverslun nái nýjum hæðum í ár líkt og Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir. Með augun á þessari þróun mun peningastefnunefnd áfram vísa til vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og það verður að viðurkennast þar hafa vaxtahaukarnir mörg spil á hendi þegar kemur að því að færa rök gegn vaxtalækkun.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands

Verðbólgan sem aldrei kom – púslið sem vantar

Ör vöxtur innlendrar eftirspurnar breytir því ekki að meginmarkmið Seðlabankans er, lögum samkvæmt, stöðugt verðlag og bankinn hefur sett sér verðbólgumarkmið. Það vill svo til að þrátt fyrir aukin umsvif í hagkerfinu lætur verðbólgan ekki á sér kræla. Ástæðan er umtalsverð styrking krónunnar en ýmsir undirliðir vísitölu neysluverðs, hvort sem það eru bílar, símaþjónusta, föt, skór eða raftæki verið að lækka undanfarna 12 mánuði þrátt fyrir vöxt eftirspurnar. Á næsta ári er útlit fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna og frekara gjaldeyrisinnstreymi og því gæti nafngengið hæglega haldið áfram að styrkjast. Þá stendur fyrir dyrum afnám tolla á tiltekna vöruflokka og aukin samkeppni í verslun. Það gæti því farið svo að ársverðbólga og verðbólguvæntingar lækki í byrjun næsta árs og hækkandi raunvaxtastig kalli á lækkun nafnvaxta. Það ríkir þó mikil óvissa um þróun gengisins og hætt við að til lengri tíma litið muni styrking raungengisins grafa undan samkeppnishæfni útflutningsgreina. Lykilspurningin er hvar jafnvægisraungengið er um þessar mundir og hvaða stefnu Seðlabankinn ætlar að taka hvað gjaldeyrisinngrip varðar nú þegar gjaldeyrisforðinn er orðinn nægilega stór.

Heimildir: Seðlabanki Íslands, Greiningardeild Arion banka

Kemur rúmur milljarður á dag skapinu í lag? – Endurmat á stefnu Seðlabankans í gjaldeyrisinngripum

Í fundargerð peningastefnunefndar í október kemur fram að ekki hafi verið tímabært að endurskoða stefnu Seðlabankans í gjaldeyrisinngripum þar sem frumvarp um losun fjármagnshafta hafði þá ekki verið samþykkt. Ein helstu rökin fyrir mikilli forðasöfnun síðustu misseri hafa einmitt verið þau að eiga nægan gjaldeyrisforða til að bregðast við hugsanlegu útflæði þegar höft yrðu losuð. Lagabreytingin tók gildi 21. október sl., þannig að fyrstu viðbrögð landsmanna liggja fyrir. Óhætt er að segja að auknar heimildir Íslendinga til fjárfestinga erlendis hafi haft sáralítil áhrif og nánast eins og Seðlabankinn sé eini íslenski aðilinn sem kaupir gjaldeyri af einhverri sannfæringu um þessar mundir. Í október keypti bankinn gjaldeyri fyrir samtals 50 ma.kr. og samt hefur krónan styrkst um 3% frá lyftingu hafta. Rök fyrir áframhaldandi forðasöfnun geta því tæplega byggt á því að losun fjármagnshafta sé framundan. Bankinn hefur hingað til einnig skýrt kaupin sem viðbrögð við miklu innstreymi, til að koma í veg fyrir ofris, draga úr hættu á snarpri gengislækkun síðar og við vissar aðstæður vinna gegn óhóflegum frávikum frá jafnvægisgengi. Peningastefnunefnd hefur jafnframt sagt það ekki æskilegt að taka verðmyndun á krónu á markaði algjörlega úr sambandi. Fyrir síðustu vaxtaákvörðun lýstu nefndarmenn í peningastefnunefnd nokkrum áhyggjum af mikilli hækkun raungengis á stuttum tíma „og bent var á að ákveðin óvissa ríkti um forsendur hækkunarinnar til lengri tíma litið, þ.e.a.s. viðskiptakjarabatann og bylgju ferðamanna sem streymdu til landsins,“ eins og segir í fundargerð. Nú þegar nafngengi krónunnar hefur styrkst um 4% til viðbótar eru áhyggjur nefndarmanna væntanlega síst minni. Þess vegna mun Seðlabankinn líklega halda áfram gjaldeyriskaupum og uppbyggingu gjaldeyrisforða þó hægja muni á kaupunum, allt þar til dregur úr innstreyminu og/eða gjaldeyriskaup annarra innlendra aðila færast í aukana. Peningastefnunefnd þarf þá að taka tillit til þess að vaxtamunur við útlönd hefur áhrif á erlenda fjárfestingu innlendra aðila. Við teljum að vaxtalækkun og auknar heimildir lífeyrissjóða myndu ýta undir erlenda fjárfestingu innlendra aðila, sem léttir þrýstingi af Seðlabankanum og liðkar fyrir aðlögun að jafnvægisraungengi síðar meir – hvar svo sem það jafnvægi verður að finna?

Seðlabankanum er vandi á höndum í vaxtaákvörðun sinni. Hann þarf að taka tillit til hefðbundinna viðvörunarljósa um þenslu sem nú þegar eru farin að blikka en einnig þarf hann að hafa í huga að vaxtastigið heldur aftur af gjaldeyrisútstreymi og þar með eykur hættuna á ofrisi krónunnar sem leiddi af sér gengisveikingu og verðbólguskot síðar líkt og við bentum á í nýútkominni Hagspá.