Spáum 0,2% lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember

Spáum 0,2% lækkun vísitölu neysluverðs í nóvember

Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% milli mánaða í nóvember. Helstu liðir sem lækka eru ferðir og flutningar (-0,17% áhrif á VNV), en þar vegur lækkun flugfargjalda til útlanda þyngst þó bílar lækki líka í verði, húsgögn og heimilisbúnaður (-0,04% áhrif á VNV), matarkarfan (-0,03% áhrif á VNV) og póstur og sími (-0,03% áhrif á VNV). Aðrir liðir lækka minna en helsti liðurinn sem hækkar er, eins og venjulega, húsnæðisverð (reiknuð húsaleiga með +0,10% áhrif á VNV). Hagstofan birtir mælingu sína föstudaginn 25. nóvember nk.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Við spáum því að verðlag standi í stað í desember en lækki svo hressilega, um -0,8% í útsölum janúar. Þá spáum við 0,7% hækkun í febrúar á næsta ári þegar útsölur byrja að ganga til baka. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í í 1,4% í febrúar á næsta ári.

Flugfargjöld og bílar lækka í verði

Okkar verðmælingar benda til þess að flugfargjöld til útlanda lækki í verði milli mánaða í nóvember (-0,14% áhrif á VNV). Verð á flugfargjöldum til útlanda hefur sveiflast minna á þessu ári en í fyrra og er nú um 10% lægra en í upphafi árs. Eldsneytisverð stendur í stað milli mánaða samkvæmt okkar verðmælingum. Fyrst í mánuðinum hækkaði verðið en sú hækkun hefur nú gengið til baka, enda hefur verð á hráolíu farið hratt lækkandi undanfarið. Verð á tunnu af Brent Norðursjávarolíu hefur lækkað um 13% í dollurum talið frá því um miðjan október og stendur nú í rúmlega 45 Bandaríkjadölum. Við bætist svo 3% styrking krónunnar á sama tímabili. Því má fastlega gera ráð fyrir að einhver verðlækkun verði á eldsneyti innanlands næstu mánuði ef sama þróun heldur áfram. Að lokum má nefna að bílar lækka í verði samkvæmt úttekt Greiningardeildar (-0,03% áhrif á VNV). Bílar hafa verið að lækka undanfarna mánuði og virðist sú þróun ætla að halda áfram.

Húsgögn, matur og drykkir lækka í verði

Það fer ekki framhjá neinum að jólin eru renna í hlað enda eru jólasveinarnir komnir á kókflöskurnar og búið er að kveikja í jólageitinni við IKEA. Líkt og áður byrja ýmsar útsölur á matvörum og drykkjum og spáum við því að matarkarfan lækki (-0,03% áhrif á VNV). Taka má fram að matarkarfan hefur lækkað þó nokkuð undanfarna mánuði og heldur því sú þróun áfram. Að sama skapi lækka húsgögn og heimilisbúnaður (-0,04% áhrif á VNV). Þær tölur eru þó tvísýnni því útsölur eru á húsgögnum um nánast hverja helgi þessa dagana. Það veltur á mælingaraðferðum Hagstofunnar hve mikið af þeim útsölum ratar inn í vísitölu neysluverð. Lækkunin kann því að vera minni en við spáum hér. Á myndinni að neðan má sjá hvernig ýmsir undirliðir vísitölu neysluverðs hafa gjarnan hækkað milli mánaða í nóvember en með styrkingu krónunnar hefur sú þróun snúist við.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Gagnamagnið eykst og farsímaþjónusta lækkar

Gagnamagn sem flæðir um farsímanet landsmanna hefur aukist hratt undanfarin misseri og kemur það glögglega fram í nýlegri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptaþjónustustofnunar (PFS). Eftir að Hagstofan tók upp þá mælingaraðferð að mæla verð farsímaþjónustu á hverja gagnaeiningu hefur verð á farsímaþjónustu farið lækkandi og sést það vel á myndinni hér að neðan. Þar má sjá aukningu gagnamagns sem fer um farsímanet landsmanna og hve hratt verð hefur lækkað undanfarið ár. Við spáum því að gagnamagnið haldi áfram að aukast og að póstur og sími lækki í mánuðinum (-0,03% áhrif á VNV). Einnig spáum við að aðrar vörur og þjónusta lækki (-0,02% áhrif á VNV) en aðrir liðir breytast minna.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.

Húsnæðisliðurinn er einn af fáum liðum sem hækka

Við spáum því að húsnæðisliðurinn hækki minna nú en undanfarna mánuði eða um rúmlega 0,6% milli mánaða (+0,10% áhrif á VNV). Húsnæðisverð um land allt hefur hækkað um 1% milli mánaða sex mánuði í röð eða frá því í maí á þessu ári og er því líklegt að það hægi á þeirri þróun um sinn. Að okkar mati er það ekki eðlileg verðþróun að húsnæðisverð hækki um 1 – 2% í hverjum einasta mánuði og því muni draga úr hækkunum og þær færast niður á eðlilegra stig. Við gerum ráð fyrir að greidd húsaleiga lækki lítillega milli mánaða (-0,01% áhrif á VNV) og húsnæðisliðurinn í heild hafi +0,09% áhrif á VNV til hækkunar.

Spáum lítilli verðbólgu yfir hátíðirnar

Við spáum lítilli verðbólgu næstu mánuði enda má búast við ríflegum útsöluáhrifum í byrjun nýs árs, jafnvel meiri áhrifum en venjulega ef afnám vörugjalda ganga í garð. Fyrst þarf þó að mynda ríkisstjórn, kalla Alþingi saman og samþykkja fjárlög áður en slíkt liggur fyrir. Á sama tíma er olíuverð að lækka og fara líkur á því að OPEC nái samkomulagi um að draga úr framleiðslu dvínandi eins og sakir standa nú. Krónan hefur haldið áfram að styrkjast undanfarna daga og má sjá útsölur á ýmsum innfluttum vörum, má þar nefna bíla og húsgögn sem dæmi. Á sama tíma hækkar væntingavísitala Gallup og spáir Rannsóknarsetur verslunarinnar að met verði sett í jólaverslun í ár. Það eru því ýmis merki um vaxandi eftirspurn en þegar öllu er á botninn hvolft breytir það ekki því að útlit er fyrir litla verðbólgu næstu mánuði.

Verðbólguþróun næstu mánuði:

Desember óbreytt: Flugfargjöld og húsnæðisverð hækka en matarkarfan og tómstundir lækka.
Janúar -0,8%: Útsölur í upphafi næsta árs á fötum og skóm og húsgögnum.
Febrúar +0,7%: Útsöluáhrif ganga til baka, matarverð hækkar og húsnæðisverð hækkar.

 

Heimildir: Hagstofa Íslands, Greiningardeild Arion banka.